30.11.1953
Neðri deild: 31. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 185 í C-deild Alþingistíðinda. (2358)

91. mál, kristfjárjarðir

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég hef hér leyft mér að leggja fram brtt. við frv. á þskj. 202. Fyrri brtt. er við 2. gr. Í þeirri grein segir, að þær jarðir, sem frv. fjallar um, skuli byggðar samkv. ábúðarlögum. Ábúðarlögin kveða svo á, að jarðir skuli byggja ævilangt. Ég legg til, að ákveðið verði, að jarðirnar skuli byggðar samkvæmt ábúðarlögum eða á erfðaleigu samkv. lögunum um ættaróðal og erfðaábúð. Óhaggað stendur í frv., þó að brtt. mín verði samþ., að jarðirnar skuli byggðar með hliðsjón af gömlu lagi, svo að tekjur af þeim rýrni ekki.

Síðari brtt. er við 3. gr. frv. Í þeirri gr. segir, að forráðamaður eða forráðamenn jarðar skuli senda félmrn. tillögu um sölu á jörð, er þannig sé komið, að jörðin gefi svo litlar tekjur, að höfuðtilgangur gefandans með ráðstöfun tekna af jörðinni sé að litlu eða engu orðinn. Brtt. mín er um það, að því aðeins skuli gera tillögu um sölu, að ekki hafi tekizt að byggja jörðina samkv. ákvæðum 2. gr., annaðhvort samkvæmt ábúðarlögum eða á erfðaleigu. Þegar gjafabréf um jarðir mæla svo fyrir, að jarðirnar megi ekki selja, tel ég, að ekki eigi að víkja frá þeim eða öðrum fyrirmælum slíkra bréfa, nema nauðsyn krefji. Ég tel því skylt að leigja jarðirnar eins og gefendur hafa til ætlazt, sé þess kostur. Hitt skal viðurkennt, að sé það ekki mögulegt, má segja, að nauðsyn brjóti lög og þá eigi að leyfa sölu á jörðunum fremur en að láta þær vera í eyði. En sé um byggilegar jarðir að ræða, tel ég víst, að auðvelt sé að byggja þær, a. m. k. ef ábúendur eiga þess kost að fá þær á erfðaleigu. Ábúendur ættu þá að fá heimild til að veðsetja jarðirnar fyrir lánum til húsagerðar og annarra umbóta eftir þeim reglum, sem gilda um slíkar lánveitingar almennt, á sama hátt og bændur á ríkisjörðum, sem hafa þær á erfðafestu. Slík heimild til veðsetningar er nú í 2. gr. frv. Um leið væru að sjálfsögðu þeir sjóðir, sem eiga þessar jarðir, leystir undan þeirri kvöð, sem hvílir á jarðeigendum samkvæmt ábúðarlögum, að leggja fram fé til bygginga á jörðum.

Víða um land er nú allmikil eftirspurn jarðnæðis. Það er auðveldara fyrir frumbýlinga að byrja búskap, ef þeir geta fengið jörð á erfðaleigu með sanngjörnum kjörum, heldur en ef þeir þurfa að kaupa jörðina auk bústofns og annars, sem til búrekstrar þarf. Með því að ráðstafa þessum jörðum á þann hátt er hægt að gera hvort tveggja, að fylgja fyrirmælum gefendanna um að byggja jarðirnar, en ekki selja, og tryggja það, að jarðirnar verði nytjaðar. Og engin ástæða er til að ætla, að erfðaleigujarðir verði verr setnar en þær, sem eru í sjálfsábúð.

Á síðasta þingi voru samþ. lög um viðauka við lög frá 1941, um eftirlit með opinberum sjóðum. Þau viðaukalög snertu sjóði, sem stofnaðir höfðu verið með jarðagjöfum. Í þeim segir, að heimilt sé að selja jörð þrátt fyrir bann við því í gjafabréfi eða skipulagsskrá, en því aðeins sé þó heimilt að auglýsa jörð til sölu eða selja, að hún hafi áður verið auglýst laus til leiguábúðar og þeim, sem vill taka jörðina á leigu, sé gefinn kostur á erfðaábúð. Brtt. þær, sem ég flyt hér, eru því í samræmi við þau ákvæði, sem sett voru í lög á síðasta þingi og ég hef hér nefnt. Ég vænti þess, að hv. landbn. sem og aðrir hv. þdm. geti fallizt á þessar brtt. mínar.