09.03.1954
Neðri deild: 59. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 218 í C-deild Alþingistíðinda. (2377)

163. mál, olíuflutningaskip

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það voru aðeins nokkur orð í sambandi við ræðu hæstv. fjmrh. Ég sé, að hann er ekki mættur hér. Ætli hann hafi vikið alveg af þingfundi? (Forseti: Mér er ókunnugt um það.) Ég ætlaði eingöngu að svara nokkrum atriðum, sem fram komu í ræðu hans. Ja, það skiptir kannske ekki verulegu máli, ég mun gera mínar athugasemdir eftir sem áður, sé ekki ástæðu til þess að vera að fresta þeim, fyrst hann hefur vikið af fundi.

Ég tók eftir því, að hann vék sér með öllu undan að svara þeirri aðalspurningu minni, hvort hann vildi ljá því lið að veita samtökum íslenzkra útvegsmanna þá ríkisábyrgð eða hliðstæða ríkisábyrgð við þá, sem hér er gert ráð fyrir að veita olíufélögunum í sambandi við kaup á olíuskipi, svo að samtök útvegsmanna gætu tekið að sér olíuflutningana til landsins. Hæstv. fjmrh. sá ekki þörf á því að svara þessu, og hygg ég, að fleiri þingmönnum hafi farið líkt og mér að undrast, að hann skyldi ekki víkja að þessu, svo sjálfsagt sem það virðist vera að gefa þeim aðilanum, sem mest á hér undir, tækifæri a. m. k. til jafns við olíuverzlanirnar til þess að eiga kost á að taka þessa flutninga að sér. En hann valdi þann kostinn að vilja ekki ræða það mál. Það eina, sem hann kaus að ræða, var að gera hér tvær athugasemdir í sambandi við það, sem ég sagði hér um rekstur Olíufélagsins h/f og rekstur olíufélaganna almennt. Hann reyndi að afsaka það, þegar Olíufélagið h/f á sínum tíma í sambandi við gengisbreytinguna verðlagði einn olíufarm, sem þá kom til landsins, rösklega 1.6 millj. kr. of hátt að dómi undirréttar, sem hafði fjallað um málið. Skýringar hæstv. ráðh. á þessu atriði voru þess eðlis, að ég hygg, að flestir, sem á hlýddu, séu nokkurn veginn jafnnær eftir þær skýringar, nema þá helzt um það, að dómstólarnir séu farnir að leggja þetta olíufélag alveg sérstaklega í einelti og vilji ekki heimila því þann rétt, sem öllum öðrum hafi verið heimilaður í sambandi víð gengisbreytinguna. Þessar skýringar hæstv. ráðh. eru vitanlega með öllu ófullnægjandi. Það liggur alveg ótvírætt fyrir, að þetta olíufélag, sem flutti stóran olíufarm til landsins um það leyti, sem gengisbreyting var samþ., taldi sig hafa greitt þann olíufarm, sem þarna kom til landsins, með hinu nýja gengi, eftir að gengisbreytingin hafði verið gerð, þó að ótvíræð sönnunargögn lægju fyrir um, að það hafði greitt olíufarminn áður en gengisbreytingin var gerð og því átti að selja olíuna á því lægra verði, sem áður gilti. Það var aðeins um þetta deilt, og alveg ótvíræð gögn lágu fyrir um það, að olíufarmurinn hafði verið greiddur áður en gengisbreytingin var gerð. og það var þetta, sem réð úrslitum, og því var það, að dómur undirréttar féll á félagið í þessu efni. Og það er, eins og ég sagði, furðulegt, að ráðherra á Íslandi skuli leyfa sér að ætla að halda uppi vörnum fyrir þetta, sem liggur svona skýrt fyrir, og vilja jafnvel verðlauna þau félög, sem svona haga sér, með stórfelldri ríkishjálp til þess að taka að sér einokunarvald í sambandi við flutninga á olíum.

Það sama er um hitt atriðið, sem hann reyndi að afsaka í sambandi við verzlunarhætti Olíufélagsins h/f, það sem gerðist á s. l. sumri. Það er líka alveg óumdeilt atriði, að Olíufélagið h/f varð þá að skila aftur til viðskiptamanna sinna um 700 þús. kr., sem var of hátt reiknuð fragt á einum tilteknum olíufarmi. Hæstv. ráðh. reynir að afsaka þetta með því, að félagið hafi að vísu samið um nokkra lækkun á frögtum frá því, sem þá var mjög algengt að taka, og það má vel vera, en svo hafi félagið einnig sótt um leyfi til þess að mega taka þessa lækkun, sem það náði á fragtasamningi sínum, og leggja féð í sjóð í því skyni að kaupa fyrir það olíuskip, en hins vegar hafi þetta leyfi ekki fengizt og þá hafi félagið aftur skilað upphæðinni. Það liggur þá alveg glöggt fyrir, að olíufélagið, — hann viðurkennir það auðvitað, sem er ekki hægt í rauninni að bera á móti, — að það hefur tekið þessari upphæð of mikið og segist að vísu hafa gert það í þessari góðu meiningu. En það er hitt, sem liggur líka jafngreinilega fyrir, að það skilaði ekki þessari upphæð fyrr en búið var að kæra félagið. Það kom ekki af sjálfu sér og skilaði upphæðinni. Það var búið að kæra félagið fyrir, að það hefði tekið of háa fragt. Það var búið að standa í blaðaskrifum hér um þetta mál í langan tíma, og þeir, sem olíuna höfðu keypt, höfðu þurft að borga hana á hærra verði en verðlagsákvæðin leyfðu að selja olíuna á, þær reglur höfðu því verið brotnar, og það mátti til með að skila hverjum einum, sem olíuna hafði keypt, þessum fjármunum aftur. Þetta eru staðreyndir, sem ekki er hægt undan að hlaupa þrátt fyrir allar ráðherraskýringar á þeim.

Nú vil ég engan veginn halda því fram, að þetta olíufélag, sem þetta hefur hent, sé í eðli sínu neitt verra en hin olíufélögin, því að þau hafa staðið yfirleitt saman að því að reka olíusöluna þannig á Íslandi, að hún hefur verið útvegsmönnum hér alltaf miklu óhagstæðari en olíusala í nálægum löndum. En þetta er aðeins dæmi um það, hvernig þessi stóru samtök hafa notað sér einkaaðstöðu sína, því að þau hafa fylgzt svo að, að það má tala þar um einkaaðstöðu til olíuverzlunar á Íslandi. Og vegna þess að þessi dæmi liggja ótvírætt fyrir, þá er ég því gersamlega andvígur, að ríkissjóður sé nú að ábyrgjast allt að 100 millj. kr. til þessara aðila til þess að gefa þeim alveg ótvíræðan einokunarrétt til flutninga á allri olíu til landsins. Ég veit líka, að það eru til möguleikar bæði fyrir ríkissjóð og eins fyrir samtök útvegsmanna að taka þessa þjónustu að sér án þess að þurfa að fara þessa nauðungarleið, og ég vil vona, að sú n., sem nú fær mál þetta til athugunar hér í d., athugi einmitt um þær leiðir, til þess að hægt sé að koma þessu nauðsynjamáli betur fyrir en lagt er til í frv. ríkisstjórnarinnar.