29.03.1954
Efri deild: 72. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 114 í C-deild Alþingistíðinda. (2269)

187. mál, bifreiðaskattur o. fl.

Flm. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Það er víst ekki ofmælt, að fáar þjóðir búi við hlutfallslega dýrara samgöngukerfi en Íslendingar. Því veldur fámenni, strjálbýli og landshættir. Vegakerfið hefur verið tengt um flest byggðarlög landsins. Það er að vísu ófullkomið, en hefur kostað mikið fé á okkar mælikvarða, ekki sízt brýrnar.

Þegar fyrst var tekið í lög, að tiltekinn hluti af benzínskatti skyldi renna í sjóð, er varið yrði til byggingar hinna stærstu brúa, þá var mönnum ljóst, að eitthvað varð að gera til að örva framkvæmdir á þessu sviði. Síðan hafa tekjur brúasjóðs aðeins hækkað lítillega að krónutölu vegna aukinnar benzín notkunar í landinu, en kostnaður við brúargerðir vaxið mjög. Verkefnin fram undan eru nærri tröllaukin. Það nægir í því sambandi að minna á frv. það til brúalaga, sem nú er til meðferðar í hv. Nd., en þar eru taldar eigi færri en 135 brýr á þjóðvegum, er byggja þarf á næstunni á 10 metra hafi eða meira, og er kostnaður við þær áætlaður 50 millj. kr. En þá er ótalinn mikill fjöldi smærri brúa. Frv. því, er hér liggur fyrir, er ætlað að greiða nokkuð fyrir þessum lífsnauðsynlegu framkvæmdum. Ég vil leyfa mér að leggja til, að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. samgmn.