30.11.1953
Neðri deild: 31. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 126 í C-deild Alþingistíðinda. (2291)

2. mál, firma og prókúruumboð

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. Hv. frsm. sagði, að meginstefnan í frv. væri að draga skráninguna á einn stað. Hann átti nú við aðeins um þetta atriði auðvitað. Það dylst náttúrlega ekki, því að það er berum orðum sagt, að það er meiningin. Þótt frv. sé auðvitað að aðalefni um allt annað, þá er þetta eins og annað atriði, sem því verður nú að fylgja, en það er einmitt þetta atriði, sem ég tel að ekki sé rétt, og þar ber okkur á milli.

Hv. frsm. segir, að það sé mikill vandi eftir því frv., sem nú liggur fyrir Alþingi, að stofna hlutafélög og það þurfi margs að gæta, þess vegna sé auðveldara, að einn maður setji sig inn í efni málsins til þess að hafa fullkomna aðgæzlu með því, að allt fari löglega fram. Þetta viðurkenni ég að er rétt. Það kostar færri fyrirhöfn að setja sig inn í efni málsins, ef einn maður á að annast um það, þ. e. a. s. fyrir utan þá, sem ætla sér að mynda hlutafélag. Þeir verða að gera það. En ég bara geri ekki mikið úr þessu atriði eða við í minni hl. Við teljum, að sýslumenn og bæjarfógetar standi eins vel að vígi einmitt að setja sig inn í málið eins og þessi eini maður. Ég get reyndar sagt, að það er náttúrlega undir því komið, hvað vel það fer úr hendi hjá þessum eina manni, hvernig valið verður, en sleppum því nú. Við skulum segja, að það verði lögð áherzla á það og það val takist vel. En þá gildir það sama um það, að ég tel ekki, að sýslumönnum eða bæjarfógetum sé á nokkurn hátt ofvaxið að setja sig inn í málið og gæta þess, að það fari allt löglega fram, því að ég ber ákaflega gott traust til þeirra, — það veit hv. meðnm. minn, þm. Siglf., þó að hann reyndar sé ekki sammála mér um þetta atriði, sem mér þykir auðvitað mjög mikið fyrir. Ég ber fyllsta traust til þeirra, að þeir geri þetta vel, og það er líka sakir þess, að ég veit alveg, hvernig þetta verður framkvæmt. Menn leita til þeirra sem eðlilegt er sem embættismanna úti um landið og leiðbeinandi manna einmitt á því sviði, sem þetta efni fyrst og fremst er, hvað áhrærir reglur og hvað löglegt er og ekki löglegt, og þá verða þeir að setja sig inn í það til þess að geta greitt úr erindum manna í héruðunum. Þeir hafa þess vegna eftir sem áður alla fyrirhöfn. En fyrir þá menn, sem að félagsskapnum ætla að standa, þá, sem ætla að mynda hlutafélög eða þann félagsskap, sem kemur til með að falla undir þessi lög, verður miklu auðveldara, að þetta fyrirkomulag verði, eins og gilt hefur hjá okkur hingað til, að sýslumenn og bæjarfógetar annist það úti um landið. Þó að vandasamara sé og þurfi að hafa betri aðgæzlu um myndun félagsskaparins en hingað til hefur verið sakir þess, hvað þessi löggjöf, eins og frv. bendir til, sem nú liggur fyrir þinginu, er miklu fullkomnari. margbrotnari, þá er engin ástæða til þess að láta það hindra sig í því að fela þeim þetta starf. Það er fyrst og fremst af þeim ástæðum, sem ég hef nú drepið á, að þeir komast ekki hjá því, það er ég alveg sannfærður um, þannig verður það, og þá gildir þetta einu, þeir verða að vinna að því.

