16.02.1954
Neðri deild: 48. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 150 í C-deild Alþingistíðinda. (2320)

3. mál, hlutafélög

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að gera þetta frv. í heild að umræðuefni í þetta skipti. Þetta er, eins og tekið hefur verið fram, ákaflega mikill lagabálkur, og ég hef nú ekki sett mig svo vel inn í hann allan, að ég treysti mér til þess að svo stöddu, en það er eitt sérstakt atriði, sem ég vildi ræða og vildi beina til hv. n., hvort hún vildi ekki taka betur til athugunar.

Í 4. gr. laganna er sú breyting gerð frá því, sem verið hefur, að einstakar stofnanir, félög og aðrir ópersónulegir aðilar fá rétt til þess að vera stofnendur hlutafélaga, sem ekki hefur verið hingað til. Mér sýnist, að þessi viðurkenning, sem stefnt er að með þessari breytingu á hlutafélagalögunum, miði að því að staðfesta þá venju, sem orðin er, að ópersónulegir aðilar, bæjarfélög, samvinnufélög og önnur slík, geti orðið stofnendur og þar með aðalmenn eða aðalstofnar í viðkomandi fyrirtæki. Raunverulega hefur þetta verið þannig hingað til, að þetta hefur verið hálfgert vandræðaástand. Ef einhverjar slíkar stofnanir hafa viljað hafa eitthvað af sínum rekstri í hlutafélagsformi, þá hefur orðið að fara alls konar kyndugar leiðir til þess, og ég fæ ekki betur skilið en að löggjafinn með þessari breyt. á 4. gr., sem samkomulag er um, bæði hjá hv. allshn. og ríkisstj., stefni að því að lögleiða og viðurkenna þetta fyrirkomulag, þannig að það sé rétt, að hlutafélagsformið sé opnað, líka samkvæmt lögunum, alveg að fullu fyrir þessum aðferðum, sem tíðkazt hafa undanfarið, að bæði bæjarfélög, samvinnufélög og önnur slík hafa myndað svona hlutafélög um sinn rekstur. En í sambandi við það álit ég, að það ætti að athuga, hvort ekki bæri að gera breyt. á 60. gr. Í 60. gr. er ákveðið, eins og verið hefur hingað til, eða þau ákvæði látin standa, að enginn getur á hluthafafundi farið með fyrir sjálfs sín hönd og annarra meira en 1/5 hluta samanlagðra atkvæða í félaginu. Þetta ákvæði er beinlínis hugsað og upphaflega sett inn í lög til þess að koma í veg fyrir, að af svo og svo mörgum einstaklingum, sem eru hluthafar í félagi, geti einstaklingur haft öll völd gagnvart hinum. Og hvað einstaklinga snertir er þetta eðlilegt og sjálfsagt ákvæði. Hins vegar verð ég að segja það, að mér finnst, að það gegni allt öðru máli, þegar um er að ræða bæjarfélög, samvinnufélög eða önnur slík, sem álíta af einhverjum ástæðum eðlilegt að hafa ákveðinn rekstur, sem þau hafa með höndum, í hlutafélagsformi.

Við skulum taka sem dæmi bæjarfélög. Það hefur t. d. tíðkazt þó nokkuð nú upp á síðkastið, að bæjarfélög hafa stofnsett bæjarútgerðir, að bæjarfélög hafa reynt að leggja fram jafnvel 40–50% af hlutafé í slíkar bæjarútgerðir. Bæjarfélagið er þá undir þessum kringumstæður fulltrúi fyrir mörg þúsund einstaklinga, og það er fé mörg þúsund einstaklinga, sem bærinn er þarna að leggja fram. Er nú ekki eðlilegt og sanngjarnt og raunverulega sjálfsagt, að bæjarfélagið sem fulltrúi þessara mörg þúsund einstaklinga sem það leggur fé fram fyrir, sé undanþegið slíkum ákvæðum eins og þeim, að það geti ekki farið með meira en 1/5 hluta samanlagðra atkvæða í félaginu? Þetta virðist vera alveg óeðlilegt, og sannleikurinn er, að það er viðbúið ef þetta ákvæði er látið haldast áfram, að þá fari bæjarfélögin á landinu að grípa til alls konar hálfleiðinlegra ráðstafana til þess að geta gert sinn rétt gildandi hvað þetta snertir. Við vitum, að nýlega hefur fallið dómur t. d. út af hlutafjáreign Akureyrarbæjar í bæjarútgerðinni þar, í hlutafélaginu, sem um hana er, og byggðist á því, að bæjarstjórnin hafði skipt á milli hafnarsjóðs og bæjarsjóðs hlutafénu og það var álitið, að það væri einn og sami aðilinn. Auðvitað er enginn vandi út af fyrir sig að fara í kringum svona hluti fyrir eitt bæjarfélag. Það er náttúrlega eins hægt fyrir eitt bæjarfélag að skapa sér leppa eins og aðra aðila, en þá er ástandið orðið ákaflega leiðinlegt, ef bæjarfélög yrðu að fara að afhenda formlega og gera kannske samninga við einstaklinga til þess að geta átt og ráðið yfir eigin hlutabréfum og haft áhrif í samræmi við þau í hlutafélögum. Ég álít þess vegna, að fyrst við á annað borð göngum inn á það sem form, að þessar stofnanir geti verið stofnendur og aðalaðilar í hlutafélögum, þá beri okkur að breyta þessari grein hvað snertir slíkar stofnanir eins og t. d. bæjarfélögin, og ég álít, að ef það ástand, sem nú er, verður látið haldast, þá leiði það til leiðindaklúðurs í þessum efnum, eða þá, ef ekki væri hægt að leppa þetta á einhvern hátt, þá mundi það leiða til mjög ósanngjarnrar meðferðar á hlutafé flestra einstaklinganna, því að bærinn er, þegar svona er, venjulega einmitt fulltrúinn fyrir langflesta einstaklingana. sem í slíkum félögum eru.

