07.12.1953
Neðri deild: 35. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 77 í C-deild Alþingistíðinda. (2237)

114. mál, Sjóvinnuskóli Íslands

Flm. (Gils Guðmundsson):

Herra forseti. Ég flyt hér á þskj. 222 frv. til laga um Sjóvinnuskóla Íslands. Frv. fylgir allýtarleg grg., þar sem ég hef leitazt við að færa rök að því, að þörf sé á fastri stofnun, slíkri sem hér um ræðir, og að kleift sé að hleypa henni af stokkunum án mjög tilfinnanlegs kostnaðar.

Ég sé ekki ástæðu til að endurtaka hér nema fátt af því, sem í grg. stendur, en vil hins vegar fjalla nokkru nánar en þar er gert um nauðsyn slíks skóla sem þessa, svo og víkja að þeim atriðum í frv., þar sem vel mætti hugsa sér fleiri en eina tilhögun, og ekki er endilega víst; að ég hafi í frv. alls staðar bent á þá leiðina af þeim, sem til greina koma, er hv. Alþingi sættir sig bezt við.

Ég ætla, að ekki þurfi að fara um það mörgum orðum hér, hver nauðsyn Íslendingum er að hafa jafnan á að skipa dugmikilli og menntaðri sjómannastétt, sem fær sé um að leysa vandasöm störf af höndum, hvort heldur er við farmennsku eða fiskveiðar. Með orðinu „menntun“ á ég hér ekki aðeins við þau fræði, sem lesin verða á bókum, heldur engu síður verkmenningu, fullkomin tök á því starfi, sem einstaklingurinn helgar krafta sína. Virðist mér, að einmitt sá þáttur menntunar, sem reynt er að skilgreina með orðinu „verkmenning“, hafi orðið nokkuð útundan hjá okkur Íslendingum á síðari tímum, miðað við hinn mikla vöxt og viðgang hvers kyns bóklegra fræða. Nú er það fjarri mér að vilja amast við því, að hver maður eigi sem mestan og jafnastan rétt til að njóta allrar þeirrar fræðslu og menntunar, sem hugur hans stendur til. Íslenzk mannsefni hafa nógu lengi á umliðnum öldum orðið að horfa á allar þær dyr læstar, sem upp varð að ljúka til að öðlast fjársjóði menntunar. Vissulega var tími til þess kominn, að þar yrði rækilega um bætt. En hitt er svo annað mál, að það er hvorki kleift né æskilegt, að allt æskufólk sitji frá bernsku til fullorðinsára á skólabekk, þar sem lögð er nálega einhliða áherzla á bókleg fræði. Það hefur nú um skeið verið mörgum nokkurt áhyggjuefni, að hinar löngu skólasetur og einhliða bókleg kennsla beindi huga ungu kynslóðarinnar of mjög frá undirstöðuatvinnuvegum landsmanna, sjávarútvegi, landbúnaði og jafnvel iðnaði, en of margir kepptu að því að framfleyta sér við embætti, skrifstofu- og verzlunarstörf eða aðra þá starfsemi, sem ekki krefst mikillar líkamlegrar vinnu.

Almenn menntun er að vísu góð og nauðsynleg í nútíma þjóðfélagi, hvaða störf sem einstaklingurinn stundar. Þó tel ég þá menn hafa mikið til síns máls, sem eru þeirrar skoðunar, að íslenzka fræðslukerfið hafi lagt of einhliða áherzlu á bókvísi.