Ef maður ætti að láta þetta atriði ráða, sem hv. frsm. er að tala um núna, að það er vandasamt, er þá ekki einfaldast til þess að vera alveg viss að láta lögin ákveða, að slíkur félagsskapur sem þessi skuli ekki vera úti um landið, menn skuli ekki mynda hlutafélög og annan félagsskap, sem þessari löggjöf er ætlað að fjalla um, úti um land, hafa það aðeins hér í Reykjavík, fyrst það er svona vandasamt og úr því að talið er hæpið, að nokkur geti gætt þess, að allt fari löglega fram, nema embættismaður hér í bænum? Ja, er þá ekki einfaldast, til þess að engin verði mistökin og allt gangi eftir beinni braut, að segja bara: Enginn má mynda hlutafélag eða hefja aðra starfsemi, sem löggjöfin á að ná til, nema í Rvík. — Þá er víst öllu fullnægt og séð vel fyrir því, að ekki verði nein mistök.

Nú veit ég reyndar, þótt ég varpi þessu fram út af því, sem fram kom hjá hv. frsm. n., að þetta meinar hann ekki. En það er í framhaldi samt sem áður af hans röksemdafærslu, að þannig væri langsamlega bezt séð fyrir því, að allt væri í stakasta lagi, að þessi starfsemi yrði líka á einum stað. Það væri líka vafningaminnst og hægast fyrir þennan embættismann að ná til manna hér til þess að hafa það í reglu.

Hvað áhrærir eftirlit og aðgæzlu með reikningsskilum og annað þess konar, þá felst það í frv. eftir sem áður, ákvæði verða um það ósnert. Skráningarstjóranum, hver sem hann er, á að senda reikningana, og hann á að gefa því gætur, að allt fari löglega fram, og einnig að vera trúnaðarmaður ríkisstj. um það, að þessi starfsemi sé löglega rekin, og gefa gætur, þegar honum berast reikningar fyrirtækjanna í hendur, bæði um meðferð á arði og annað, að það fari fram eftir því, sem lögin ákveða, þannig að það rýrir á engan hátt það eftirlit. sem þarf að vera með þessari starfsemi. Það grípur ekkert inn í það.

Hv. frsm. sagði, að með þessu fyrirkomulagi, sem meiri hl. leggur nú til, að það verði sérstakur maður í rn., þá sé ekki stofnað nýtt embætti, svo að kostnaðinum verði stillt í hóf. (Gripið fram í.) Ja, það er að vísu ekki hugsað sjálfstætt embætti á þann hátt, sem frv. gerir upphaflega ráð fyrir, eftir till. meiri hl., en mundi ekki verða skipaður nýr fulltrúi í rn. til að annast þetta? Ég er alveg sannfærður um það. Hann hefur kannske ekki eins mikið um sig — ég er sammála hv. frsm. meiri hl. n. um það — eins og ef stofnað væri nýtt embætti á þann hátt, sem frv. gerir ráð fyrir, en þetta mundi verða eigi að síður nýr starfi og bætt þarna nýjum starfsmanni við.

Og þá er eftir ótalið, sem ég vék að áðan, ef þetta fyrirkomulag verður tekið upp, hvað það kann að kosta þá menn, sem eru búsettir úti um landið, ef þeir eiga að sækja undir starfsmann hér í Rvík og aðeins hér allt það, sem þeir þurfa á að halda í sambandi við hlutafélagastarfsemi eða annað, sem lögin nú ræða um og þeir ætla að taka upp. Það er ekki lítils virði, álít ég, að taka fullt tillit til þegnanna og spara þeim líka útgjöld í þessum efnum, og það álítum við, sem að þessum till. stöndum, svo mikið atriði, að rétt sé, að það ráði, fyrir nú utan hvað þetta verður langtum einfaldara fyrir menn úti um landið og á allan hátt eðlilegra heldur en að draga þetta saman hingað allt á einn stað.

Ég vil biðja hæstv. forseta, áður en gengið yrði til atkv., að gera mönnum grein fyrir forminu. Efnið í till. er það sama og er prentað á þskj., en það er aðeins formið, hvernig það kemur nú heim við brtt. (Gripið fram í.) Nú, er búið að útbýta því? Ég bið afsökunar, ég vissi það ekki. Þá hafa hv. þm. þetta fyrir sér, og þá er ég nú nokkuð öruggur um afgreiðsluna.