09.03.1954
Neðri deild: 59. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 220 í C-deild Alþingistíðinda. (2378)

163. mál, olíuflutningaskip

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Hæstv. ráðh. fór ekkert inn á að gera athugasemdir við það, að tvö 18 þús. tonna olíuflutningaskip gætu flutt hingað til landsins um 430 þús. tonn á ári, en olíunotkun landsmanna sjálfra mundi vera um 150 þús. tonn. Síðan heldur hann fast við það, að það olíumagn, sem þessi tvö olíuflutningaskip geti flutt auk þess sem þau þurfi að flytja fyrir Íslendinga, ætli þau að flytja fyrir aðrar þjóðir og hefja þannig siglingar á olíuverzlunarsviðinu fyrir aðrar þjóðir. Hann vildi bera brigður á, að það væri mikið um, að Kínverjar og aðrir, sem ynnu fyrir lágt kaup, væru á olíuflutningaskipaflota heimsins, en hann má alveg trúa því, ef hann hefur ekki aflað sér upplýsinga um það, að það er rétt. Meginhlutinn af skipshöfnum þessara skipa er Kínverjar og Suður-Ameríkumenn, sem vinna þar fyrir mjög lágu kaupi, svo að það er næsta ólíklegt, að íslenzkir aðilar, sem rækju slíka flutninga í gróðaskyni, tækju upp slíka samkeppni.

En kæmi það þá okkur Íslendingum nokkuð við, ef þessi tvö skip, sem íslenzka ríkið hefði hjálpað til þess að einkaaðilar eignuðust, væru rekin með hálft verkefni? Eru ekki allar líkur til þess, að þó að þau hefðu ekki verkefni nema fyrir hálft árið, þá yrðu þau látin hafa það ríflega álagningu á olíuna, að þau yrðu látin bera sig? Og á hvern kæmi sú byrði? Hún kæmi á íslenzkan sjávarútveg. Það er þess vegna mál, sem okkur kemur við, ef þarna er verið að kaupa tvö skip, þegar ekki þarf nema eitt, ef það skyldi reynast svo, að þau treystu sér ekki til að fara út í hina erlendu samkeppni, heldur láta sér nægja hið hálfa verkefni og sulla þess vegna meiri álagningu á vöruna, sem þau flytja, og láta það bitna á íslenzku atvinnulífi, sem er í nauðum statt.

Hæstv. ráðh. hafði engin rök í þessu önnur en þau að segja: Norðmenn eru mikið komnir út í olíuflutninga fyrir aðrar þjóðir, og úr því að Norðmenn geta það, þá eigum við líka að geta það. — Eftir sömu röksemdafærslu ættum við líka að geta haft olíu til sölu hér á sama verði og Norðmenn, en það höfum við ekki getað. Það er þess vegna hætt við því, að okkur takist ekki það, sem Norðmönnum kann að takast á þessu sviði.

Hæstv. ráðh. spurði, hvort mönnum fyndist þetta ekki nokkuð eðlilegir aðilar, S. Í. S., sem á flutningaskipastól, og Olíufélagið h/f og svo Eimskipafélag Íslands með sinn myndarlega skipastól og Shell og Olíuverzlun Íslands. Jú, það má segja það, að ef þessi starfsemi er á höndum einstakra aðila, þá sé það ekkert fráleitt. að slíkir aðilar fari með þetta hlutverk. En það er búið hér eftir góðum heimildum að upplýsa, hvernig olíufélögin hafa reynzt í þessari þjónustu. Það eru stjórnarblöðin, sem eru heimildirnar. Það er álíka góð heimild og þetta stjfrv., sem hérna liggur fyrir. Morgunblaðið upplýsti, að mörg hundruð þús. kr. gróði væri tekinn umfram það, sem þyrfti, af einum olíufarmi. Tíminn upplýsti alveg á sama hátt, að það væri milljónagróði, sem Shell og BP styngju í sinn vasa af olíuflutningunum til landsins. Og þó að Olíufélagið h/f yrði að skila til sjómanna 700 þús. kr. mismun á þeirri fragt, sem það vildi reikna sér og taldi normalfragt, jafna þeim frögtum, sem Shell og BP bjuggu þá við, þá varð bara eftir skuturinn hjá Shell og BP að skila samsvarandi upphæðum, sem þau hefðu átt að geta skilað alveg eins.

