16.02.1954
Neðri deild: 48. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 153 í C-deild Alþingistíðinda. (2321)

3. mál, hlutafélög

Frsm. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Hv. 7. landsk., sem er í allshn. og hefur fjallað um frv. þetta, var því andvígur, að lækkuð væri stofnendatala félaganna frá því, sem lagt er til í frv. Sagði hann nú við þessa umr., að með þessu væri stigið spor aftur á bak. Mér finnst nokkuð djúpt tekið í árinni hjá honum hvað það snertir, því að engin reynsla er fengin fyrir því, að nokkur nauðsyn sé til, að sjö menn séu stofnendur í hlutafélagi, eða það gefi meiri tryggingu en að fimm menn séu stofnendur, því að í fámenninu hér er einmitt hlutafélagaformið notað sem hið algengasta atvinnurekstrarform. Og hvers vegna skyldum við þá vera að reyna að gera mönnum torveldara að hafa atvinnureksturinn í þessu formi heldur en að fara að knýja þá inn í annað form, sem ekki hentar þeim og mundi verða þess valdandi, að færri atvinnufyrirtæki risu upp en ella? Þó að till. komi frá tveimur hæstaréttardómurum, sem ég met mjög mikils og tel að hafi unnið mikið og gott verk með samningu þessa frv., þá vil ég ekki viðurkenna, að þeir séu hæfastir til að dæma um þetta atriði, hvort okkur sé nauðsyn að hafa sjö menn hið fæsta sem stofnendur að hlutafélagi eða fimm. Ég tek ekki síður mark á manni eins og borgarfógetanum í Reykjavík, sem hefur miklu meiri reynslu í þessum efnum heldur en hæstaréttardómararnir. Og hann er á gersamlega öndverðum meið við þá í þessu máli. Ég geri ráð fyrir því, að hávaði manna, sem nokkur skipti hafa af þessum lögum og nokkuð hafa um þau hugsað, sé á þeirri skoðun, að ekki beri að knýja það fram að hafa stofnendurna fleiri en þeir eru nú. Það sýnir m. a. þróunin í löndunum í kringum okkur. Þau hafa talið nauðsynlegt að greiða fyrir stofnun slíkra félaga með því að heimila mönnum að hafa jafnvel tvo eða þrjá stofnendur og telja það alveg fullnægjandi. Það eru tvö lönd af þeim, sem ég taldi upp, England og Frakkland, sem hafa sett í sín lög að hafa sjö stofnendur. Öll hin löndin, sem ég taldi upp, eru með færri stofnendur.

Út af því, sem hv. 2. þm. Reykv. gat um, þá er ég honum sammála um, að það er mjög eðlilegt, að ópersónulegir aðilar geti orðið stofnendur hlutafélaga. Samkv. gildandi lögum geta þeir ekki verið stofnendur, en þeir geta orðið hluthafar. Ég tel, að þetta sé sjálfsögð breyting og að reynslan sýni, að engin ástæða er til að halda ópersónulegum aðilum utan félaganna sem stofnendum, ef þeir á annað borð mega vera hluthafar. En í kaflanum um samstæðu hlutafélaga er það formlega heimilað í raun og veru, að ópersónulegir aðilar eða hlutafélög geti eignazt meiri hluta í öðrum hlutafélögum. En ég er nú smeykur um, ef till. hv. 2. þm. Reykv. gengi fram um það, að opinberir aðilar, t. d. bæjarfélög, fengju annan rétt en aðrir hluthafar í hlutafélögum, þá mundi mörgum öðrum hluthöfum félaganna þykja verða þröngt fyrir dyrum. Ef bæjarfélögum, sem eignast hluti í hlutafélögum, er veittur slíkur réttur, þá er auðvitað ekki hægt að synja um slíkan rétt þeim félögum, sem fjallað er um í kaflanum um samstæðu hlutafélaga. Þá væri það að sjálfsögðu eðlilegt, þegar félag hefur eignazt meiri hl. í einu félagi, að það geti farið með meira en 20% af atkvæðamagninu. Segja má, að rétt sé, að þegar einhver aðili, hvort sem það er opinber aðili eða einkaaðili, hefur eignazt yfirráð í félagi, þá megi hann fara með atkvæði í félaginu sem svarar til hans hlutaeignar. En hér er hið opinbera að vernda rétt minni hlutans. Og ég hygg, að það sé ekki síður nauðsynlegt að vernda rétt minni hlutans gagnvart bæjarfélögunum, ef þau eru hluthafar í slíkum félögum, heldur en gagnvart einkaaðilum. En ég skal ekki fara lengra út í þetta að sinni. Um þetta má að sjálfsögðu ræða og gera sér grein fyrir, hvernig verkanir þetta hefur, en það þarf þá líka um leið að gera sér grein fyrir því, hvernig séð verður fyrir hagsmunum minni hlutanna í félögunum.