Í öðru lagi skulum við taka sem dæmi samvinnufélögin. Við vitum t. d., að ýmis samvinnufélög á landinu og þeirra aðalsamband, Samband ísl. samvinnufélaga, hafa þó nokkuð haft þann hátt á að hafa hlutafélög um sumt af sínum atvinnurekstri, og ég býst við, að það hafi verið gert af ástæðum, sem geri það að öllu leyti hagfelldara fyrir þessi félög að hafa þetta sem hlutafélagsrekstur. En eftir því sem ég þekki til í þessum félögum, en það er að vísu ekki mikið, þá er ekki meiningin hjá samvinnufélögunum, að einstaklingar, sem í þessum hlutafélögum eru, séu neinir raunverulegir eigendur eða eigi að vera neinir sérstakir ráðamenn í þessu efni. Venjan er, að samvinnufélagið sem slíkt á svo að segja öll hlutabréfin. Er það nú eðlilegt fyrirkomulag í svona hlutafélögum, að við skulum segja eitt samvinnufélag eða samvinnusamband á máske 99% af hlutafénu og svo eru hafðir kannske fjórir eða fimm einstaklingar eins og hálfgerðir leppar, kannske einhverjir starfsmenn þess sambands, og eftir formi laganna eru það þessir menn, sem ráða á hverjum einasta hluthafafundi, ráða því, hvað gert er, ráða eignunum, vegna þess að sjálft getur t. d. Samband ísl. samvinnufélaga undir engum kringumstæðum farið með fleiri atkvæði en 1/5 hluta? Við skulum bara hugsa okkur eitt hugsanlegt júridískt dæmi, — það hefur komið fyrir í samtökum hér eins og fulltrúaráði verkalýðsfélaga eða slíku, — við skulum hugsa okkur, að samband eins og Samband ísl. samvinnufélaga klofni á einhvern hátt, það séu þar uppi háværar deilur og sambandið klofni á aðalfundi og það standi í alls konar málarekstri út af slíku. Hvernig er þá um svona hlutafélög? Sannleikurinn er, að ef það eru nokkuð jafnir partar í svona sambandi, sem hafa sinn hvora skoðunina, þá hafa kannske fjórir starfsmenn möguleika á svona millibils- og óstjórnarástandi að gera það, sem þeim þóknast í sambandi við svona hlutafélag, í skjóli hlutafélagalaganna, a. m. k. getur alls konar ringulreið af því stafað.

Ég álít, að fyrst á annað borð er heimilað og jafnvel gengið út frá því í þessum lögum að ganga lengra en áður hefur verið gert, að leyfa stofnunum, bæjarfélögum, samvinnufélögum og öðrum slíkum heildum einstaklinga, að hafa hlutafélagsformið, þá sé rétt að taka tillit til þess í 60. gr. laganna. Og ég vil benda á, að þegar ríkið, þegar Alþingi sem fulltrúi allrar þjóðarinnar, flestra einstaklinga í landinu, setur hlutafélagalög, þar sem það er sjálft með, þá undanþiggur ríkið sjálft sig þessum ákvæðum. Þegar Útvegsbanki Íslands h/f er stofnaður, þá setur Alþingi þar inn í ákvæði, að eignir ríkisins þar í skuli undanþegnar öll um þessum ákvæðum hlutafélagalaganna. Þegar rekstrarfélagið Áburðarverksmiðjan er stofnsett, þá er sett þar inn í ákvæði, sem undanþiggur hlutafé ríkisins þessum ákvæðum laganna, og mér skilst, að ríkið geri þetta út frá því sjónarmiði, að það álíti, að það sem fulltrúi margra einstaklinga eigi að hafa þarna annan rétt en einstakir hluthafar. En þann rétt, sem ríkið ætlar sjálfu sér, á það líka að gefa fjölmennum bæjarfélögum, stórum samvinnusamtökum eða öðrum slíkum fulltrúum fjölmargra einstaklinga. Ég held þess vegna, að það væri mjög æskilegt, að hv. allshn. vildi athuga það mál, hvort ekki væri rétt að breyta þessu ákvæði í 60. gr. eitthvað á þá leið, að ef stofnanir eins og ríkið, bæjarfélög, samvinnufélög eða önnur slík eru stofnendur og meðlimir svona hlutafélaga, þá skuli þessi ákvæði um 1/5 samanlagðra atkvæða ekki gilda viðvíkjandi þeirra hlutafjáreign. Ég held, að ef við ætlum að halda hlutafélagsforminu eins víðtæku og hefur þótt hentugt að hafa það undanfarið og ef þessi að mörgu leyti mjög merkilega framkvæmd á bæjarrekstri og einstaklings- og samvinnurekstri, sem framkvæmd hefur verið í formi hlutafélaganna, á ekki að leiða til neins klúðurs og vandræða og að farið sé í kringum lögin eða þá að stærstu aðilunum þarna í sé gert órétt, þá sé nauðsyn á að breyta þessu. Ég hef ekki útbúið neina brtt. viðvíkjandi þessu, en vildi aðeins koma þessu máli hér til umræðu, því að mér finnst ákaflega margt mæla með því, að þessi breyt. væri gerð.