05.11.1953
Neðri deild: 17. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 166 í C-deild Alþingistíðinda. (2339)

91. mál, kristfjárjarðir

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það er ekki í fyrsta skipti, sem við deilum um þetta mál, sem hér liggur fyrir, þó að það sé að vísu flutt nú í öðru formi en verið hefur undanfarið og auðsjáanlega í formi, sem á að gera ómögulegt, að héðan af hafi Alþingi nokkuð meira um þessar jarðir að segja.

Ég skal taka það fram, að ég efast ekki um, að þeir, sem undirbúið hafa þetta frv., hafi gert það vel, og sízt vil ég draga úr því, að þar sem rn. hefur beðið próf. Ólaf Lárusson að athuga þetta frv., þá hafi verið leitað til þess manns, sem tvímælalaust hefur langmesta þekkingu af öllum þeim, sem nú eru uppi — býst ég við — á þeim sögulegu aðstæðum þessa máls. Þó verð ég að segja það, að þrátt fyrir mína miklu virðingu fyrir þeim mönnum — og honum sérstaklega — get ég ekki verið sammála þessu frv. og ekki heldur þeim ástæðum, sem settar eru fram í sambandi við það. Ég vildi satt að segja eindregið mælast til þess, að þetta frv. verði athugað mjög gaumgæfilega í þeirri n., sem það fer til. Og ég vildi leyfa mér strax í byrjun að óska þess, að hægt væri að ná samkomulagi við hæstv. ríkisstj. um, að þetta mál færi heldur til félmn., vegna þess að mér þykir alveg auðsýnt, að svo framarlega sem þetta mál fer til landbn., fái það fyrst og fremst einhliða athugun á þessu máli frá sjónarmiði þeirra manna, sem fyrst og fremst vilja koma þessum jörðum í einstakra manna eign, en hins vegar yrði þá ekki tekið það tillit, sem að sumu leyti yrði máske frekar í félmn., til þess félagslega eðlis, sem þessar jarðir hafa. Það er þá í fyrsta lagi viðvíkjandi því, að héðan af skuli lagðar niður allar þær jarðir á Íslandi, — það skuli ekki vera lengur til jarðir, sem séu kristfjárjarðir eða jarðir í fátækraeign. Það er nú vafalaust, að hvorki mun Kristur sem landsdrottinn eiga hér marga málsvara né heldur fátækir, þannig að það er að öllum líkindum tiltölulega auðvelt fyrir hæstv. ríkisstj. að reyna að pína þetta fram, enda hefur þetta verið tilgangurinn með þeim ályktunum, sem undanfarið hafa verið hér.

Ég verð að segja, að ég sé nú satt að segja ekki, af hverju á nú endilega að fara að ágirnast þetta litla, sem eftir er frá gömlum tíma, þótt það sé ekki nema heitin á þessum jörðum, svo að ég tali nú ekki um, hvernig þær eru til komnar, sem öllum hv. þm. er vitanlegt. Þessar jarðir eru búnar að vera kristfjárjarðir eða jarðir í fátækraeign frá því á 14.–15. öld, jafnvel sumar lengur. Nú eru að vísu þjóðfélagshættir, eins og drepið var á, gersamlega ólíkir þeim, sem þá voru. Tilganginum, sem þá vakti fyrir mönnum, er að sumu leyti og á sumum sviðum fullnægt með öðrum lögum, en þó lögum, sem engin trygging er fyrir að standi. Þótt maður voni það bezta um fátækraframfærslu og annað slíkt, þá er engin trygging fyrir því. Við skulum bara hugsa okkur t. d., að þau amerísku áhrif ættu eftir að verða dálítið ríkari hér á Íslandi en þau eru núna og félagsmálalöggjöf á Íslandi að þróast eitthvað dálítið í ameríska átt. Þá yrði þess ekki langt að bíða, að svo og svo mikill hluti af mönnum hér á Íslandi byggi við slíka neyð, að þau gjafabréf, sem gefin voru fyrir 600 árum, mundu koma mönnum að notum. Það er þess vegna a. m. k. ekki fyrirliggjandi nú nein ákvörðun, sem tryggi það næstu áratugi og aldir, að þeim tilgangi, sem var með þessum gjafabréfum upphaflega, þurfi ekki að fullnægja með slíkum ráðstöfunum eins og upprunalega var gert með þessum jarðeignum. Ég held þess vegna, að það sé ekki hægt að fullyrða neitt viðvíkjandi því, að það geti aldrei orðið nein þörf fyrir tilganginn lengur, sem upprunalega var með þessum jörðum, þó að það sé lítil þörf — til allrar hamingju eins og nú standa sakir.

