29.10.1953
Neðri deild: 13. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 106 í C-deild Alþingistíðinda. (2259)

72. mál, lax- og silungsveiði

Flm. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Ég skal nú ekki lengja mikið þessar umr. Mér virðist, að við, sem höfum talað um þetta mál, séum nokkurn veginn sammála í aðalatriðum, þó að nokkuð vilji brenna við, eins og við er að búast, að hv. þm., sem talað hafa, renni blóðið til skyldunnar, þegar um þau vatnasvæði er að ræða, sem eru í þeirra kjördæmi.

Ég ætla að svara nokkrum atriðum, sem fram komu í ræðum hv. þingmanna, og skal þá minnast fyrst á það, sem hv. 1. þm. Árn. gat um, að nauðsyn væri að gefa því gætur, að ekki yrði um ofveiði að ræða á stöng eða óhóflega stangaveiði. Ég er alveg á sama máli og hv. þm., og hv. þm. Borgf. snerti þetta atriði líka. Ég tel, að það sé nauðsynlegt að setja einhverjar skorður við því, að ekki sé um óhóflega veiði að ræða á stöng, ekki síður en í net. Það hefur viljað brenna við nú á síðari árum, eftir að innlendir menn hafa farið að sækjast meira eftir laxveiði en verið hefur, að hlaðið hefur verið veiðimönnum á árnar, án þess að hófs væri gætt. Árnar eru nú einu sinni þannig, að þeim má líkja við hljóðfæri. Ef illa er farið með það, gefur það ekki lengi þá tóna, sem það á að gefa. Eins er með árnar, þær eru misjafnlega viðkvæmar. Sumar eru svo viðkvæmar, að það má ekkert misbjóða þeim til þess, að það geri ekki vart við sig í laxgengdinni. Og það skal ekki standa á mér, að einhverjar skorður séu settar í þessu atriði.

Hv. 1. þm. Árn. gat um það, að verið gætu mismunandi aðstæður um netalagningar, eins og t. d. það, ef á rynni lengra frá bakka eitt árið en annað. Það má nú kannske segja, að ekki sé hægt að taka tillit til sérkenna hverrar veiðiár í landinu með lögum eins og laxveiðilögunum, þótt reynt sé að komast fyrir verstu annmarkana. En ég get nú ekki annað séð en að slík atriði mætti leiðrétta með því að gefa því yfirvaldi, sem að öllum líkindum yrði þá veiðimálastjóri, heimild til þess að gefa undanþágu, ef sérstaklega stendur á. Hv. þm. gat þess í sambandi við stangaveiði, að sér hefði verið sagt, að með agni mætti veiða svo á stöng, að hægt væri að tína upp hvern fisk í hyl. Þetta held ég sé orðum aukið. Mér er ekki kunnugt um það. Einstakir menn eru mjög lagnir veiðimenn, lagnari en aðrir að veiða fisk. Það er alveg eins með laxveiði og aðra fiskveiði, — en að menn geti með agni, ef þeim býður svo við að horfa, tínt upp hvern fisk úr hyljunum, held ég að geti ekki verið rétt. Mín reynsla er allt önnur eftir margra ára kynningu af þessu máli.

Hv. þm. Borgf. sagði, að ég hafi sagt, að stórlaxinn væri hættur að ganga í árnar í Borgarfirði. Hann hefur vafalaust tekið rangt eftir því, sem ég mælti. Ég sagði, að stórlaxinn kæmi upp í bergvatnsárnar fyrri hluta sumars eða vors. Það stafar af því, að stórlaxinn gengur yfirleitt upp í bergvatnsárnar áður en netjaveiðin hefst. Þegar netjaveiðin er svo byrjuð fyrir alvöru, byrjar smálaxinn að koma í árnar, hálfum mánuði eftir að stangaveiði byrjar í ánum. Og þegar komið er fram í júlí, þá er meginið smálax, og hið athyglisverðasta við þennan smáa lax er það, að annar og þriðji hver lax, sem veiðist, er með netjaförum. Þó eru margir af þessum löxum svo smáir, að þeir smjúga gegnum möskvana. Stærð laxins hefur farið minnkandi ár frá ári síðustu árin, þannig að það eru mörg tilfelli nú á þessu ári, að tveggja punda laxar veiðist í stóránum, sem mér vitanlega hefur sjaldan komið fyrir áður. Ég veit um það, að fyrir 10 árum var laxstærðin í Þverá í Borgarfirði að meðaltali 10–11 pund yfir sumarið. Nú er laxstærðin að meðaltali 4–5 pund yfir sumarið. Þetta getur ekki verið eðlilegt. Það þarf enginn að segja mér, að þetta sé eðlilegt. Þverá í Borgarfirði, sem var ein bezta áin í Borgarfirði, — og má nú kannske segja, að hún sé það enn, — er allt önnur en hún var. Þar fiskaðist aðallega stórlax hér um bil allt sumarið, þó að smálax kæmi einstaka sinnum inn á milli.

Hvort laxinn snúi aftur, þegar hann er kominn upp á leirurnar í Hvítá, skal ég ekki segja. Mér þykir það heldur ólíklegt, vegna þess að laxinn er þarna á göngu sinni upp í a. m. k. þrjár stórár og fleiri smáár, sem mikil laxgengd hefur jafnan verið í. Mér þykir ekki líklegt, að mikið af þeim laxi, sem kemur upp í Hvítá, snúi aftur á haf út. (Gripið fram í.) Já, ég er nú að tala um Hvítá vegna þess, að það hagar til misjafnlega með hverja á fyrir sig. Hvítá er sérstök í sinni röð, hygg ég, af veiðiám hér á landi, nema ef til vill að Ölfusá kæmi til greina. Ég er ekki í nokkrum vafa um það, að laxveiðibændur við Hvítá taka miklu stærra hlutfall af laxveiðinni í Borgarfirðinum en þeim ber, og sú veiði hlýtur að bitna á hagsmunum þeirra mörgu bænda, sem jarðir eiga að bergvatnsánum, og í þær ár verður laxinn að ganga í gegnum Hvíta.

Það er alveg rétt, að veiðimálastjóri getur þess, að veiðiskýrslur séu ekki yfir allar veiðarnar. Þó hefur hann réttar skýrslur um meginhluta veiðanna, og hann ætlast á um þann hluta, sem hann telur að skýrslur komi ekki frá. Hins vegar vil ég benda á, að það eru líka vanhöld með netjaveiðiskýrslurnar, svo að þar getur hvað mætt öðru.