09.03.1954
Neðri deild: 59. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 188 í C-deild Alþingistíðinda. (2369)

163. mál, olíuflutningaskip

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Eins og hv. þdm. er kunnugt, þá eru mjög miklir flutningar á olíum og benzíni til landsins árlega. Það eru geysiháar fjárhæðir, sem greiddar eru árlega út úr landinu fyrir flutningsgjöld í sambandi við þessa flutninga. Mér er tjáð, að á árinu 1953 hafi um 29 millj. kr. verið greiddar erlendum skipum í sambandi við flutninga þessa.

Það hefur komið fram áhugi fyrir því að eignast olíuskip, tankskip, til þess að Íslendingar gætu tekið þessa flutninga í sínar hendur. Nú hafa þeir aðilar, sem í frv. greinir, snúið sér til ríkisstj. og farið fram á að fá aðstoð ríkisvaldsins til þess að eignast olíuskip. Þessir aðilar eru, eins og frv. ber með sér, á öðru leitinu Samband ísl. samvinnufélaga og Olíufélagið h/f sameiginlega og á hinu leitinu Eimskipafélag Íslands og hin tvö olíufélögin, Shell og Olíuverzlun Íslands. Þessi félagasamtök hafa farið fram á, að greitt yrði fyrir því, að þau gætu eignazt olíuskip, með því að ríkissjóður tæki á sig ábyrgð á lánum. sem tekin væru til kaupa á slíkum skipum, allt að 50 millj. kr. til kaupa á hvoru skipi.

Það leikur ekki á tveim tungum, að félagasamtök þau, sem hér eiga hlut að máli. eru það sterk að það er engin áhætta fyrir ríkissjóð að ábyrgjast fyrir þau slíkar fjárhæðir, þótt stórar séu. Skipin mundu að sjálfsögðu standa þar til tryggingar. en þessi félagasamtök eru þar að auki það fjárhagslega öflug, að fjárhagsáhætta er engin. Á hinn bóginn getur það alveg riðið baggamuninn um það hvort hægt er að koma þessum stórvirkjum í framkvæmd, hvort þessi ábyrgð fæst eða ekki. Það gæti vel farið svo að hægt væri að fá fjármagn til þessara skipakaupa með ríkisábyrgð, en ekki hægt með öðru móti, jafnvel þó að hér eigi sterkir aðilar í hlut.

Ríkisstj. vill gera það, sem með sanngirni verður af henni vænzt, til þess að Íslendingar geti eignazt olíuskip, og leggur því til að hv. Alþingi heimili að ganga í ábyrgðir fyrir þessi félagasamtök fyrir þeim fjárhæðum, sem tilgreindar eru í frv.

Ríkisstj. telur mjög þýðingarmikið fyrir Íslendinga, að þessar siglingar gætu orðið innlendar, og telur að fjárhagsáhætta sé engin í þessu sambandi fyrir ríkissjóð, eins og ég þegar hef greint.

Það er alveg áreiðanlega óhætt að gera ráð fyrir, að þau félagasamtök, sem hér eiga hlut að máli, mundu ekki vilja ráðast í kaup á þessum skipum, nema þau tryðu því sjálf, að hægt væri að reka skipin hér með sæmilegum árangri. Þau eru sem sé þannig sett, félögin, að ef hér yrði um fjárhagslegt tjón að ræða, þá skylli það tvímælalaust á þeim, en ekki á ríkinu eða neinum öðrum. Þess vegna er áreiðanlega óhætt að treysta því að þau mundu ekki ráðast í þetta, ef þau teldu þetta ekki skynsamlegt frá sínu sjónarmiði. Og ef það er skynsamlegt frá þeirra sjónarmiði að eignast þessi skip, þá virðist mér það líka skynsamlegt frá sjónarmiði heildarinnar.

