25.02.1954
Neðri deild: 53. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 114 í C-deild Alþingistíðinda. (2265)

72. mál, lax- og silungsveiði

Landbrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Út af fsp. 3. þm. Reykv. um, hvort ég gæti gefið yfirlýsingu um það, að fyrir næsta Alþingi lægju endurskoðaðar till. um breytingar á laxveiðilöggjöfinni, þá þori ég ekki beint að lofa því, en hinu skal ég lofa að flýta þessu sem mest, þannig að hægt verði að taka til starfa við endurskoðunina sem fyrst. Þá vil ég einnig taka það fram, að ég mun hafa samráð við ríkisstj. um það, hvernig þessi n. verði skipuð, og leitast við að velja hana þannig, að hinar mismunandi skoðanir, sem eru um ýmis atriði þessarar löggjafar, og þá ekki sízt varðandi þá togstreitu, sem er milli þeirra, sem búa að netjaveiði neðan til við ýmsar stórár, og hinna, sem aftur eru ofar í ánum, eigi báðar fulltrúa í nefndinni.