05.11.1953
Neðri deild: 17. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 175 í C-deild Alþingistíðinda. (2343)

91. mál, kristfjárjarðir

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég er alveg sammála hæstv. félmrh. um, að það þurfi að koma nýrri skipun á þessi mál, og það held ég að sé alveg tvímælalaust, en spurningin er, hvers konar skipulag það eigi að vera. Eiga þessar jarðir, sem þjónað hafa sérstökum tilgangi um þessar aldir, nú að verða einstakra eign og hætta að þjóna honum, eða á að reyna að finna út nýja skipun, sem tengir þær að einhverju leyti áfram við svipaðan tilgang? Og það kemur nú þegar fram, þegar farið er að athuga þetta, eins og hv. 2. þm. Skagf. benti á, að þessi till. hæstv. ríkisstj. brýtur í bága við tilganginn, sem þarna var miðað við, það er tekið of almennt á þessum málum til þess.

Nú vil ég leyfa mér að spyrja hæstv. ríkisstj., af því að hér er talað um kristfjárjarðir og jarðir í fátækraeign, hvort þá sé um leið átt við, að þessar svo kölluðu gjafasjóðsjarðir eigi að lenda þarna inn undir. Eftir því sem ég bezt veit, þá eru nú kröfurnar, sem fram hafa komið um endurbætur á þessum hlutum, þó að Reynir standi þar framarlega og þörfin viðvíkjandi umbótunum út af byggingunum þar, ekki síður um jarðirnar í Eyjafjarðarsýslu, en mér skilst, að það mundi nú ekki heyra undir lögin eins og frv. nú er orðið. En þegar þetta hefur verið rætt undanfarið, hafa þessar gjafasjóðsjarðir verið taldar með. (Gripið fram í.) Já, en gjafasjóðsjarðirnar eru í sérstökum kafla, það eru fyrst kristfjárjarðir, svo eru jarðir í fátækraeign. Það eru bara þessir tveir flokkar. Þá sem sé er hér aðeins till. um að bæta úr hvað snertir tvær af þessum tegundum. Það eru alveg nákvæmlega sömu vandræðin, sem reka á eftir og hefur alltaf verið beitt sem röksemdum hér í þinginu viðvíkjandi gjafasjóðsjörðunum.

Strax og þessar jarðir eru athugaðar, kemur þetta sannarlega í ljós víðar, eins og þeir hv. þm., sem hér hafa talað, þegar hafa bent á. Hv. þm. Borgf. minnti á, hvernig væri með Reyni. Í gjafabréfinu þar er ákveðið eftirfarandi: Jörðin er gefin fátækum, en samkvæmt gjafabréfinu skyldi afgjald af jörðinni renna til fátækrar ekkju, sem ætti þrjú skilgetin börn í ómegð og væri búsett á Akranesi, en fyndist þar engin, sem þannig væri ástatt fyrir, skyldi ekkja, sem eins væri ástatt fyrir í Skilmannahreppi, Strandar- og Skorradalshreppi, koma til greina, og þannig eru yfirleitt ákvæðin í sambandi við alla þessa hluti. Það eru venjulega fleiri eða færri sýslur og hreppar, sem þarna koma til. Jörðin Efri-Vaðall í Barðastrandarhreppi, sem er jörð í fátækraeign, gjafabréf frá 1677, er gefin til eignar voluðum og fátækum í Barðastrandar-, Ísafjarðar- og Strandasýslu. Um jörðina Ytra-Vallholt í Seyluhreppi í Skagafjarðarsýslu, sem einmitt hv. 2. þm. Skagf. minntist á, stendur í gjafabréfinu:

„Skal jörðin með kúgildum og öllu því, sem henni að réttu tilheyrir, vera ævinlegt kristfé héðan í frá.“

Samkv. gjafabréfinu er jörðin gefin fátækum guðs þurfamönnum, einkum munaðarlausum börnum í Hegranesþingi. Ég verð nú að segja, að þrátt fyrir það, þó að við höfum fengið sæmilega fátækralöggjöf — hún er nú ekki meira — og nokkrar alþýðutryggingar, þá eiga mörg munaðarlaus börn enn þá um sárt að binda á Íslandi.