Þá er í öðru lagi: Hvað er með eignarréttinn á þessum jörðum? Hæstv. landbrh. sagði, að þeir ágætu menn, sem hefðu upprunalega gefið þessar jarðir, mundu tvímælalaust sætta sig við þessa ráðstöfun. Hver segir, að þeir mundu tvímælalaust sætta sig við það? Ég held, að það sé ekki nokkur rök hægt að færa fram fyrir því, og um það má náttúrlega deila endalaust. En við skulum bara strax gera okkur ljóst, að með því að kippa þessum jörðum burt úr þeirri eign, sem þær nú eru í, og úr þeim tilgangi, sem eignarrétturinn á þeim átti að þjóna, þá er verið að ræna þarna ákveðna aðila, — hvort það er Jesús Kristur eða fátækir eða hverjir sem það eru, sem þarna er um að ræða, það kemur raunverulega í sama stað niður, — en það er verið að taka eignarréttinn af þessum jörðum úr hendi þeirra sjóða eða þess tilgangs, sem þær áttu að þjóna, og setja það í hendur annarra og það raunverulega án nokkurra bóta. Ég held, að það sé ekki hægt að gera þetta. Ég held, að það séu ekki neinar siðferðislegar forsendur fyrir því, að það sé hægt að gera þetta. Og ég held, að það sé að eyðileggja ráðstafanir, sem gerðar hafa verið fyrir löngu og hingað til hafa staðizt tímans tönn, þannig að út frá þeim venjulegu hugmyndum, sem við höfum um slíkt, sé þetta ekki hægt. Ég verð að segja: Það er oft ýmislegt skynsamlegt, sem mælir með því, að slíkt sé gert. Ég skal bara benda á öll þau ósköp af sjóðum, sem hér eru til, upp á marga tugi eða hundruð þúsunda, jafnvel milljónir, sem margir hverjir eru búnir að liggja langa lengi, gefnir í einhverjum sérstökum tilgangi upphaflega, en koma að litlum notum, þegar búið er að gera peningana lítils virði og annað slíkt. En það fer enginn fram á að gerbylta ákvæðum þeirra manna, sem hafa gefið þetta upphaflega. Ég held sem sé, að frá almennu sjónarmiði sé ekki hægt að ráðstafa þessu svona, það sé ekki rétt.

Þá kemur að hinum röksemdunum, sem eru þær sterku röksemdir hjá hæstv. ríkisstj.: Eignarrétturinn á þessum jörðum á ekki við í okkar kapítalistíska þjóðfélagi, og það, að þessar jarðir skuli vera í fátækraeign eða kristfjárjarðir, getur ekki samrýmzt þeim skyldum, sem lagðar eru á hendur landsdrottnum nú sem stendur og þeim, sem með landareign fara. Þeir eigendur þessara jarða geta ekki fullnægt þessum skyldum. M. ö. o.: Þó að Jón gamli Hreggviðsson segði, að Kristur væri góður landsdrottinn, þá fer hann ekki að þeim lögum, sem nú hafa verið lögð á, sem landsdrottinn.

