23.10.1953
Efri deild: 7. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 59 í C-deild Alþingistíðinda. (2220)

57. mál, almannatryggingar

Flm. (Brynjólfur Bjarnason):

Herra forseti. Við flm. þessa frv. fluttum frv. í fyrsta skipti árið 1951. Það fékk þá enga afgreiðslu hér í þessari hv. d. Nefndin, sem því var vísað til, tók það aldrei til meðferðar og skilaði ekki nál. Nú flytjum við frv. á ný og við teljum það sérstaklega tímabært nú, vegna þess að í ráði er, að á þessu þingi verði afgreidd ný skattalög. Þetta eru mál, sem heyra saman og eiga að afgreiðast samtímis. Það er nauðsynlegt að afgreiða skattalög á sama þingi og þetta mál, og við teljum, að skattal. eigi ekki að endurskoða, nema um leið verði ákveðið, hvaða stefnu eigi að fylgja eftirleiðis að því er varðar persónugjöld almannatrygginganna.

Frv. þetta er mjög einfalt að formi, en það felur þó í sér tvö mjög mikilsverð atriði. Það er að öðrum þræði tryggingamál og að hinu leyti skattamál. Fyrra atriði er þess efnis, að III. kafli laga um almannatryggingar, kaflinn um heilsugæzlu, skuli koma til framkvæmda 1. jan. 1954. Framkvæmd þessa kafla hefur verið frestað hvað eftir annað, en samkvæmt núgildandi lagaákvæðum á hann að koma til framkvæmda 1955. Með þessu frv. er lagt til, að þessi kafli komi til framkvæmda ári fyrr, og við teljum, að ekki ætti að vera neitt því til fyrirstöðu, ef vilji er fyrir hendi og undirbúningur þegar hafinn og hraðað með þennan frest í huga, enda er nú drátturinn á framkvæmd þessa mikilvæga þáttar almannatryggingalaganna orðinn ærinn.

Hitt atriðið er persónuiðgjöldin, að persónuiðgjöld, þar með talin iðgjöld til sjúkrasamlaga, falli niður. Þetta hvort tveggja þarf að koma til framkvæmda samtímis. Ef iðgjöldin falla niður, er einsætt að taka upp það skipulag, sem gert er ráð fyrir í l. eins og þau voru afgreidd 1946, að öll tryggingastarfsemi verði sameinuð í eitt og sjúkrasamlögin þá lögð niður. Við álitum, að mjög sterk rök hnígi að því að fara þá leið, sem hér er lögð til. Undanfarið hafa iðgjöld til trygginganna og sjúkrasamlagsiðgjöldin hækkað gífurlega, og nú er svo komið, að kvæntur maður á fyrsta verðlagssvæði, þar sem sjúkrasamlagsiðgjöld eru 27 kr. fyrir einstaklinga á mánuði, eins og í Reykjavík, greiðir 1362 kr. á ári til trygginganna. Samtímis hafa hlunnindi sjúkrasamlaganna verið stórlega rýrð. Þetta er engin smáræðis upphæð, 1362 kr. á ári. Fyrir allan almenning er þetta miklu hærri upphæð en allur tekjuskatturinn. Hvað þýðir þetta? Það þýðir, að það er verið að hverfa meir og meir frá meginreglunni um stighækkandi skatt, einnig víð álagningu hinna beinu skatta. Þegar skattalögin voru sett, var ætlazt til þess, að einmitt þeirri meginreglu yrði fylgt, að skattarnir færu stighækkandi. En þegar nú mikill meiri hluti beinu skattanna, sem á almenningi hvíla, er orðinn nefskattur, þá er horfið frá þeirri reglu. Við flm. þessa frv. leggjum til, að það verði horfið til hennar aftur að þessu leyti.

