23.10.1953
Efri deild: 7. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 62 í C-deild Alþingistíðinda. (2223)

57. mál, almannatryggingar

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Eftir að hafa hlýtt á framsöguræðu hv. fyrra flm., þá get ég fallizt á till. hans um, að þessu máli, sé vísað til fjhn. Það, sem hér er um að ræða, er í raun og veru það að flytja iðgjaldaupphæðina af þeim, sem nú greiða iðgjöld til Tryggingastofnunarinnar og sjúkrasamlaga, og yfir á ríkissjóðinn. Þarf þá að sjálfsögðu, ef að þessu yrði hallazt, að gera stórfelldar breytingar á skattalöggjöf landsins; það er augljóst mál. Hins vegar er ekki í þessu frv. lagt til, að neinum atriðum í tryggingalöggjöfinni, sem varða bótagreiðslur og tryggingu fólksins, sé breytt á nokkurn hátt. Hér er því eingöngu um fjárhagsatriði að ræða, að flytja þessa upphæð af iðgjaldagreiðendum og yfir á ríkissjóðinn, sem síðan aftur tæki féð á annan hátt í tollum eða sköttum af landsmönnum. — Miðað við árið 1952 mun láta nærri, að samanlögð iðgjöld til trygginganna og sjúkrasamlaganna hafi numið álögð nálægt 50 millj. kr. Þessar upphæðir verða án efa stórum hærri á árinu 1954, bæði vegna vaxandi dýrtíðar og vegna þeirra breytinga, sem gerðar voru á síðasta hv. Alþ. á tryggingalöggjöfinni, eins og menn muna.

Ég styð því till. flm. um að málið fari til fjhn., þrátt fyrir það heiti, sem frv. hefur. (Gripið fram í.) Það breytir engu í því efni. Það, sem breytist, er, að í staðinn fyrir að greiða iðgjöld til sjúkrasamlaga þurfa menn væntanlega að greiða hærri tolla eða skatta til ríkissjóðsins. Það er hreint fjárhagsatriði. Um réttindi manna til sjúkrahjálpar er ekki gert ráð fyrir neinum breytingum.