30.11.1953
Efri deild: 26. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 69 í C-deild Alþingistíðinda. (2229)

57. mál, almannatryggingar

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti. Ég þarf nú ekki að hafa mörg orð um þetta núna. Hv. frsm. n. hefur nú haldið hér alllanga ræðu um þetta mál og borið fram röksemdir, sem hann hefur flutt í ótal ræðum hér á Alþ. áður og að mínum dómi eru margar hverjar ærið fjarstæðar. Ég ætla ekki að fara langt út í það.

Hv. frsm. sagði, að tryggingarnar ættu ekki að vera fátækrahjálp eða ölmusa, heldur réttur, sem menn greiða fyrir. Ég er honum alveg sammála. Það eiga tryggingarnar að vera, trygging fyrir því að fá lífeyri, ef eitthvað ber að höndum, þannig að menn geti ekki framfært sig sjálfir, alveg ótvíræður réttur, en engin ölmusa, alveg sams konar réttur og menn hafa til annarrar opinberrar þjónustu, sem menn greiða fyrir með sköttum sínum, hvernig svo sem þeirra er aflað. Spurningin er ekki um það, hvort menn greiða fyrir trygginguna eða greiða ekki fyrir hana. Spurningin er um það, hvernig á að afla fjárins til þess að greiða trygginguna, eins og um alla aðra þjónustu ríkisins. Að því leyti er þetta ekkert annað en skattamál. En hv. þm. ruglar hér algerlega saman vátryggingu, sem menn kaupa sér persónulega, og þjóðfélagstryggingu. Hann álítur, að það eigi ekki að heita trygging, nema því aðeins að það sé vátrygging, að það sé hægt að skilgreina það sem vátryggingu. Á vátryggingu og þjóðfélagstryggingu er vitaskuld mikill munur. Sem sagt, þjóðfélagstrygging er í þessu fólgin, að hún er skyldutrygging, sem þjóðfélagið setur á stofn til þess að tryggja mönnum það, að þeir fái lífeyri, ef eitthvað ber að höndum, þannig að þeir geti ekki framfært sig sjálfir. Síðan er það annað atriði, hvernig fjárins er aflað, hvernig þegnarnir gjalda það fé, sem þarf til þess að halda tryggingunum uppi.

Þá er ýmislegt fleira, sem mætti taka til athugunar af því, sem hv. þm. sagði. Hann hneykslaðist mjög á því, að sagt er í grg., að það, sem ríkið tekur úr vasa hverrar fimm manna fjölskyldu á landinu að meðaltali með tollum og óbeinum sköttum, sé 12 þús. kr., eða 15 þús. kr. ef ágóði af einkasölum ríkisins er talinn með, eða nálægt því. Hv. þm. veit, að þetta er rétt. Hann þarf ekki annað en taka saman þær tölur, sem fyrir liggja í ríkisreikningunum og núna í fjárlfrv. fyrir 1954, og bæta við það bátagjaldeyrinum, og þá fær hann út þessa tölu. Þetta er vitaskuld meðaltal, og hefur engum dottið í hug að halda öðru fram. Að hver einasta fjölskylda á landinu borgaði jafnt, hvenær hefur það verið sagt? Hér er aðeins að ræða um meðaltal og ekki nokkur leið að reikna út fyrir hverja einstaka fjölskyldu. hvað hún greiðir. En þetta sýnir aðeins, hvílíkur óskaplegur baggi hinir óbeinu skattar eru á hverri fjölskyldu. Og bagginn er því meiri sem fjölskyldan er stærri, þ. e. a. s. meiri fyrir barnafjölskyldur en fyrir aðra. Og þetta er einmitt það allra óréttlátasta við hina óbeinu skatta og tollana. Við flm. segjum í grg., að það verði ekki undan því ekizt að greiða þessa skatta í fötum og fæði o. s. frv. Vitaskuld er það mismunandi, sem fjölskyldurnar greiða. Þetta er meðaltalið, og er fásinna að snúa út úr því. Sem sagt, hv. þm. gat ekki annað gert en að staðfesta þetta. — Hvað snertir þá athugasemd hans, að sumt af þessu sé greitt af vörum, sem félög og fyrirtæki kaupa til rekstrar síns, þá leggst það vitaskuld að lokum allt á almenning í verði vörunnar.

