26.11.1953
Neðri deild: 29. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 179 í C-deild Alþingistíðinda. (2348)

91. mál, kristfjárjarðir

Pétur Ottesen:

Það eru aðeins örfá orð, sem ég vildi segja í sambandi við afgreiðslu þessa máls og þær brtt., sem hér hafa verið bornar fram við þetta frv.

Ég hreyfði því við 1. umr. þessa máls, að það mundi þurfa að gera nokkrar breyt. á frv., og hefur það nú þegar verið gert í þeim brtt., sem hér liggja fyrir. En ég vildi beina því til landbn. eða frsm. landbn., hvernig hugsuð sé framkvæmdin um ávöxtun kaupverðs þeirra kristfjárjarða, sem hafa verið seldar og söluverð þeirra jarða er nú í vörzlum þeirra umboðsmanna, sem settir hafa verið til þess að gæta þessara jarða samkv. ákvörðun gefandans fyrr og síðar. Hér er nefnilega sagt í brtt. við 3. gr. frv., að þegar kristfjárjörð hafi verið seld, þá eigi félmrn. að annast ávöxtun kaupverðsins. Nú er það vitað, að söluverð þeirra kristfjárjarða, sem seldar hafa verið að undanförnu og sumar nýlega, er undir umsjá hinna ákveðnu umboðsmanna eða eftirlitsmanna jarðanna. Ég vildi spyrja um það, hvort þessi ákvæði tækju einnig til andvirðis þeirra jarða, sem þegar hafa verið seldar, því að það er sjálfsagt að ganga þannig frá því við afgreiðslu þessa máls, að það geti ekki valdið neinni togstreitu eftir á.

Annars finnst mér tilgangurinn að ganga ákaflega vel frá því með ákvæðum 3. gr., að þessar jarðir verði ekki seldar, því að þar virðist mér vera hver rembihnúturinn utan um annan til þess að girða fyrir, að sala á þessum sjö jörðum, sem eftir eru, eigi sér stað. Það er að vísu sagt í upphafi greinarinnar, að heimilt sé að selja þær, þegar sérstakar ástæður eru fyrir hendi. En þessar sérstöku ástæður eru svo ákveðnar í framhaldinu, og mér skilst, að sala skuli ekki fara fram fyrr en jörðin er komin í eyði og því ekki neinar tekjur af henni að hafa. Það stendur nú að vísu, að þær séu orðnar svo litlar, að það uppfylli ekki skilyrði eða tilgang gefandans. Nú er í þessu frv. einmitt gert ráð fyrir því, að jarðir skuli leigja upp á gamlan máta, og þar mun vera átt við, að það eigi að leigja þessar jarðir með því, að það sé goldið eftir þær í fríðu, þ. e. a. s. landsskuld í sauðum eða gemlingum, eins og var, en svo leigurnar aftur í smjöri. Þetta er sá gamli leigumáti, sem gilti lengi hér í okkar landi og gildir í einstöku tilfellum enn. Mér skilst, að orðalagið, sem að þessu lýtur, bendi til þess að beina leigumálanum aftur inn á þessa braut til þess vitanlega að tryggja gildi eftirgjaldsins, sem hefur mjög verið á reiki, þegar um peningaleigu er að ræða, sem lýtur að sjálfsögðu gildi peninganna á hverjum tíma. Þegar svona væri komið, þá ætti ekki að vera ástæða til að ætla, að jarðirnar gæfu ekki nokkurn arð, svo að ég sé ekki annað en það beri að skilja þessi ákvæði þannig, að til sölu geti ekki komið, nema því aðeins að jörðin gefi ekki orðið neinar rentur. En umbúnaðurinn er svo rækilegur um söluna, að fyrst á umráðamaðurinn að snúa sér til félmrn. með till. um, að jörðin verði seld hæstbjóðanda, ásamt rökstuddri grg. fyrir því. Hlutverk félmrn. er svo að leita umsagnar eftirlitsmanna opinberra sjóða um þessa till. Samþykki þeir menn, sem hafa eftirlit með opinberum sjóðum, þessa tillögu eða söluna, þá á rn. að leggja þetta fyrir Alþingi. Svo loks á félmrh. að ákveða söluverðið. Mér finnst, að hér sé verið að hlaða upp svo traustan varnargarð um sölu þessara sjö jarða, sem eftir eru, að það hefði eiginlega verið óþarfi að vera að setja annað en einfalt pennastrik um það, að jarðirnar skuli ekki seldar, nema því aðeins að þær séu komnar í eyði.