16.02.1954
Neðri deild: 48. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 149 í C-deild Alþingistíðinda. (2319)

3. mál, hlutafélög

Eggert Þorsteinsson:

Herra forseti. Þegar frv. það um hlutafélög, sem hér er til 2. umr., var rætt í allshn., komu fram ýmsar brtt. við frv., þ. á m. sú að fækka stofnendum hlutafélaga frá því, sem frv. gerði upphaflega ráð fyrir, úr 7 í 5, og hlaut hún meirihlutafylgi í nefndinni, 3 atkv. gegn 2. Ég og hv. þm. Dal. vorum andvígir þessari breyt., eins og segir á þskj. 298. Því, að ég var andvígur þessari fækkun stofnenda, vildi ég færa nokkru frekari orð að.

Það er álit mitt, að sú aukning stofnenda, sem frv. gerir ráð fyrir og hefur að beztu manna yfirsýn verið talin rétt, muni torvelda stofnun hlutafélaga um raunveruleg einkafyrirtæki einungis til þess að njóta þeirra fríðinda um skattaálögur og varasjóðstillag, sem þau hafa umfram einkafyrirtæki. Það er vitað, að fjöldi slíkra fyrirtækja er nú rekinn á þennan hátt, og er að sjálfsögðu talíð óeðlilegt og óréttlátt. Hæstv. ríkisstj. fól hæstaréttardómurunum Árna Tryggvasyni og Þórði Eyjólfssyni að endurskoða núgildandi lög um þetta efni 13. maí 1948 og gera till. um breytta löggjöf, og niðurstöður þeirra eru það frv., sem nú liggur hér fyrir hv. þd. Varðandi þá breytingu, sem hér um ræðir, að auka stofnendafjöldann, segja þeir í athugasemdum sínum orðrétt á þessa leið, með leyfi forseta:

„Með hlutafélagaformi er ætlazt til, að hagnýtt sé talsvert fjármagn frá mörgum aðilum. Stofnendur bera ríka ábyrgð, bæði gagnvart hinu opinbera og viðskiptamönnum, og er þá heppilegra, að þeir séu fleiri en færri. Auk þess er hagkvæmt, að þeir hafi sem mest aðhald hver af öðrum, og þá ekki hvað sízt, þegar svo er háttað, að einn fjársterkur aðili hefur sérstaka aðstöðu til yfirráða. Af þessum ástæðum þykir tala stofnenda ekki mega vera lægri en sjö.“

Það verður að álíta, að ríkisstj. hafi vandað val manna til undirbúnings þessu máli, enda er það álit flestra þeirra, sem kunnugastir eru þessum málum, að frv. sem heild sé til mikilla bóta frá eldri lögum, en með því að fækka á ný tölu stofnenda er stigið spor aftur á bak. Þess vegna legg ég til, að brtt. meiri hl. um þetta atriði verði felldar og hið upphaflega ákvæði frv. um þetta efni verði samþykkt.

Jafnframt samþ. n. einnig að breyta síðari málsl. fyrri málsgr. 5. gr., sem hljóðar svo í frv.: „Við ákvörðun þeirrar tölu teljast hjón einn aðili, nema hvort um sig leggi til hlutafé af séreign sinni.“ Talið er ósanngjarnt að krefjast þinglýstrar séreignar konu til framlags í viðkomandi hlutafélagi. Ég gerði ekki sérstakan ágreining í n. um þetta atriði, en tel hins vegar, að hér sé einnig stefnt í öfuga átt, að sama marki og hin fyrri breyting um lækkun stofnendafjöldans, og þar með sé gert mun auðveldara fyrir fjársterka einstaklinga að mynda hlutafélög með fjölskyldu sinni um raunveruleg einkafyrirtæki. — Flestar aðrar brtt., er samþ. voru í n., eru hins vegar að mínu áliti til bóta.

Ég tel, að með þessum fáu orðum mínum hafi ég gert nokkra grein fyrir sérstöðu minni og í hverju hún felst, en að sjálfsögðu mun ég gera frekari grein fyrir því, ef tilefni gefst.