14.12.1953
Neðri deild: 38. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 133 í C-deild Alþingistíðinda. (2302)

2. mál, firma og prókúruumboð

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Hv. d. hefur gert veigamikla breyt. á þessu frv., þar sem ákveðið hefur verið að hætta við, eins og í frv. er lagt til, að stofna sérstakt starf skráningarstjóra, og er í þess stað ætlað að láta þetta heyra undir yfirvöld í hinum ýmsu umdæmum landsins. Miðað við þessa breytingu er sú skriflega brtt., sem nú var borin fram, sjálfsögð og eðlileg, og er þess vegna eðlilegt, að hún verði samþ., úr því sem komið er. Hins vegar þykir mér rétt að skýra hv. d. frá því, að þeir fræðimenn, sem hafa samið þetta frv., hæstaréttardómararnir Þórður Eyjólfsson dr. og Árni Tryggvason forseti hæstaréttar, telja þessa breytingu á 1. gr. frv. vera mjög til hins verra. Sama er um skrifstofustjórann í atvmrn., sem hingað til hefur farið með þessi mál, að hann telur einnig, að breytingin geri frumvörpin, bæði þetta frv. og frv. um hlutafélagalögin, tiltölulega þýðingarlítil. Það kemur fram í álitsgerð hæstaréttardómaranna skriflegri, sem þeir hafa sent mér um þessa breytingu, að hér sé um svo flókin málefni að ræða og þurfi slíka sérþekkingu, einkum í félagarétti, raunar einnig í bókhaldi, að mjög hæpið sé að ætlast til þess, að venjulegir sýslumenn og lögreglustjórar hafi slíka þekkingu, og þess vegna verði það aukna eftirlit, sem á að stofna til með þessum frv., bæði þessu frv. og frv. um hlutafélagalögin, hreint pappírsgagn, en muni ekki koma að raunverulegum notum.

Ég hef nú ekki með mér þessa álitsgerð dómaranna og tel raunar, að úr því sem komið er sé eðlilegast, að þetta mál verði nú látið ganga til hv. Ed. með þeirri breytingu, sem hv. n. leggur til, en mundi þá láta hv. n. í hv. Ed. fá þessa álitsgerð, og ef hún teldi það gefa efni til breytinga, þá mundi málið koma að nýju til athugunar hér við eina umr. En eins og sakir standa, þá finnst mér eðlilegt, að þessi d. haldi við þá meginákvörðun, sem búið er að taka, þangað til sýnt er, hvort Ed. sér ástæðu til breytingar. Ég taldi engu að síður rétt að láta þessar athugasemdir koma fram, vegna þess að þær varða meginefni málsins og af því að ég mun hafa samráð við hv. n. í Ed. um það, hvort ástæða sé til að breyta frv. á ný og þá hvort það eigi að fara í sama horf og lagt var til eða reynt sé að finna nýja lausn á þessu máli. En ætlunin var sem sé, að þetta nýja eftirlit, sem talin er þörf á, gæti komizt á ríkissjóði að kostnaðarlausu með þessu aukagjaldi, sem átti að leggja á aðila sjálfa, en n. leggur nú með eðlilegum hætti til að fellt sé niður.