05.11.1953
Neðri deild: 17. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 171 í C-deild Alþingistíðinda. (2340)

91. mál, kristfjárjarðir

Pétur Ottesen:

Það má segja, að þetta frv. sé eðlilegt áframhald af fyrri aðgerðum Alþingis í þessu máli. Eins og hæstv. landbrh. hefur lýst hér, þá voru fyrstu upptök þess, að Alþingi lét þetta mál til sín taka, sú þáltill., sem flutt var hér á þingi 1950 og hann vitnaði til. Í áframhaldi af þeirri till. var samþ. á síðasta þingi breyting eða viðauki við lög um eftirlit með opinberum sjóðum, þar sem tekin eru fyrir nokkur atriði þessa máls, og m. a. var nokkrum aðilum, sem falin hafði verið forsjá slíkra jarða, þessara kristfjárjarða, heimilað að selja viðkomandi jarðir. Mér skilst, að það séu þrír aðilar, sem þar var um að ræða. Það var stjórn legatssjóðs Jóns Sigurðssonar á Böggvisstöðum, og forráðamaður kristfjárjarðarinnar Reynis í Innri-Akraneshreppi og enn fremur hreppsnefnd Fljótsdalshrepps. Þessum aðilum var heimilað að selja þær jarðir, sem þeir höfðu yfirráð yfir, með nánar tilteknum skilyrðum, sem sé þeim, að eftirlitsmenn opinberra sjóða mæltu með sölunni og samþykktu söluverð jarðanna. Nú mun framkvæmd þessa máls vera komin nokkuð áleiðis, og ég geri ráð fyrir því, að þó að þeim málum verði ef til vill ekki að fullu lokið, ef þetta frv. næði fram að ganga, þá raski það ekki þeirri heimild, sem hér er um að ræða, því að það er ekki í þessu frv. gert ráð fyrir, að neitt af þessum ákvæðum falli úr gildi, þó að það verði samþykkt og hljóti staðfestingu. Og náttúrlega kemur undir engum kringumstæðum til mála annað en að þessi heimild um sölu þessara jarða, sem ég nefndi, sé í fullu gildi nú eða þangað til önnur ákvörðun yrði tekin um ráðstöfun þessara jarða. — Þetta vildi ég nú taka fram í sambandi við það atriði.

En um frv. að öðru leyti vildi ég segja, að mér skilst, að ef það væri nú svo, að samþykkt og staðfesting laga um þetta raskaði ekki þeim leigumála, sem er á sumum þessum jörðum, þá muni viðkomandi hreppsfélagi verða mjög erfitt að taka á móti jörðinni, af því að það á svo að byggja hana samkv. ábúðarlögum, en með því tekur viðkomandi hreppsfélag vitanlega á sig skylduna um að inna af hendi framlag til endurbyggingar á húsum, en það á jarðareigandi að gera samkvæmt ábúðarlögum. En það er þannig ástatt, að því er sagt er, um margar þessara jarða, að þar hefur lítið verið að gert, húsakostur lélegur og þess vegna þörf skjótra aðgerða í því að byggja þar upp, svo framarlega sem á að koma í veg fyrir, að jarðirnar fari í eyði.

Ég vildi aðeins benda á þetta og biðja þá n., sem fær þetta, að athuga, hvort samkv. frv. sé hægt að breyta leigumála og ákveða að nýju afgjald miðað við breyttar aðstæður. — Þá vil ég og í þessu sambandi benda á það, að mér er t. d. kunnugt um jörð, sem oft hefur verið nefnd hér, þ. e. Reyni á Akranesi, að þar er í gjafabréfinu svo ákveðið, að það eru fleiri hreppsfélög en eitt, sem geti komið til með að njóta góðs af eftirgjaldinu. Samkv. þessu frv. er það það hreppsfélag, sem jörðin er í, sem á við henni að taka og njóta eftirgjaldsins og ráðstafa því samkv. þeim ákvæðum, sem í frv. felast. Ég býst nú við, að þetta vandamál verði leyst þannig, að jörðin verði seld ábúandanum, sem hefur bundið mjög mikla fjármuni í jörðinni, byggt upp á henni, og eiginlega afrakstur af lífsstarfi þeirrar fjölskyldu, sem þar hefur verið nú um tugi ára, er allur bundinn í endurbótum og uppbyggingu þessarar jarðar, sem var mjög lélegt býli að öllum húsakosti, þegar þetta fólk fluttist þangað. En nú má segja, að þetta sé orðin allstór og nokkrum kostum búin jörð, miðað við þær miklu ræktunarframkvæmdir og aðrar umbætur, sem þar hafa verið gerðar. Og það leiðir alveg af sjálfu sér, að þar sem svo stendur á og enginn höfuðstóll er til, til þess að leysa út slík mannvirki, þá er ekki undankomu auðið með það annað en það, ef þetta fólk á ekki að ganga slyppt og snautt frá jörðinni, að það fái jörðina keypta og þannig uppbætt það mikla fé, sem það hefur lagt í jörðina, og fái endurgreiðslu fyrir það þjóðfélagslega starf, sem þar hefur verið innt af hendi með því að rækta og byggja þar upp og búa þannig í haginn fyrir framtíðina. Sú breyting, sem hefur orðið á jarðarverðinu, er fyrst og fremst fólgin í þeim stórvægilegu endurbótum, sem gerðar hafa verið á jörðinni, og þeirri auknu framleiðslu, sem þar hefur fengizt fyrir þessar miklu endurbætur.

Ég vildi aðeins benda á þetta fyrir þá n., sem fær þetta, og ég vil mjög taka undir það með hæstv. landbrh., að það sé eðlilegt, að þetta mál fari til landbn., því að þau lög, sem ég benti á, eða það frv. til þeirra laga, sem lá hér fyrir á síðasta þingi, var lagt fyrir landbn. og falið þeirri n. til meðferðar, og er það alveg hliðstætt við þetta frv., og þess vegna skilst mér, að þetta mál eigi að fara til landbn.