Nú hafa heyrzt raddir um, að það mundi kannske hyggilegra að stíga ekki tvö skref í einu, ef svo mætti segja, heldur stíga aðeins eitt skref í einu og gefa aðeins kost á því að greiða fyrir um útvegun á einu skipi, en ekki tveimur. Þær röksemdir hafa verið færðar fyrir þessu að tvö skip mundu geta flutt miklu meira af olíu og benzíni en Íslendingar þurfa að flytja til landsins eins og nú standa sakir, jafnvel þó að það sé tekið með, sem þeir nú flytja hingað til landsins fyrir aðra. Það er alveg rétt, að þessi skip mundu geta flutt bæði saman miklu meira samtals en Íslendingar nota eins og nú standa sakir. Í mínum augum er það þó ekki rök fyrir því, að ekki sé rétt að greiða fyrir því, að hingað komi tvö skip, og það er vegna þess, að menn verða að venja sig af þeim hugsunarhætti, að Íslendingar eigi aðeins að sigla fyrir sjálfa sig, en eigi ekki að keppa að því að flytja vörur eða sigla í þjónustu annarra.

Ég álít, að Íslendingar eigi að keppa að því að koma hér upp öflugum kaupskipaflota og hafa að atvinnugrein að annast siglingar fyrir aðra, hliðstætt því, sem Norðmenn og fleiri gera nú. Það er engum vafa undirorpið, að Íslendingar hafa góð skilyrði á margan hátt til þess að takast slíka þjónustu á hendur og gera siglingar fyrir aðra að atvinnugrein. Landið liggur mjög heppilega til þess, og Íslendingar eiga nú þegar áreiðanlega óvenjulega vel menntaða og dugmikla sjómannastétt, en á því veltur ákaflega mikið í sambandi við slíkan atvinnurekstur. Ég álít því, að hiklaust eigi að keppa að því, að hér komi upp kaupskipafloti, sem geti siglt fyrir aðra, og ef tekst að eignast þessi tvö olíuskip, þá eiga þau að geta siglt talsvert mikið fyrir aðra. Þá væri einmitt merkilegt spor stigið í siglingasögu landsins, því að fram að þessu höfum við þó aðallega eða jafnvel alveg eingöngu annazt siglingar fyrir okkur sjálfa.

Það er svo annað atriði, sem ekki kemur þessu beint við, en gaman er þó að minnast í sambandi við mál þetta, að auk þess, sem við auðvitað eigum að hafa óvenjulega góða aðstöðu til þess að verða siglingaþjóð á þennan hátt, þá hljótum við að hafa einnig óvenjulega góða aðstöðu til þess að gerast loftsiglingaþjóð, enda þegar góð reynsla í því efni. Eigum við hiklaust að keppa að því að auka þann atvinnurekstur sem allra mest.

Það er auðvitað mjög fjármagnsfrekt að koma upp stórum kaupskipastól og flugvélaflota, og við höfum sjálfir ekki nema lítið fjármagn til þess að leggja fram í því skyni og verðum því að reyna að fá að láni það, sem unnt er, til þess. Ég tel það mjög ánægjulegt. þegar sterkir aðilar í landinu vilja gerast til þess að taka frumkvæði í þessu og taka á sig þá áhættu, sem auðvitað hlýtur alltaf að vera einhver. Ég tel því fullkomlega réttmætt, að ríkisvaldið komi til stuðnings og greiði fyrir á þann hátt, sem það getur, ekki sízt þegar þannig stendur nú á, eins og í þessu falli, að það er nokkurn veginn alveg augljóst mál, að það verður að útlátalausu fyrir ríkið og þjóðfélagið í heild sinni, þannig að þjóðin og ríkið hefur allt að vinna í þessu sambandi, en engu að tapa.

Nú gætu menn spurt, og það kemur kannske í hug sumum, hvort svona stórar lántökur til kaupa á skipum mundu ekki koma í bága við aðrar fyrirætlanir, sem ríkisstj. og Alþingi hafa um útvegun lánsfjár til annarra framkvæmda. Um þetta er ekki hægt að fullyrða neitt, en ég vil benda á, að það stendur stundum þannig á, að hægt er að útvega fé til þess að kaupa skip og jafnvel flugvélar og slík farartæki, sem ekki eru staðbundin, þótt ekki sé hægt að útvega það hið sama fé til annars. Þess vegna þarf þetta engan veginn að reka sig á aðrar fyrirætlanir, þótt gefinn væri kostur á þessari ríkisábyrgð og þessar lántökur ættu sér stað, enda verður náttúrlega að hafa það atriði í huga við framkvæmd málsins. Lán til þess að kaupa skip og flugvélar eru í allt öðrum flokki en þau lán, sem tekin eru til þess að koma upp fyrirtækjum, sem eru föst og óhreyfanleg.