Þannig mætti lengi telja áfram viðvíkjandi þessum ákvæðum. Það eru áreiðanlega til menn á Íslandi enn þá, sem geta haft gagn af þessu, ef þannig væri um búið, og það bendir hæstv. landbrh. alveg réttilega á, að þessar jarðir eru reknar, sæmilega á þeim byggt, sæmilega ræktað, þannig að þær gefi þá eitthvert afgjald líka um leið. Það er alveg rétt, að nýskipun á þessu er óhjákvæmileg.

En svo vil ég minna á í sambandi við þetta, að þegar þetta hefur verið rætt á undanförnum árum, hefur verið rætt um gjafasjóðsjarðirnar alveg jafnt, og það hefur verið talið alveg nákvæmlega það sama. Jóns Sigurðssonar legat til þurfamanna innan Eyjafjarðarsýslu hefur hvað eftir annað borið hér á góma í þeim umræðum. Í gjafabréfinu um það legat stendur seinast:

„Jarðirnar mega aldrei seljast eða á neinn hátt lógast.“

Við vitum alveg, hvað þeim mönnum, sem yfirleitt gefa þessar jarðir, gengur til, þegar þeir setja þetta. Þeir vita, að verðgildi jarðanna helzt í gegnum aldirnar, en peningarnir breytast. Öll þróun í veröldinni hefur gengið í þá átt að vera alltaf að afskrifa gildi peninganna og alltaf raunverulega að auka gildi jarðanna, þó að sú uppfinning hafi hér á Íslandi fyrst og fremst átt sér stað á síðustu áratugum, síðustu hálfri til einni öld, vegna þeirrar afturfarar, sem átti sér stað um tíma í okkar atvinnuþróun, í okkar landbúnaði í sambandi við alla niðurlægingu okkar lands. En þessar jarðir, sem gjafasjóðurinn á í Eyjafjarðarsýslu, Jón Sigurðssonar, eru: Sílastaðir, Efri-Vindheimar, Neðri-Vindheimar og Laugaland, allar í Glæsibæjarhreppi, Miðland og hálf jörðin Gloppa í Öxnadalshreppi og Kristnes og Hvammur í Hrafnagilshreppi. Þetta eru engar smáræðis jarðeignir, sem þarna er um að ræða viðvíkjandi þessum gjafasjóði. Hins vegar er vitanlegt, eins og sýslumaðurinn í Eyjafjarðarsýslu bendir réttilega á í bréfinu til fjmrn., sem hér var líka rætt um þó nokkuð í hittiðfyrra, að þrátt fyrir allar þessar miklu jarðeignir standa þær raunverulega þjóðinni fyrir þrifum eins og ástandið er núna. En við getum allir ímyndað okkur, sem trúum á, að það haldi áfram eðlileg atvinnuþróun í Eyjafjarðarsýslu, hvers virði þessar jarðir yrðu þarna í Hrafnagilshreppnum og Glæsibæjarhreppnum með tímanum. Og sé farið inn á það að gera svona ráðstafanir viðvíkjandi kristfjárjörðum og jörðum í fátækraeign, eins og hérna er talað um, þá er náttúrlega enginn munur að fara að gera þær ráðstafanir á eftir viðvíkjandi gjafasjóðsjörðunum, þó að þær séu yfirleitt nýrri. Samt sé ég nú hér, að t. d. einni jörð í fátækraeign er ráðstafað í gjafabréfi 1886, þannig að það er ekki lengra síðan. Hins vegar er t. d. Jóns Sigurðssonar legatið stofnað 1830 af Jóni Sigurðssyni bónda á Böggvisstöðum.

Ég held þess vegna, að ákvæði frv. þurfi miklu betri athugunar við, og mér þykir vænt um þær undirtektir hæstv. félmrh., að hann lítur svo á, að ef hægt væri að finna þarna betri tillögur, sem hæstv. ríkisstj. líka gæti sætt sig við, þá hefði hann ekkert á móti því. Hins vegar held ég, að ólöstuðum þeim hv. þm., sem skipa landbn., að félmn. mundi líta meira á það sem sína skyldu að reyna að finna út slíka lagasetningu í þessu efni, að hún samsvaraði meira þeim upphaflega tilgangi, og gæti hún auðvitað um leið haft samvinnu við landbn. um að taka tillit til þeirra breytinga, sem hún kynni að gera, að það tryggði um leið, að hægt væri að reka þessar jarðir og hafa á þeim ábúendur, sem fengju að njóta síns dugnaðar. Þess vegna álít ég, að það væri mjög æskilegt, að þessu frv. væri frekar vísað til félmn.