29.10.1953
Neðri deild: 13. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 103 í C-deild Alþingistíðinda. (2258)

72. mál, lax- og silungsveiði

Pétur Ottesen:

Ég get um margt skírskotað til ræðu hv. 1. þm. Árn. að því er snertir athugasemdir hans og ummæli um ýmis ákvæði laxveiðilöggjafarinnar og þá reynslu, sem hefur fengizt af þessari löggjöf. En með tilliti til þess, að hv. flm. þessa frv., 3. þm. Reykv. (BÓ), skírskotar svo mjög til aðstæðna í Borgarfjarðarhéraði hvað þetta snertir, þá vildi ég gera nokkrar athugasemdir við þetta mál og grg. þessa frv. og ummæli hv. þm. í þeirri ræðu, sem hann flutti hér áðan, er hann reifaði málið.

Það er alþekkt reynsla um áratuga skeið í Borgarfirði, að laxgengd er þar mjög mismunandi frá ári til árs. Orsakir þess hafa frá öndverðu fyrst og fremst verið raktar til þess, að það er ákaflega mikill áramunur að því, hvernig tekst með klakið í ánum. Stundum koma þar fyrir þau fyrirbrigði í vatnavöxtum, jakaburði og öðrum aðstæðum, að klakið fer ákaflega mikið til spillis. Á öðrum tímum er það svo, að þessara hamfara í náttúrunni gætir minna, og þá gengur þetta allt saman miklu betur. En þegar svo vill til, að mikið misferli verður í klakinu, þá gætir þess í laxagengdinni, þegar þeir aldursflokkar fara að ganga í árnar, í því, að gengdin verður þá miklu minni en annars, og það getur varað um nokkurt árabil, að lítið gangi af laxi í árnar af þessum sökum. Þegar klakið aftur á móti gengur vel, kemur það fram í mikilli laxagengd í árnar.

Svo er hinn þátturinn í þessu máli, og það er veiðin. Hv. flm. þessa frv. leggur á það mikla áherzlu, að netjaveiðin, sem fram fer í ánum, eigi ákaflega mikinn þátt í því, hvað lítið gengur upp í árnar af laxi. Hann sagði í ræðu sinni hér áðan, að nú væri svo komið, að allur stórlax væri hættur að ganga í árnar í Borgarfirði. (BÓ: Ég sagði það ekki.) Jú, að það hefði ekki a. m. k. á s. l. sumri gengið neinn stórlax, því að hann væri allur tekinn í netin, sagði hv. þm. Mér þykir gott, ef hann vill strax leiðrétta það, að hann hafi ofmælt hér, því að það mun hann hafa gert.

Ef við athugum aðstæðurnar í Hvítá í Borgarfirði, þá er það svo, að meginhlutinn af allri netjaveiði fer þar fram á því svæði, sem sjór fellur á eða sjávarfalla gætir meira eða minna. Það er aðeins lítill hluti netjaveiðanna, sem fram fer í Hvítá fyrir ofan það svæði, sem sjór í stórstraumum fellur á inn í árnar. Þá er það svo um flæðar, að svæðið þarna upp eftir ánum er ákaflega breitt og mikið, og það er ákaflega einkennilegt, ef slíkt fyrirbrigði væri, að laxinn á þessu breiða svæði, sem þarna er, héldi sig svo fast við þau svæði, sem netin liggja á úti í þessum djúpa og breiða firði, að engum yrði uppkomu auðið í árnar af þessum sökum. Auk þess er það svo samkvæmt núgildandi löggjöf um þetta efni, að það eru 60 stundir á viku hverri, sem engin netjaveiði fer fram. Ég vildi aðeins benda á þetta í sambandi við það, sem hv. 3. þm. Reykv. sagði um það, að nú væri svo komið, að enginn stórlax gengi upp í árnar, aðeins smálaxinn, sem slyppi í gegnum netin eða girðingarnar, sem í ánum eru.

