18.02.1954
Neðri deild: 49. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 86 í C-deild Alþingistíðinda. (2243)

114. mál, Sjóvinnuskóli Íslands

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Ég skal nú ekki lengja mikið umræður um þetta mál. Það voru aðeins tvö eða þrjú atriði í ræðu hv. frsm. sjútvn., þeirri er hann flutti siðast um málið, þegar það var hér á dagskrá í fyrradag, sem ég vildi gera athugasemdir við.

Hann lét orð falla eitthvað á þá leið, að ég hefði látið í ljós undrun yfir því, að Fiskifélagi Íslands hefði verið sent frv. mitt til umsagnar. Þetta er ekki rétt hermt. Ég lét enga undrun í ljós yfir því, að Fiskifélagið skyldi hafa fengið þetta mál til umsagnar, heldur sagði ég þvert á móti, að ég teldi það hafa verið eðlilegt og raunar sjálfsagt, að þeim tveim aðilum, sem málið var sent til athugunar, Fiskifélagi Íslands og skólastjóra stýrimannaskólans, hefði verið sent það. Hins vegar benti ég á, að fleiri aðilar hefðu sýnt áhuga á þessu máli og væru að vissu leyti því nákomnir, og benti ég þar m. a. á Farmanna- og fiskimannasamband Íslands svo og þau sjómannafélög, sem tök hefði verið á að senda þetta til umsagnar, eins og Sjómannafélag Reykjavíkur. En um þetta er nú ástæðulaust að hafa mörg orð.

Þá sagði hv. frsm. sjútvn., að ég hefði sneitt að Fiskifélaginu og farið hálfóvirðulegum orðum um viðleitni þess í þá átt að koma á fót sjóvinnunámskeiðum í verstöðvum. Ég minnist þess nú ekki, að ég hafi gert þetta. Hitt mun ég hafa sagt og get endurtekið það hér, að þessi viðleitni Fiskifélagsins hefur verið af nokkrum vanefnum ger, og hygg ég, að fleiri verði til þess að staðfesta það heldur en ég. Meðal annars get ég í því efni vitnað til sjálfs framkvæmdastjóra Fiskifélagsins, fiskimálastjórans, sem segir í því áliti, sem prentað er sem fskj. með nál. sjútvn., að fjárskortur hafi háð þessari starfsemi Fiskifélagsins.

Þá held ég, að þarflaust sé að deila mikið um afstöðu skólastjóra stýrimannaskólans til þessa máls. Hv. frsm. dró það nokkuð í efa, að hann væri því fylgjandi, að sjóvinnuskóla væri komið á fót, en mér virðist af umsögn hans, að á því geti enginn vafi leikið, að hann sé því hlynntur, að einmitt þessi leið sé farin, að stofnaður verði sjálfstæður skóli til að kenna sjóvinnu og hafa leiðbeiningar um þau mál með höndum, þó að hann hins vegar geri nokkrar athugasemdir við frv. og æski eftir breytingum á því. Það er í alla staði eðlilegt. En hitt verður ekki dregið af umsögn hans, að hann sé ekki fylgjandi hugmyndinni að stofnun sjóvinnuskóla.

Þá vil ég taka fram, þó að ég hafi að vísu gert það áður, bæði í grg. og framsöguræðu fyrir þessu máli, að nágrannaþjóðir okkar. sumar hverjar a. m. k., hafa valið þessa eða svipaða leið og ég legg hér til með þessu frv. og talið þá leið hentugasta til þess að leysa þennan vanda.

Það, sem aðallega er um deilt og er aðalatriðið í málinu, er þetta: Með hverjum hætti er líklegt, að hægt sé að láta í té þá kennslu í sjóvinnu, sem allir telja að æskileg sé? Með hverjum hætti er líklegast, að það verði bezt gert? Þar greinir mig á við hv. sjútvn. Hún telur, að Fiskifélagið hafi einna bezt skilyrði til þess að sjá um þessa kennslu með sjóvinnunámskeiðum, en ég tel, að heppilegra muni vera til góðs árangurs, að þarna verði komið upp sjálfstæðri stofnun, sem hafi þetta verkefni með höndum. Sú stofnun mundi svo að sjálfsögðu hafa mjög góð skilyrði til þess að aðstoða og leiðbeina einmitt þeim gagnfræðaskólum í sjávarþorpum og kaupstöðum, sem vildu koma upp hjá sér sjóvinnunámskeiðum í sambandi við verknámið. Ég held. að það mundi einmitt ýta þessu máli töluvert áfram, ef sjóvinnuskóli yrði stofnaður, eins og ég legg til. Hins vegar sé ég ekki ástæðu til þess að karpa öllu meira um þetta mál við hv. frsm. sjútvn. og læt þessi orð mín nægja.