16.02.1954
Neðri deild: 48. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 81 í C-deild Alþingistíðinda. (2239)

114. mál, Sjóvinnuskóli Íslands

Frsm. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Sjútvn. hefur haft til athugunar frv. til l. um Sjóvinnuskóla Íslands á þskj. 222 og skilað frá sér nál. um það á þskj. 366. Nefndin sendi frv. til umsagnar skólastjóra stýrimannaskólans og Fiskifélags Íslands og fékk svör frá báðum þessum aðilum, sem eru prentuð sem fylgiskjöl með nál., og læt ég mér nægja að vísa til þeirra.

Þessir aðilar báðir voru sammála um nauðsyn þess, að ungum mönnum, sem vildu stunda sjómennsku, hvort sem væri á fiskiskipum eða farskipum, yrði veitt nokkur kennsla í hinum daglegu störfum, sem þessum mönnum er ætlað að fást við. En þá greinir nokkuð á bæði innbyrðis og eins við flutningsmann frv. um það, hvernig þessi kennsla skuli veitt.

Hv. 8. þm. Reykv., sem flytur frv., gerir það að till. sinni, að stofnaður verði í Reykjavík sérstakur skóli, sem hafi það hlutverk með höndum að veita ungum mönnum þessa fræðslu og geri það á þann hátt, að það verði stofnað þar til eins eða fleiri þriggja mánaða námskeiða hvert ár, og síðan verði þessum skóla falið að sjá um kennslu í kaupstöðum og. sjávarþorpum, þar sem þess kynni að vera óskað og þörf fyrir þessa kennslu, á þann veg, að það verði a. m. k. haldið eitt námskeið í hverjum landsfjórðungi árlega, eins og komizt er að orði í frv.

Skólastjóri stýrimannaskólans virðist vera nokkuð inni á sömu hugsun og hv. flm. frv., en hefur sitt hvað við frv. að athuga, og hans meginmál í svarinu er að gera grein fyrir þeim breytingum, sem hann telur æskilegt að gerðar verði á fyrirkomulagi skólans, ef að því ráði verði horfið að stofna til hans eins og frv. gerir ráð fyrir eða í svipuðu formi.

Hins vegar bendir fiskimálastjóri, sem svaraði fyrir hönd Fiskifélagsins, nokkuð á annan veg. Hann lýsir því, hvernig Fiskifélagið hefur haft uppi viðleitni í þessu skyni á undanförnum árum, eða eins og hann segir í svari sínu, með leyfi hæstv. forseta, að Fiskifélagið hafi „mörg undanfarin ár haldið svo nefnd sjóvinnunámskeið í fjölmörgum veiðistöðvum, eftir því sem óskir hafa fram komið, en takmörkuð geta fjárhagslega hefur þó á stundum sett þessari starfsemi þrengri skorður en æskilegt hefði verið. Hefur starfsemi þessi verið mjög vel séð af þeim, sem hér hafa átt hlut að máli, og munum vér að sjálfsögðu halda henni áfram,“ segir fiskimálastjóri.

Hans till. í málinu eru þess vegna þær, að möguleikar Fiskifélagsins til þess að auka þessa starfsemi verði styrktir og að Fiskifélagið fái tækifæri til þess að halda starfseminni uppi öllu meira en gert hefur verið á undanförnum árum. Enn fremur bendir hann á í lok bréfsins, og undir það hefur sjútvn. einnig tekið, að hann telur rétt og eðlilegt, að þessu verkefni verði meir sinnt en áður hefur verið gert í verknámsdeildum gagnfræðaskólanna víðs vegar um landið, enda virtist n., að það væri hinn æskilegasti vettvangur til þessarar kennslu.

Þar er verið að byrja að kenna ýmis hagnýt störf, og að sjálfsögðu koma þar í fyrstu röð til greina þau verkefni, sem hér er lagt til að hafin verði kennsla í, þ. e. kennsla í ýmiss konar sjóvinnu.

Niðurstöður fiskimálastjórans, sem sjútvn. hefur einróma fallizt á, eru því þær, að auknir verði möguleikar Fiskifélagsins til að halda uppi námskeiðunum í svipuðu formi og það hefur gert, en sú starfsemi verði aukin og fræðslumálastjórnin geri sitt til að hrinda í framkvæmd öflugri kennslu í sjómennsku og vinnubrögðum í því sambandi í verknámsdeildum gagnfræðaskólanna. Sjútvn. leggur því til, að þetta frv. verði afgr. með svo hljóðandi rökstuddri dagskrá:

„Í trausti þess, að Fiskifélagi Íslands verði gert kleift að halda framvegis uppi sjóvinnunámskeiðum sínum og auka þau, og enn fremur í trausti þess, að fræðslumálastjórnin vinni að því, að kennsla í sjóvinnu verði upp tekin í sem flestum verknámsdeildum gagnfræðaskólanna, svo víðtæk sem við getur átt á hverjum stað, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“

Og um þetta stendur, eins og ég sagði áðan, sjútvn. einhuga. Ég sé ekki ástæðu til þess að fara út í að ræða einstök atriði frv., þar sem það hefði ekki þýðingu, ef hin rökstudda dagskrá verður samþykkt. En það eru ýmis atriði í frv., eins og skólastjóri stýrimannaskólans hefur bent á, sem mundu þurfa allmikillar lagfæringar við, ef að skólastofnun yrði horfið, og eins eru það nokkur atriði, sem komu í ljós við umr. í sjútvn., að ef horfið yrði að þeirri leiðinni, þá mundi þurfa að gera á frv. nokkrar breytingar. En sem sagt, ég tel það ekki tímabært á þessu stigi, þar sem n. er einhuga um að leggja til, að frv. verði afgr. með hinni rökstuddu dagskrá.