Ég skal ekki dóm á það leggja út af fyrir sig, hvað mikil áhrif netjaveiðin hefur á göngu í árnar, hitt er vitað, að í netin veiðist allmikið á þessu svæði og sá lax endar náttúrlega göngu sína í þessum netjum. Það er vitað mál. En ég vil mjög taka undir það, sem hv. 1. þm. Árn. sagði hér áðan, að það getur verið mjög réttmætt að takmarka netjaveiðina eins og gert er í núgildandi löggjöf, en jafnframt því má ekki algerlega loka augunum fyrir þeirri hættu, sem getur verið á leið laxins, eftir að hann er kominn upp í bergvatnsárnar. Það hefur breytt mjög til batnaðar, með því að nú hefur víðast hvar verið lögð niður og tekið fyrir ádráttarveiði í bergvatnsánum, sem var mjög hættuleg fyrir laxinn, þannig að mikið af laxi var dregið upp með þeim hætti. Fyrir þetta hefur verið tekið, a. m. k. alls staðar þar, sem samþykktir hafa verið gerðar á félagslegum grundvelli um veiði í ánum, því að í þeim samþykktum er öll ádráttarveiði bönnuð. En hitt er og alkunnugt, að í stangaveiði hefur orðið mikil tæknileg breyting og aukin þjálfun þeirra manna, sem þessar veiðar stunda, þannig að nú er aðstaðan orðin gerbreytt að þessu leyti frá því, sem áður var, að hægt er að draga upp miklu meira af laxi með þessum hætti en áður var, meðan tæknin var miklu ófullkomnari í þessu efni og þjálfun innlendra manna um þessa hluti engan veginn neitt svipuð því, sem nú er orðið. Það var lengi vel svo, að aðalstangaveiðarnar í laxveiðiánum á landi hér voru framkvæmdar af útlendingum, sem leigðu árnar og gerðu þetta sér meira til gamans heldur en hitt, að bera mikinn feng frá borði. Síðan Íslendingar tóku til við þessar veiðar, sem hefur verið í mjög vaxandi mæli hin síðari ár, hefur komið í ljós mjög berlega, að jafnframt því, sem þeir gera þetta sér til ánægju, þá gera þeir það líka í von um nokkurn ávinning, og það er alkunnugt um Íslendinga, sem sækja fast veiðar í hvívetna, bæði á sjó og landi, að þeir ganga mjög fast fram sumir hverjir einmitt við þessar stangaveiðar og nota alla þá tækni í því efni, sem þekkt er, og leggja sig mjög fram um að þjálfa sig til þess að neyta þessarar tækni sem allra bezt í von um aukinn aflafeng. Ég býst satt að segja við því, að það sé svo komið hjá okkur nú, að það sé ekki lengur hægt að loka augunum fyrir því, að laxveiðunum í ám landsins geti nú orðið stafað nokkur hætta af stangaveiðinni, og þess vegna beri að gefa gætur að því, þegar þessi löggjöf verður tekin til meðferðar að nýju, að þar sé nokkuð reist rönd við eins og um netjaveiðina eða sýnd viðleitni til þess að koma í veg fyrir þá hættu, sem getur stafað af of mikilli stangaveiði. Henni er í löggjöfinni haslaður völlur án allra takmarka, þ. e. a. s. á því tímabili, sem annars er heimilt að veiða lax, frá 20. maí til miðs september, að ég ætla, en þó nokkur heimild til þess að lengja þetta eitthvað fram eftir mánuðinum. Þess vegna held ég, að það sé fullkomin ástæða til þess, að jafnframt því, sem sjálfsagt er að gera nauðsynlegar takmarkanir eða ráðstafanir gagnvart ofveiði í net, þá verði einnig höfð opin augu fyrir þeirri hættu, sem getur stafað af beitingu hinnar nýju tækni einmitt við stangaveiðarnar. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, skýtur alveg fram hjá markinu að því leyti til, því að þar er ekki farið fram á eða lagt til, að neinar slíkar ráðstafanir séu gerðar, heldur miðast þær eingöngu við að takmarka enn þá meira netjaveiðina og máske undir sumum kringumstæðum, að því er snertir breyt. í 2. og 3. gr., að útiloka hana alveg gersamlega, eins og hv. 1. þm. Árn. benti hér á að gæti orðið á sumum stöðum. Það er þess vegna till. mín og bending til hv. n., sem fær málið til meðferðar, að um leið og hún athugar nauðsynlegar ráðstafanir til þess að draga nú enn úr þeirri hættu, sem gæti stafað af of mikilli netjaveiði, að þá athugi hún einnig og ekki síður þá hættu, sem nú getur vofað yfir af of mikilli stangaveiði.

