14.12.1953
Neðri deild: 38. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 132 í C-deild Alþingistíðinda. (2300)

2. mál, firma og prókúruumboð

Frsm. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Eftir þær breyt., sem frv. þetta tók við 2. umr. málsins, hélt allshn. fund um málið aftur og var sammála um að bera fram brtt. við 2. gr., sem er á þskj. 297. N. var sammála um það, að mjög væri æskilegt, að allsherjarskráning á skráðum félögum í landinu gæti verið á einum stað, án þess að til þess þyrfti sérstaklega að bera kostnað. Þess vegna leggur hún til, að skráningarstjórum sé skylt að senda dómsmrn. afrit allra skjala, um leið og þau eru send Lögbirtingablaðinu til birtingar. Er rn. ætlað að hafa eftirlit með því, að skráningarskjöl fullnægi ákvæðum laga, og halda skrá yfir öll firmu í landinu, sem skráð eru samkv. lögum þessum.

Í 48. gr. frv., eins og það er eftir 2. umr., er enn ákvæði um það, að þau fyrirtæki, sem skráningarskyld eru eða skráð samkv. lögum þessum, skuli greiða árlega gjald til ríkissjóðs, 100–300 kr. Það var ekki athugað, þegar breyt. var gerð, að þetta ákvæði kemur ekki heim við lögin eins og þau eru nú, sökum þess að ákvæðið er beint sett inn í lögin til þess að standa straum af kostnaði, sem gert var ráð fyrir að yrði við embætti skráningarstjóra ríkisins. Við breytinguna, sem orðið hefur við 2. umr., er ekkert nýtt embætti stofnað, heldur eru það sýslumenn og lögreglustjórar, sem hafa skráninguna á hendi, svo að n. telur, að það sé hvorki nauðsynlegt né rétt, að þetta ákvæði standi áfram í frv., þar sem niður er fallin ástæðan fyrir kvöðinni. N. vill því leggja til, að þessari gr. verði breytt, og hefur leyft sér að leggja fram skriflega brtt. til þess að tefja ekki framgang málsins. Ætla ég að lesa till., með leyfi hæstv. forseta. Hún hljóðar svo: „Við 48. gr. Greinin orðist svo:

Dómsmrn. skal árlega gefa út prentaða skrá um öll skrásett atvinnufyrirtæki í landinu, flokkuð eftir atvinnu. Skal á skránni greina stofnár hvers fyrirtækis, upphæð stofnfjár eða hlutafjár og nöfn stjórnenda.“

48. gr. breytist þá þannig, að fyrri málsgr. greinarinnar fellur niður, en síðari málsgr. stendur eftir svo að segja orðrétt.

N. er sammála um báðar þessar till. og væntir þess, að þær nái samþykki deildarinnar.