13.10.1953
Neðri deild: 7. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 89 í C-deild Alþingistíðinda. (2248)

30. mál, félagsheimili

Flm. (Eggert Þorsteinsson):

Herra forseti. Eins og lögin um félagsheimili bera með sér, er gert ráð fyrir stuðningi þess opinbera við ýmis virðingarverð menningarfélög til þess að koma sér upp ákveðnum samastað fyrir starfsemi sína. Þessi aðstoð ríkisvaldsins hefur mælzt mjög vel fyrir, og ber áreiðanlega að þakka henni hin fjölmörgu og glæsilegu samkomuhús, sem risið hafa víða úti um land frá setningu laganna. Það getur því tæpast verið nein goðgá að álykta, að rétt sé og skylt, að fjölmennustu félagssamtök landsins og um leið þau áhrifamestu séu einnig aðnjótandi þessara fríðinda. Þetta frv. á þskj. 30 fær þó enn betri grundvallarröksemdir, þegar tekið er tillit til þess, að flest hinna smærri verkalýðsfélaga, sem eru fjárhagslega verst stæð, eru á algerðum vergangi með starfsemi sína. Þessi tilfinnanlegi skortur húsnæðis háir mjög eðlilegri starfsemi verkalýðsfélaganna og alls konar fræðslustarfsemi þeirra, sem er nánast óframkvæmanleg sökum húsnæðisskorts. Þar af leiðir alls konar los í félagsstarfinu vegna þess öryggisleysis, sem ávallt er samfara húsnæðisleysinu, jafnt hjá einstaklingum sem félögum. Það ætti .að sjálfsögðu að vera óþarft á þessu stigi málsins að halda um það ýtarlega framsöguræðu, svo augljós er tilgangur þessa frv.

Það, sem farið er fram á í frv., er einungis, að hv. Alþ. viðurkenni sama rétt verkalýðsfélaganna til aðstoðar af hálfu ríkisvaldsins og hinna virðingarverðu félaga, sem upp eru talin í 1. gr. frv. Það er vissulega erfitt að hugsa sér, að mikil andstaða geti orðið við svo sjálfsagða leiðréttingu. Því verður a. m. k. ekki trúað að óreyndu.

Að svo mæltu vil ég óska þess, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.