29.03.1954
Efri deild: 72. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 115 í C-deild Alþingistíðinda. (2270)

187. mál, bifreiðaskattur o. fl.

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vildi leyfa mér að vekja athygli hv. dm. á því, og sérstaklega flm., að með því samkomulagi, sem gert var milli verkalýðsfélaganna og atvinnurekenda í desember 1952, var samið um, að nokkur verðlækkun yrði á benzíni. Það var einn liður í því samkomulagi. Og ef ég man rétt, þá lá þar einnig fyrir yfirlýsing frá hæstv. ríkisstj. um, að hún hygði ekki á hækkanir á tollum eða sköttum til ríkissjóðs. Ég veit ekki betur en að þetta samkomulag sé enn í gildi. Að vísu hefur sú breyting á orðið að því er benzínverðið snertir, eftir að þetta samkomulag var gert, að samþ. var hér á Alþingi verðjöfnun á benzíni, sem leiddi til þess, að benzínverð á vissum stöðum á landinu, sérstaklega hér í Reykjavík og nágrenni, hækkaði nokkuð til þess að bæta upp lækkun annars staðar á landinu.

Ég vil mega vænta þess, að sú n., sem þetta frv. fer til, leiti álits fyrst og fremst ríkisstj. og annarra aðila að þessu samkomulagi frá 1952, sem ég hef drepið á, um það, hvort þetta frv. geti samrýmzt efni þessa samkomulags.

Ég mun greiða þessu frv. atkv. til 2. umr. í trausti þess, að þetta atriði verði sérstaklega athugað, og geymi mér þangað til síðar að ræða frekar um efni frv. að öðru leyti.