05.11.1953
Neðri deild: 17. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 173 í C-deild Alþingistíðinda. (2341)

91. mál, kristfjárjarðir

Jón Sigurðsson:

Herra forseti. Það voru aðeins örfá orð, sem ég óskaði að láta fylgja þessu frv. og hefði í raun og veru ekki tekið til máls, ef það væri ekki komin fram tillaga um það eða uppástunga um að vísa málinu til annarrar n. heldur en landbn. Þá tel ég rétt, ef svo skyldi fara, að málinu yrði vísað til félmn., að láta koma fram athugasemd við frv., og ég tel nú raunar viss atriði þess þannig úr garði gerð, að það sé ekki hægt að samþ. það eins og það liggur fyrir.

Ég get tekið undir þau atriði, sem þm. Borgf. benti á, en til viðbótar vil ég benda á, að með ákvæðum 2. og 3. gr. er í raun og veru í ýmsum tilfellum verið beinlínis að taka frá einum hreppi og gefa öðrum. Skal ég nefna hér dæmi, sem er nærtækt, það er gjöfin Utanverðunes í Rípurhreppi, sem er gefið með gjafabréfi, dags. 7. maí 1839, til uppeldis munaðarlausum börnum í Skagafjarðarsýslu og þá einkum í Hólahreppi, en þessi jörð liggur í Rípurhreppi. Eftir þessu frv. hættir Hólahreppur að njóta nokkurs af þessu, en Rípurhreppi er afhent jörðin til eignar og umráða og allra afnota. — Þegar ég lít yfir aðrar kristfjárjarðir, sé ég, að þar muni einnig líkt standa á. Önnur jörð í Skagafjarðarsýslu, sem þetta gildir um, er jörðin Ytra-Vallholt í Vallhólmi. Sú jörð var gefin af Þórði biskupi Þorlákssyni og er gefin fátækum guðsþurfamönnum, einkum munaðarlausum börnum, í Hegranesþingi. Þessi jörð liggur í Seyluhreppi, og eftir ákvæðum frv. á Seyluhreppur einn að njóta. Þetta sýnist mér vera þannig, að ekki komi til mála að fara svo gersamlega í bága við hugsun gefandans og það í raun og veru alveg að tilefnislausu, því að það er engin nauðsyn, sem knýr á um að gera slíka hluti. Vil ég fyrst og fremst benda á þetta, sem gerir það að verkum, að óhjákvæmilegt er að breyta frv. verulega að þessu leyti.

Ég ætla ekki, af því að það er búið að ræða nokkuð um málið og benda á ýmislegt í þessu sambandi, að ræða um þetta frekar að sinni og það því frekar, ef málið kæmi til landbn.