Hv. þm. spurði að lokum, hvar ætti að taka þetta fé, sem þarf til þess að bera uppi tryggingarnar, ef það er ekki tekið með persónuiðgjöldum. Að sjálfsögðu mundu þegnarnir ekki þurfa að greiða einum eyri meira til trygginganna, þó að þetta frv. yrði samþ., vegna þess að það hefur ekki í för með sér neina breytingu á sjálfri tryggingalöggjöfinni aðra heldur en þessa, og svo hitt, að ætlazt er til þess, að heilsugæzlukaflinn komi til framkvæmda strax í byrjun árs 1954, en samkv. núverandi lagaákvæðum er ætlazt til, að hann komi til framkvæmda aðeins ári seinna, svo að hér er ekki um að ræða nein aukin útgjöld. Raunar skiptir það ekki sérlega miklu máli að því er snertir aukin útgjöld, þó að heilsugæzlukafli l. kæmi til framkvæmda. Þar er ekki um að ræða nema nokkrar milljónir, sem bætast við kostnaðinn, sem vitaskuld er, eins og nú standa sakir, aðeins áætlunarupphæð. En þá er spurningin, hvernig á að afla þessa fjár, hvaða aðrir tekjustofnar eiga að koma í staðinn. Vitaskuld mundi vera hægt að afla ríkinu fjár til þessara hluta án þess, að það þyrfti allt saman að koma fram sem hækkun á þeim tekjustofnum, sem nú eru fyrir hendi, þ. e. tollum eða tekju- og eignarskatti. Það má benda á ótal leiðir. Það má t. d. benda á, að það væri hægt að innheimta tolla af öllum þeim varningi. sem kemur til hins svo kallaða varnarliðs á Keflavíkurflugvelli, eins og nú standa sakir. Það má benda á, að það væri hægt að láta gróðann af olíusölunni renna í ríkissjóð, og það væri hægt að láta annan innflutningsgróða renna í ríkissjóð, og svo gæti ég lengi talið. Ég ætla ekki að fara langt út í það mál hér. En ef um það er að ræða, hvort eigi að innheimta það fé, sem þarf til þess að bera tryggingarnar uppi, með nefsköttum, með persónuiðgjöldum eða með stighækkandi sköttum, þá kýs ég stighækkandi skatta. Sem sagt, ég kýs þá tekjuöflun, þar sem skattarnir eru á lagðir eftir efnum og ástæðum. Það er þarna, sem mig og hv. þm. greinir svo mjög á. Þarna mætast alveg gersamlega andstæðar skoðanir. Þessi hv. þm. segir, að þegar standi til að lækka tekjuskattinn, eins og ríkisstj. hefur þegar boðað, þá sé alls ekki um það að ræða, að þessi skattstofn eigi að lækka, heldur muni þetta verða til þess, að það fáist að minnsta kosti eins mikið fé og áður. Hv. þm. hefur nú viljað ganga lengra, því að hann hefur viljað afnema tekjuskattinn alveg og flutt um það frv. á þingi. Þessar skoðanir hans hafa verið hraktar ýtarlega áður, og ég ætla ekki að fara neitt nánar út í það hér. En sem sagt, röksemd hv. þm. er þessi, að þegar tekjurnar séu komnar upp fyrir ákveðið mark, þá hætti menn að auka þær, vegna þess að það fer allt í skatt, þannig að hinn hái skattur hindri menn í að auka tekjur sínar, þegar komið er upp fyrir visst mark. Með öðrum orðum, hv. þm. ætlast til þess, að sú breyting, sem nú verður gerð á tekjuskattinum, verði þess eðlis, að hann lækki á háum tekjum, en ekki lágum tekjum, því að vitanlega gildir þessi röksemd aðeins fyrir háar tekjur. en ekki fyrir lágar. Þá heyrir maður það. Það væri náttúrlega gott að heyra frá hæstv. ríkisstj., hvort hún hefur hugsað sér að framkvæma loforð sitt um skattalækkun einmitt þannig, — hvort það er rétt skilið hjá hv. þm. Vitaskuld er hér um falsröksemd að ræða. Menn hætta ekki að auka tekjur sínar, þegar komið er upp fyrir ákveðið hámark vegna skattanna. Það er rétt, það fer allmikið í skatta. En samt sem áður borgar sig alltaf fyrir hvern sem er að auka tekjur sínar. Ég þekki ekki einn einasta launamann, sem er kominn svo hátt í tekjum, að hann hafni kauphækkun vegna skattanna. Hann kysi náttúrlega heldur að fá launahækkunina á þann hátt, að hann gæti dregið hana undan skatti. Það er alveg rétt. En að hann hafni launahækkun vegna skattanna, það er eins og hver önnur fjarstæða. Hv. þm. hefði hins vegar farið með rétt mál. ef hann hefði sagt, að þegar tekjur einstaklinga og félaga eru komnar upp í visst mark, þá „borgar sig ekki að telja meira fram,“ og þess vegna reyna menn að finna öll ráð til þess að komast undan því. Vandamálið liggur þess vegna í því að finna ráð til þess, að sjá til þess, að menn geri rétt framtöl, finna ráð til þess að ná til þeirra tekna, sem raunverulega eru fyrir hendi og eru dregnar undan skatti. Ég ætla ekki að fara lengra út í þetta.