Hvað eigum við nú að gera í þessu sambandi? Það er búið að flytja margsinnis þau rök hér, og ég veit, að það eru höfuðrökin, sem þeir menn, sem mest berjast fyrir þessu, flytja fram, að þetta sé algerlega óhæft, það sé ekki hægt að byggja á þessum jörðum, það sé ekki hægt að sjá um, að mennirnir, sem eru ábúendur þar, geti almennilega notfært sér þær, og það sé stór hætta á, að þessar jarðir fari í eyði. Þetta er alveg rétt, og þetta veit ég, að þeir, sem standa með þessum málum, muni mjög skarplega undirstrika. Jörð eins og Reynir, sú gamla góða kristfjárjörð rétt hjá Akranesi, er sem sé í hættu út af þessu. Og þetta er alveg rétt. Úr þessu þarf að bæta. Og þá er tvennt til. Önnur leiðin er sú, sem hér er lögð til, og við skulum alveg gera okkur ljóst, hvaða leið það er, sem þarna er lögð til. Þarna er lagt til, að það sé heimilað að selja þessar jarðir. Það er gert í 3. gr. Þar er að vísu sagt, að sveitarstjórn sé óheimilt að selja, en það er sagt, að ráðh. megi leyfa sveitarstjórn sölu slíkra jarða, þegar sérstakar ástæður séu fyrir hendi, M. ö. o.: Með leyfi ríkisstj. er hægt að selja allar þessar jarðir. Síðan á að vísu að leggja peningana, sem fást fyrir jarðirnar, inn í banka, og árlegir vextir af því eiga að renna í viðkomandi sveitarsjóð — og þar með er það búið. M. ö. o.: Jörðunum er ráðstafað fyrir peninga, og þar með er búið að gera allan tilganginn, sem upprunalega var með gjafabréfum þessara jarða, að engu. Við vitum, hvað það þýddi, þegar jarðir voru seldar t. d. um 1900, andvirðið af þeim lagt inn á sjóð hér, þeir peningar orðnir að svo að segja engu og tilganginum með viðkomandi sjóðum ekki fullnægt. Ég hef nefnt áður í þessum umr. dæmi um það, þegar eignir hérna í Rvík, ekki langt frá okkur, sem tilheyrðu samt þannig gjafasjóðum, hafa verið seldar á slíkan hátt, eignir, sem máske hefðu verið mörg hundruð þús. kr. eða milljóna kr. virði nú, en nú eiga þeir sjóðir, sem upprunalega áttu þetta, bara smápeningafúlgu, sem er lítils virði í samanburði við, ef upphaflegar eignir hefðu verið. M. ö. o.: Leiðin, sem hæstv. ríkisstj. leggur til að farin sé, er sú, að það megi selja þessar jarðir, peningarnir í sveitarsjóðinn, og þar með sé það búið. Ég álít, að þetta sé ófær leið, hún sé ósæmileg gagnvart þeim raunverulegu eigendum þessara jarða og gagnvart þeim gefendum, sem upprunalega gáfu þær, og hún sé í öðru lagi óþörf að fará, vegna þess að við höfum aðra möguleika, sem meira að segja geta átt við í okkar kapítalistíska þjóðfélagi.

Sú leið, sem ég álít að þarna ætti að fara, er eftirfarandi: að með sérstökum lögum — og það væri hægt að breyta þessum lögum bara í það — sé ríkinu gert að skyldu að fullnægja öllum þeim lagaboðum, sem hvíla á og ella mundu hvíla á eigendum slíkra jarða, m. ö. o., að ríkið skuli byggja á þeim jörðum, sem eru kristfjárjarðir eða í fátækraeign, það skuli taka að sér að uppfylla þessar kröfur, sem lögin gera til landeigendanna, að svo miklu leyti, sem þeir þurfi að láta veð, þá skuli ríkið koma þarna í staðinn fyrir þá, sem eru hugsaðir sem eigendur. Kirkjan er nú talin ríkiskirkja, og ríkið gæti nú ósköp vel tekið að sér þetta litla hlutverk fyrir eigendur kristfjárjarðanna, og ég held, að ríkinu væru ekki bundnir neinir óbærilegir baggar með þessu. Ég veit að vísu, að það verður vitnað í, að ríkið þyki ekki góður landsdrottinn, þar sem ríkið á jarðir, og hugsi ekki sérstaklega vel um að byggja þær upp. Það er alveg rétt, og ég skal alveg taka undir með þeirri gagnrýni. Þar fyrir álít ég nú ekki, að gefast ætti upp við það um alla eilífð að gera ríkið að dálítið betri landsdrottni en það er. Ég gæti nú trúað t. d., að það væri meira að segja hægt að fela einhverri stofnun umsjón eða framkvæmd með slíku, sem mundi hugsa dálítið betur um hag ábúenda heldur en t. d. ráðuneytin sjálf virðast gera, við skulum segja t. d. Búnaðarfélaginu. Ég held þess vegna, að við eigum að láta halda sér kristfjárjarðir og jarðir í fátækraeign og ríkið eigi að taka að sér að annast þær skyldur, sem mundu hvíla á þessum landsdrottnum, þessum sjóðum. Ég held, að þetta sé engan veginn ófært. Þetta eru ekki sérstaklega margar jarðir, sem þarna er um að ræða, og það er ekki til sérstaklega mikils mælzt. Ég verð að segja, að þrátt fyrir allan þann áhuga, sem menn yfirleitt virðast hafa fyrir því að eyðileggja allar gamlar minjar, sem til eru hér heima, þá held ég, að við eigum ekki endilega að vera að leggja okkur í framkróka með það. Og ég sé ekkert á móti því, að þetta fái að halda sér, og ég sé ekki betur en við getum fullnægt bæði tilgangi gjafarans upphaflega og hagsmunum ábúandans núna með því, að ríkið taki að sér að fullnægja þessum skyldum. Enn fremur verð ég að segja það, að með því móti tryggðist þó betur sá tilgangur, sem ætlazt var til upprunalega að náð væri með þessum jörðum. Við skulum hugsa okkur: Eignarrétturinn á þessum jörðum helzt í eigu þessara svo kölluðu sjóða, eða hvað við viljum nú kalla það, undir umsjón ríkisins, og þessar jarðir gætu máske ýmsar komið einmitt að notum í samræmi við þann upphaflega tilgang, í sambandi við kannske ýmiss konar hæli og slíkt, sem á þeim kynni að verða reist.