Nágrannaþjóðir okkar hafa skilið það, að ef vel á að vera, þarf bóklegt og verklegt nám að haldast í hendur, hvoru tveggja þarf að gera jafnhátt undir höfði, en ekki má vanrækja annað á kostnað hins. Sakir þessa skilnings hefur verið komið upp á Norðurlöndum kerfisbundnu námi í verklegum fræðum, sem sums staðar er orðið afar fjölbreytt og komið á mjög hátt stig, ekki sízt í Svíþjóð, en Svíar eru mjög til fyrirmyndar í þeim efnum sem mörgum öðrum. — Svipað hefur vakað fyrir þeim mönnum hér á landi, sem fengu komið inn í fræðslulögin nýju ákvæðum um verknámsdeildir. Þau ákvæði eru þó enn að mjög litlu leyti komin til framkvæmda, og er því miður hætta á, að enn líði mörg ár, þar til verknámsdeildir eru almennt teknar til starfa víðs vegar um land, hafa hlotið viðunandi aðstöðu um húsakost, tæki og kennslukrafta og þar með þróazt í æskilegt horf. Tel ég líklegt og að mörgu leyti æskilegt, að þegar fram líða stundir, verði kennsla í verklegri sjóvinnu tengd hinu almenna skólakerfi, hún verði mikilvægur liður í verknámi hinna almennu unglingaskóla. En það virðist eiga svo langt í land, að eftir því er ekki hægt að bíða, að því er varðar kennslu í þeim störfum, sem tíðkast við sjávarsíðu. Þar eigum við Íslendingar svo mikið í húfi, að ekki má fresta því öllu lengur að hefjast handa um skipulega fræðslu. Breyttir tímar krefjast þess, að þessi mál verði tekin föstum tökum.

Áður á tímum var það regla, — og gilti hún allt fram á daga þeirrar kynslóðar, sem nú ber hita og þunga dagsins, — að æskumenn, sem ólust upp við sjávarsiðu og hugðust gera sjómennsku að ævistarfi, byrjuðu þegar á ungum aldri að taka þátt í störfum hinna fullorðnu og lærðu því snemma alla algenga sjávarvinnu. Þeir réðust í skiprúm um og litlu eftir fermingaraldur og urðu fullgildir, vel verki farnir skipverjar, þegar er þeim óx nokkuð fiskur um hrygg. Reyndist þeim auðvelt að ná fullum tökum á starfinu, einmitt vegna þess, að undirstaðan hafði verið rétt lögð og nægilega snemma.

Á síðustu tímum hefur orðið sú breyting á starfi sjómannsins vegna stóraukinnar tækni, bæði mikils vélakosts og fjölbreyttari veiðitækja og veiðiaðferða, að hann þarf að hafa til að bera meiri fjölhæfni en áður til þess að geta talizt fullgildur skipverji, sem hagnýtir af þekkingu og kunnáttu hin dýru og mikilsverðu tæki, sem heyra til sjávarútgerð og siglingum. Á þetta ekki aðeins við um yfirmenn og sérmenntaða menn á skipum, heldur einnig um háseta. Það er því mikils virði frá þjóðhagslegu sjónarmiði, að dýr skip, veiðarfæri og önnur tæki séu jafnan hagnýtt á þann veg, sem bezt má verða, en til þess þarf verulega kunnáttu. Verður það ekki gert með öðru en því að sjá svo um, að sjómannaefni eigi jafnan kost hinnar beztu verkmenntunar, sem völ er á, og að þeir fái þegar á ungum aldri nauðsynlegar leiðbeiningar þar til hæfra manna.

Þetta hafa nágrannaþjóðir okkar á Norðurlöndum skilið, eins og ég áðan sagði, og því hafa þær komið á fót hjá sér mjög vel skipulagðri kennslu sjómannaefna á verklegu sviði. Er mér kunnugt um, að bæði Norðmenn, Svíar og Danir hafa komið sér upp fullkomnum sjóvinnuskólum, þar sem hvorki er sparað til skólahúsa, kennslukrafta né nauðsynlegra tækja, enda telja þeir árangur þessarar fræðslu mjög góðan.

Jafnframt því, sem sjóvinnuskólar veita nemendum nauðsynlega tilsögn í algengum störfum til sjávar, eiga þeir einnig drjúgan þátt í því að vekja og glæða áhuga ungra manna á sjómennsku. Hér á landi virðist þess full þörf, svo mjög sem að því kveður nú hin síðustu ár, að æskumenn veigri sér við að gera hin erfiðu, en karlmannlegu sjómannsstörf að atvinnu sinni, svo sem þjóðinni er þó nauðsyn. Ótrygg og algerlega óviðunandi kjör, einkum á bátaflotanum, eiga að sjálfsögðu mikinn þátt í þessari þróun, þessari öfugþróun, og er knýjandi nauðsyn úr að bæta, þó að ég ætli ekki að fjölyrða um það í þessu sambandi.

