08.10.1953
Neðri deild: 5. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 121 í C-deild Alþingistíðinda. (2283)

2. mál, firma og prókúruumboð

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Þetta frv. var lagt fyrir síðasta Alþingi og var þá til athugunar hér í hv. d. hjá allshn. Það stendur í nánu sambandi við frv. til l. um hlutafélög, sem ekki entist þá tími til að afgr. og ég hafði ekki heldur búizt við að hægt væri að afgr. á fyrsta þingi, sem málið var lagt fram á, svo umfangsmikið sem frv. er. Nú hafði hv. allshn. málið langan tíma til meðferðar í fyrra og mun hafa aflað sér umsagnar frá einhverjum aðilum um það, og vildi ég því mega vænta, að bæði þessi mál gætu í höfuðatriðum óbreytt fengið framgang á þessu þingi, því að menn munu vera sammála um, að sú löggjöf, sem um þessi efni fjallar, sé orðin ærið úrelt.

Ég vil leyfa mér að leggja til, að málið gangi til 2. umr. og hv. allshn.