Þegar litið er á aðra tekjustofna ríkisins, kemur þó enn skýrar í ljós, hversu lítið brot hinn stighækkandi tekjuskattur er af öllum ríkistekjunum. Tollar og óbeinir skattar, að meðtöldum bátagjaldeyri, nema nú hvorki meira né minna en milli 11 og 12 þús. kr. á hverja 5 manna fjölskyldu á landinu og allt að 15 þús., ef tekjur af einkasölum eru taldar með. Sú fjárfúlga, sem ríkið innheimtir beinlínis, er a. m. k. fjórðungur af öllum þjóðartekjunum, en þar af er tekju- og eignarskattur, eini skatturinn, sem lagður er á eftir efnum og ástæðum, aðeins um 10%, ef tryggingargjöldin eru talin með. Þessar tölur sýna, að það er fyrir löngu horfið frá þeirri reglu að skattleggja þegnana í hlutfalli við efnahagsgetu þeirra, þ. e. með stighækkandi skatti, þ. e. a. s., ríkið er horfið frá þessari reglu, bæjarfélögin fylgja henni hins vegar með útsvörunum. Enda þótt tollar séu ranglátir, þá tel ég, að nefskattar eins og tryggingagjöldin séu enn þá ranglátari. Það er þó hægt að komast undan nokkru af tollunum með því að láta vera að kaupa hinar hátolluðu vörur. En tryggingagjöldin er ekki hægt að komast hjá að greiða, a. m. k. ekki nema sjálfum sér til tjóns. En því miður eru það nú samt allt of margir, sem gera það og falla þannig út úr tryggingu og venjulega vegna þess, að greiðslan er þeim um megn. Einkum eru brögð að þessu, þegar atvinnuleysi steðjar að. Og þá er komið að einum rökunum enn fyrir því að taka upp þetta fyrirkomulag, sem hér er lagt til. Almannatryggingarnar eru því aðeins raunverulegar almannatryggingar, að allir séu í réttindum.

Þetta fyrirkomulag mundi vitaskuld hafa í för með sér mjög mikinn sparnað fyrir tryggingarnar. Allur kostnaður við innheimtu gjalda mundi falla niður, kostnaður sá, sem nú er við rekstur sjúkrasamlaganna, mundi að mestu leyti sparast, og það er ekki lítil upphæð.

Hvað hér er um mikið fé að ræða, sem afla yrði á annan hátt og ríkissjóður yrði að leggja fram, hef ég ekki tæmandi upplýsingar um. Persónuiðgjöld alþýðutrygginganna eru nú um 33 millj. kr. samkvæmt áætlun fyrir næsta fjárhagsár. Við þetta bætist svo kostnaður við rekstur sjúkrasamlaganna, og ætti að vera tiltölulega auðvelt fyrir þn. að fá skýrslur um það.

Hæstv. ríkisstj. hefur nú boðað lækkun tekjuskattsins. Það liggur því fyrir, að hæstv. ríkisstj. telur sér fært fjárhagsins vegna að lækka beinu skattana. En sú skattalækkun, sem mundi koma almenningi og fyrst og fremst þeim tekjuminnstu að langmestum notum, er einmitt sú, sem hér er lögð til, eins og ég þykist nú hafa sýnt nógsamlega fram á. Auk þess mundi þetta miða að því að gera skattalöggjöfina einfaldari og auðveldari í framkvæmd. En einmitt þetta sjónarmið skal hafa í huga við endurskoðun skattal. samkvæmt þeirri þáltill., sem samþ. var hér á síðasta ári. Þar segir svo: „Lögð skal einnig áherzla á að gera skattalöggjöfina svo einfalda og auðvelda í framkvæmd sem frekast er unnt.“ Eins og ég hef áður sagt, verður þetta að vera einn þátturinn í þeirri endurskoðun skattalöggjafarinnar, sem ætlazt er til, að framkvæmd verði á þessu þingi.

Sumir munu nú ef til vill halda því fram, að það gegni öðru máli um tryggingar en aðra þjónustu hins opinbera. Það sé sjálfsagt, að menn greiði iðgjöld til trygginganna, kaupi sér persónulega tryggingu. Þessir menn líta á alþýðutryggingarnar eins og hverja aðra vátryggingu. Þetta sjónarmið álít ég alrangt. Við verðum að venja okkur á að líta á almannatryggingarnar sem hverja aðra opinbera þjónustu, nauðsynlega og óhjákvæmilega í hverju nútíma þjóðfélagi, alveg eins og skóla, löggæzlu o. s. frv. Það er frá mínu sjónarmiði ekki hótinu meiri ástæða til þess að kostnaður við tryggingar sé greiddur með nefsköttum en t. d. kostnaður við skóla og löggæzlu og aðra nauðsynlega opinbera þjónustu.

Ég geri ráð fyrir, að skattafrv. fyrirhugaða komi til fjhn., og vegna þess, sem ég hef áður sagt um samhengi þessara tveggja mála, þá legg ég til, að þessu frv. verði einnig vísað til hv. fjhn. Og ég treysti því, að það fái þar afgreiðslu. Ef hv. alþm. þykir stigið of stórt skref með því að afnema persónuiðgjöldin, þá er a. m. k. nokkuð fengið, ef samkomulag gæti orðið um að lækka þau verulega, um leið og allt tryggingakerfið yrði sameinað, eins og hér er lagt til. Ég treysti því, að hv. n. taki málið til vandlegrar meðferðar.