09.03.1954
Neðri deild: 59. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 201 í C-deild Alþingistíðinda. (2371)

163. mál, olíuflutningaskip

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Hér er nú fram komið stjórnarfrv. um heimild fyrir ríkisstj. til að ábyrgjast lán til kaupa á tveimur olíuflutningaskipum til handa þeim aðilum, sem þar segir, annars vegar til handa Sambandi ísl. samvinnufélaga og Olíufélaginu og hins vegar til handa Eimskipafélagi Íslands og tveimur olíufélögum, Shell og Olíuverzlun Íslands. Það er út af fyrir sig mjög ánægjulegt, að nokkur skriður skuli vera að komast á þetta mál, kaup á olíuflutningaskipum. Það blandast víst engum hugur um það, að við Íslendingar verðum að stefna að því meir en gert hefur verið að koma hér upp kaupskipaflota, sem í fyrsta lagi nægi algerlega landsmönnum sjálfum til að flytja þær afurðir frá landinu, sem við framleiðum, og þær vörur til landsins, sem við þurfum að kaupa. Það er einnig rétt að mínum dómi, sem hæstv. fjmrh. sagði hér áðan, að við eigum að stefna hærra en þetta í þessum málum. Við eigum að stefna að því að geta tekið að okkur flutninga fyrir aðrar þjóðir.

Það hefur verið sýnt fram á það með miklum rökum, að fátt mundi vera vænlegra fyrir okkur í þessum efnum heldur en kaup á olíuflutningaskipum. Flutningaþörfin á olíum hefur vaxið svo gífurlega undanfarin ár, að nú er það mjög mikið magn, sem við flytjum til landsins á hverju ári, svo að þarna er um að ræða alveg fast verkefni fyrir a. m. k. eitt stórt skip og mundi sennilega á allra næstu árum verða nóg verkefni fyrir tvö skip af þeim stærðum, sem um er talað, sem mun vera einhvers staðar á milli 15 og 18 þúsund tonn.

En í sambandi við þetta mál eru skiptar skoðanir um það, hvaða aðilar eiga að hafa eignar- og yfirráðarétt þeirra skipa, sem keypt mundu verða. Ég vil í sambandi við þetta mál minna á það, að ég og hv. 8. landsk. þm. höfum snemma á þessu þingi flutt á þskj. 113 frv. til l. um kaup á tveimur olíuflutningaskipum, þar sem lagt var til, að ríkisstj. væri heimilað að kaupa eða láta smíða á kostnað ríkissjóðs tvö olíuflutningaskip og heimilað jafnframt að taka lán erlendis til þessara framkvæmda.

Hæstv. fjmrh. sagði hér í ræðu sinni áðan, að þeir aðilar, sem hér um ræðir og ríkisstj. leggur til að fái þessa ábyrgðarheimild og þar með möguleika á að kaupa olíuflutningaskip, mundu ekki hafa hug á þessum skipakaupum, ef þeir teldu það ekki ábatavænlegt. Þetta er áreiðanlega satt og rétt. En fyrst það er fullyrt af hæstv. ráðh. og styðst þar að auki við allar líkur, að þetta muni vera mjög ábatavænlegt fyrir þá aðila, sem hér um ræðir, hví þá ekki að láta ríkissjóð njóta þessa ábata eða í öðru lagi að láta ríkissjóð hafa það í hendi sinni að halda verðinu á flutningunum á olíunni niðri til þess að auðvelda sjávarútveginum, sem notar nú mikinn hluta af þessari olíu, þann erfiða róður, sem hann stendur nú í? Sjávarútvegur okkar, og þá alveg sérstaklega togaraútvegurinn, er nú vissulega svo aðþrengdur, að það væri ekki vanþörf á að létta af honum t. d. okrinu í sambandi við þennan stóra útgjaldalið, olíuna. Það hefur komið í ljós, að einmitt flutningarnir á olíu hafa valdið því, að orðið hafi þyngra fyrir fæti hjá togaraútgerðinni, sem nú berst mjög í bökkum. Það er ekki líklegt, að þeir olíuhringar eða þau skipafélög, sem hér um ræðir, mundu létta mikið þessar álögur, en væri hér um ríkið sjálft að ræða, þá hefði það að sjálfsögðu í hendi sér að haga flutningsgjöldunum með tilliti til þess, að skipin bæru sig, en ekki öllu meira.

Ég vil leyfa mér að fara fram á það, að sú hv. n., sem fær þetta mál til meðferðar, hv. fjhn., taki nú rögg á sig og afgreiði það mál, sem til hennar var vísað fyrir nærri 4 mánuðum, og á ég þar við frv. okkar hv. 8. landsk. um heimild fyrir ríkisstj. til að ábyrgjast lán til kaupa á olíuflutningaskipum, sem ríkissjóður keypti. Ég vildi vænta þess, að þetta frv., sem hæstv. ríkisstj. hefur nú borið fram, verði ekki afgreitt fyrr en hitt frv. kemur úr nefnd og hægt er þá að taka einnig afstöðu til þess.