Ég vil með flutningi frv. þess, sem hér liggur fyrir, vekja athygli hv. alþm. á þessu nauðsynjamáli. Ég hef við samningu þess haft það mjög í huga að gera ekki meiri kröfur um fjárframlög úr almannasjóði en svo, að ég geri mér vonir um, að hv. Alþingi geti fallizt á, að þar sé varlega í sakirnar farið. Höfuðatriðið er að hleypa þessu máli af stokkunum og láta sjóvinnuskólann síðan þróast smám saman, eftir því sem tök eru á og reynslan sýnir að bezt muni fara.

Ég tel, að þótt frv. mitt verði samþykkt, muni ekki þurfa í upphafi að eyða miklum fjármunum í nýjan húsakost, til þess að hægt sé að hefja sjóvinnukennslu, kleift sé að notast við húsnæði, sem þegar er fyrir hendi, ef til vill með lítilsháttar breytingum. Hér í Reykjavík er hinn veglegi sjómannaskóli ekki notaður til fullnustu. Þar er stór salur, sem sérstaklega er ætlaður til kennslu á verklegu sviði, og er mér tjáð, að auðveldlega megi hafa miklu meiri not af honum en gert er, ekki aðeins þann tíma árs, sem stýrimannaskólinn starfar ekki, heldur einnig á vetrum.

Fari svo, sem ég tel nálega fullvíst, að bæjar- og hreppsfélög, sem byggja afkomu sina að verulegu leyti á sjávarútgerð, vildu töluvert til þess vinna, að upp verði komið þar sjóvinnunámskeiðum, a. m. k. öðru hvoru, þá mundi þeim vafalaust kleift að leysa húsnæðisvandamálið til bráðabirgða. Tel ég eðlilegt, að reynslan verði síðan látin leiða í ljós, hvert gildi slík kennsla sem þessi hefur og hvernig heppilegast er að koma henni fyrir, áður en lagt er í mjög tilfinnanlegan byggingarkostnað.

Ég hef lagt til í frv., að ríkið standi straum af kostnaði við sjóvinnuskóla þann eða námskeið, sem þar er ráðgert að efnt verði til. Hins vegar vil ég geta þess, að ég er fús á að athuga allar till., sem fram kunna að koma um aðra lausn kostnaðarhliðar þessa máls. Mér hafði dottið í hug að taka ef til vill inn í frv. ákvæði um það að leggja á íslenzk skip, t. d. 100 lesta og stærri, vægt gjald, sem rynni til rekstrar sjóvinnuskólans. Má rökstyðja það, að útgerðarmönnum og útgerðarfélögum sé svo mikils virði, að sjómannaefni geti notið sem beztrar verkmenntunar, að ekki sé ósanngjarnt, að þeir aðilar leggi eitthvað af mörkum, til þess að svo geti orðið. Ég hvarf þó frá því að taka ákvæði um þetta inn í frv., en vel má athuga það nánar, ef hv. alþm. sýnist svo. Væri t. d. horfið að því ráði að láta hvert skráningarskylt skip, 100 lestir og stærra, greiða til sjóvinnuskólans árlegt gjald, er næmi til að mynda þrem krónum á hverja rúmlest skipsins, mundu þær tekjur sennilega standa undir 35 til 23 af rekstrarkostnaði sjóvinnuskólans, eins og hann yrði fyrst í stað. Rekstrarkostnaðurinn virðist mér ekki þurfa að fara fram úr 300 þús. kr. á ári fyrst um sinn.

Ég vænti þess, að þessu frv. verði vel tekið hér á hv. Alþingi. Ég hygg, að mér sé óhætt að fullyrða, að sjómannastéttin hefur verulegan áhuga á því, að eitthvað sé gert í svipaðá átt og hér er lagt til. Hafa samtök sjómanna gert samþykktir ýmsar í því efni.

Það gæti verið álitamál, til hvaða nefndar frv. sem þetta ætti að fara, hvort það ætti að fara til sjútvn. eða menntmn. En ég held nú, að eðli málsins sé það, að það eigi fremur heima í sjútvn., en vil þó bera það undir álit hæstv. forseta, en að þessari umr. lokinni óska ég ;að því verði vísað til nefndar og þá — að ég held — sjútvn.