Hv. 1. þm. Árn. benti á það, að nokkurs ósamræmis gæti í því, sem hér er sagt í grg., að sá 1ax, sem veiddur er í net, auki ekki kyn sitt í ánum, en hins vegar ekkert á það minnzt, að sá lax, sem veiddur er á stöng, er sömu örlögum háður, því að sá veiðiskapur fer fram eins og netjaveiðin áður en laxinn fer að hrygna í ánum. Þess vegna stendur að þessu leyti alveg jafnt á um þessar veiðiaðferðir báðar. Ég vil enn fremur benda á það, að sú er kenning fræðimanna, að ekki nema nokkuð af þeim laxi, sem gengur upp í árósana, haldi áfram göngu sinni á því ári upp í árnar, heldur snúi aftur til hafs. Nú er það svo. eins og ég tók áðan fram, um netjaveiðarnar í Hvítá í Borgarfirði, að þær fara að langsamlega mestu leyti fram einmitt á þeim svæðum, sem sjór fellur inn á, svo að einhver hluti — ég náttúrlega veit ekki, hve mikill hluti — þeirra veiða, sem fara þar fram í net, er einmitt af laxi, sem ekki gengi upp í árnar á því ári, heldur sneri til hafs aftur, ef þessi kenning er rétt. Aftur er vitað um þann lax, sem veiðist uppi í ánum á stöng, að hann er kominn þangað og kominn þar í hylji og grynningar í þeim tilgangi að hrygna þar og auka kyn sitt. Þetta ber líka að athuga í sambandi við netjaveiðar, þar sem svona stendur á. Ég þarf svo ekki að fara fleiri orðum um það.

Ég get mjög tekið undir það með hv. flm. þessa frv., að Íslendingar eiga mikil verðmæti í laxám sínum, og þess vegna ber okkur að gæta allrar varúðar í því að vernda árnar og halda þar við eðlilegri þróun í hrygningu, sem er undirstaða þess, að laxinn gangi í árnar og stofninn haldist við. Um þetta erum við alveg sammála. En við þurfum líka að vera sammála um að reisa skorður við hverri þeirri hættu, sem á vegi okkar verður, svo að nauðsynlegs öryggis sé gætt í þessu efni, og þá alveg eins og ekki síður þeirri hættu, sem getur stafað af ofveiði uppi í bergvatnsánum, eins og þeirri hættu, sem getur stafað af ofveiði við árósa og neðar í ám.

Hv. 3. þm. Reykv. er hér með allmikla útreikninga, sem veiðimálastjóri hefur látið honum í té, og skal ég ekki á nokkurn hátt bera brigður á þá að öðru leyti en því, að sá samanburður, sem hér er gerður, — enda viðurkennir hv. flm. þessa frv. það, — hann vitanlega getur ekki staðizt, af því að annars vegar eru lögð til grundvallar framtöl á laxi, sem veiddur er í net, og samkv. lögum á að telja það allt fram, og byggt á þeim veiðiskýrslum, en hins vegar er ekki um að ræða nema hluta af þeirri stangaveiði, sem fram fer á þessu sama svæði. Þess vegna er af eðli1egum ástæðum ekki hægt að nota þennan samanburð nema að mjög takmörkuðu leyti. Þetta benti hv. flm. raunar á hér, en ég vil vekja frekar athygli á því.

Ég skal nú ekki fara lengra út í þetta mál; það er nú komið bráðum að fundarlokum. Ég tók svo eftir, að hv. flm. legði til, að þessu máli yrði vísað til allshn., var það ekki rétt hjá mér? (Gripið fram í.) Já, þá vil ég benda á það, að slík mál, breyt. á laxveiðilögunum, hafa ávallt verið í landbn. á þingi, svo að þar væri brugðið út af fastri venju, ef sá háttur yrði upp tekinn að vísa þessu máli til annarrar n. en landbn., og með skírskotun til þess vil ég gera það að minni till., að málinu verði vísað til landbn., svo sem ævinlega hefur verið gert um slík mál eins og þetta.