Svo er annað, sem ég vil benda á. Ég hef fyrir mitt leyti þá trú á þróun atvinnulífs á Íslandi, að allar jarðir eigi eftir að hækka stórlega í verði með vaxandi ræktun, stórlega fjölgandi íbúatölu í landinu, og ég álít óheppilegt fyrir framtíðina, að það sé verið að ráðstafa öllum þessum jörðum í einstakra manna eign. Við þekkjum alveg dæmin um, hvernig jafnvel stofnanir, sem eru einmitt að vinna að hag almennings, verða að kaupa ýmsar jarðir við uppsprengdu verði, og ég gæti ákaflega vel hugsað mér, að það væri í góðu samræmi við þann upphaflega tilgang ýmissa þessara jarða, ef seinna meir, þegar verður farið að gera meira að því en núna að byggja alls konar hvíldarheimili, sjúkraheimili og hæli og annað slíkt á ýmsum jörðum, þá væri gott að eiga aðgang .að slíkum jörðum sem þessum. Ég vil vekja athygli þeirra manna, sem vildu að einhverju leyti að gildi þeirra sjóða, sem í þessu fælust, fengi að halda sér, á breytingunni á jarðaverðinu bara á þessari seinustu hálfu öld hérna á Íslandi, og vonandi verður ekki hægari þróunin hjá okkur á síðari helmingi þessarar 20. aldar. Ég sé þess vegna ekki, af hverju við ættum nú um miðja öldina að vera að ráðstafa jörðum, sem haldizt hafa á þennan máta í 400–500–600 ár, og gera verðmæti þeirra að engu, eins og verður gert, um leið og búið er að selja þær og setja þær í peninga. Ég sé ekki, af hverju menn um árið 2000 eða jafnvel fyrr mættu ekki hafa þann möguleika að ráðstafa þessum jörðum meira í samræmi við þann upphaflega tilgang.

Ég álít þess vegna, að víð höfum ekki siðferðislegan rétt til þessarar ráðstöfunar. Ég álít, að við getum fullnægt þeim upprunalega tilgangi góðra gjafara á hátt, sem samrýmist alveg okkar nútíma þjóðskipulagi, með því að láta ríkið taka að sér þær skyldur, sem lagðar eru landsdrottnunum á herðar. Og ég álít, að það sé fyrir okkur viðkunnanlegt og skemmtilegt að geyma séreinkenni þessara jarða hvað eignarrétt snertir áfram, á sama máta og verið hefur, en tryggja hins vegar óhjákvæmilega hagsmuni ábúendanna á þessum jörðum, þannig að þær leggist ekki í eyði. Og ég álít, að ríkinu sé skylt að gera það.

Ég vil þess vegna fyrir mitt leyti eindregið mælast til þess, að sú n., sem fær þetta til meðferðar, sem ég legg til, að sé félmn., athugi þetta frv. grandgæfilega með það fyrir augum að breyta því í þá átt, sem ég hef nú minnzt á. Það hafa verið þó nokkrar deilur um þetta frv. á undanförnum þingum. Þá hefur ríkisstj. ekki verið búin að móta sína stefnu í þessu. Nú er hún búin að móta hana, og mér þykir mjög leitt, að þetta skuli hafa orðið of:an á, sem hér er. En ef til vill er ekki endilega um það að ræða, að hæstv. ríkisstj. sæki fast að fara þessa leið, heldur mundi hún, ef bent er á aðrar, geta líka fallizt á það.

Ég mun svo að svo stöddu ekki segja fleira um þetta mál, en þætti mjög vænt um, ef hv. n. gæti tekið þessar athugasemdir mínar til greina og a. m. k. til athugunar.