Í raun og veru var þessi ræða hv. þm., hv. frsm. n., ekki í samræmi við nál. og þá rökst. dagskrá, sem hér er lögð fram af hálfu n., þar sem ekki er tekin nein efnisleg afstaða, hvorki neikvæð né jákvæð, til frv., en það gerði hv. frsm. Og ég vil þakka n. fyrir að taka málið til afgreiðslu, þar sem þetta er nú í annað skipti, sem ég flyt það í þessari hv. d. Þetta ber að þakka, enda þótt hún hafi ekki treyst sér til þess að taka efnislega afstöðu til málsins. Það er í sjálfu sér ekki óeðlilegt, sem er lagt til í hinni rökst. dagskrá. Það er í sjálfu sér eðlilegt, að till. þessar verði teknar til athugunar, um leið og heildarendurskoðun l. fer fram á næsta ári. En hitt er vafamál, sem þar er líka sagt, að hér sé um að ræða röskun á grundvallaratriðum núverandi tryggingalaga. Það frv., sem ég flyt hér, breytir engu í tryggingal. nema fjáröfluninni, auk þess sem ætlazt er til þess, að framkvæmd III. kafla l., um heilsugæzlu, komi til framkvæmda ári fyrr en núgildandi lagaákvæði gera ráð fyrir. Þetta er þess vegna fyrst og fremst skattamál, og þess vegna óskaði ég einmitt eftir því, að frv. færi til fjhn., sem t. d. ber að fjalla um það mál, sem boðað hefur verið, breytingu á skattalöggjöfinni. Og þar sem nú stendur til, að á þessu þingi verði gerðar breytingar á skattalögunum, þá taldi ég rétt, að þetta frv. mitt yrði afgreitt samtímis. Í öllu falli tel ég, ef þessi rökstudda dagskrá yrði samþ., sem ég get fyllilega unað við eftir atvikum, þegar nú líka er orðið eins áliðið árs og raun er á, að þá sé a. m. k. alveg nauðsynlegt, að þegar skattalögin koma til endurskoðunar nú á þessu þingi, þá verði þessi till. mín höfð í huga, því að samkvæmt þeirri rökst. dagskrá, sem liggur frammí, ef samþ. verður, verður hún tekin til athugunar, um leið og heildarendurskoðun almannatryggingalaganna fer fram á næsta ári.