En það er einn aðili enn, sem á myndarlegan skipastól á Íslandi. Það er Skipaútgerð ríkisins. Og Skipaútgerð ríkisins á meira að segja tankskip, sem annast olíudreifingu með ströndum landsins og gerir það í samkeppni við skip, sem Shell h/f á. Nú hefur verið upplýst hér á Alþ., að Þyrill, tankskip skipaútgerðar ríkisins, hefur sömu taxta á olíuflutningum til Faxaflóahafna eins og Skeljungur hefur, en Þyrill hefur aftur lægri taxta á olíuflutningum en Skeljungur. þegar kemur til Vestfjarðahafna, Norðurlandshafna og Austfjarðahafna. En er þá ekki þetta skip rekið með tapi? Nei, þrátt fyrir það þó að skipaútgerð ríkisins spari landsmönnum, sem fá flutta olíu með Þyrli, hundruð þús. kr., þá er samt 600 eða 700 þús. kr. gróði á rekstri Þyrils. Þegar svo hæstv. ráðh. talar um það, hvort hann telji heppilegt, að íslenzka ríkið gerist nú kaupandi að olíuflutningaskipi og taki þannig að sér olíuflutninga til landsins, þá segir hann: Ég tel ekki heppilegt, að ríkið kaupí olíuflutningaskip, en leiði hjá mér að rökstyðja það. — Af hverju er nú hæstv. ráðh. að hlífast við að rökstyðja þetta? Þetta er mikils vert atriði. Hann hefur þó vitneskju um það, að skipaútgerð ríkisins, það hreina ríkisfyrirtæki, á lítið tankskip og græðir á því hundruð þúsunda og hefur þó taxta sína lægri en skip einkaframtaksins. Það eru líkur til, að skipaútgerð ríkisins gæti grætt margar milljónir á því að fá þá ríkisábyrgð, sem hér er lagt til, 100 millj. kr. ríkisábyrgð til þess að kaupa — við skulum segja tvö tankskip. Ég held, að það væri miklu eðlilegra, og ég er nærri því sannfærður um. að það væri hægt að fá þingvilja fyrir því, að þessu frv. væri breytt í það form í n., að skipaútgerð ríkisins fengi ábyrgð ríkisins til þess að kaupa tvö tankskip til þess að annast alla olíuflutninga til landsins og þá að taka upp samkeppni, sem hæstv. ráðh. gerir sér vonir um að sé fært að taka upp, við olíuflutningaskip annarra þjóða. En í sambandi við það langar mig til að spyrja um eitt, og það er þetta: Að vissu leyti er praktískara, að aðili, sem annast olíuflutninga, hafi tvö olíuflutningaskip heldur en eitt, og það er vegna þess, að ef olíuflutningatankskip hefur flutt hráolíu í einni ferð og á svo að flytja benzín í þeirri næstu. þá þarf að kosta geysilega miklu til, til þess að hreinsa tanka skipsins, svo að hægt sé að skipta þannig um vörutegund í sama skipi. Það þarf fleiri dælukerfi og skipið verður dýrara, ef þetta á að geta gerzt, án þess að flutningar tefjist, og hreinsunin þarf að vera mjög vandlega framkvæmd og kostar ærið fé. Er hæstv. ráðh. kunnugt um, að það eigi að vera samvinna milli eigenda þessara tveggja tankskipa, sem hér er um að ræða, um það, að annað skipið skuli standa í stöðugum flutningum með hráolíur og hitt skuli taka að sér benzín- og steinolíuflutninga, eða einhver slík samvinna, sem komi í veg fyrir þá örðugleika, sem eru á því að skipta um eina olíutegund og til annarrar? Ef slík samvinna er til milli þessara fyrirtækja, sem ríkið ætlar sér að ganga í ábyrgð fyrir, þá er það til bóta og hefur verulega þýðingu fyrir það verðlag, sem atvinnulífið kæmi til með að njóta á olíunum. En ég held, að til þess að ná þessum ávinningi væri miklu hentugra, að einn aðili, eins og t. d. skipaútgerð ríkisins, ætti bæði skipin og mundi þá alveg tvímælalaust taka upp þá hagkvæmustu rekstraraðferð, að því er þetta snerti, að hafa verkaskiptingu með skipunum, sem ég tel að mjög sé ólíklegt að verði gert hjá hinum tveimur eigendum, því að ég hef ekki fengið neinar upplýsingar um, að nein skynsamleg samvinna sé tryggð fyrir fram þarna á milli.

Ég skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta, en aðeins láta í ljós, að ég tel heppilegra en það, sem ætlazt er til með þessu frv., að skipaútgerð ríkisins fengi 100 millj. kr. ríkisábyrgðarheimild til þess að kaupa tvö tankskip, og ég tel líka heppilegra, ef ríkisábyrgðin yrði veitt olíusamlögum útvegsmanna og sjómanna. Ég tel þess vegna, að hæstv. ríkisstj. hafi eins og oft áður hitt á óheppilegustu leiðina í málinu.