06.10.1953
Efri deild: 3. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 223 í C-deild Alþingistíðinda. (2381)

10. mál, stimpilgjald

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Þetta frv. er samhljóða frv., sem lagt var fram á síðasta Alþ., en varð ekki útrætt. Frv. er undirbúið af n., sem skipuð var til þess að endurskoða lög um stimpilgjald. Þau l., sem nú gilda um stimpilgjald, eru frá 1921, en ýmsir viðaukar hafa verið lögleiddir á þau gjöld. Margt hefur breytzt í landinu síðan 1921, og er því orðin nokkuð mikil ringulreið á stimpilgjöldunum. Sum þeirra eru tiltekin með ákveðnum hundraðshluta, en önnur í krónutölu, og má nærri geta, hvernig samræmi er orðið nú, miðað við það, sem löggjafinn ætlaðist til að væri, þegar gjöldin voru sett þannig með tvennu móti.

Það er ekki ætlazt til, að þetta frv. verði til þess að auka ríkinu tekjur, heldur var fyrir n. lagt að reyna að stilla svo til, að tekjur yrðu svipaðar og af gildandi lagaákvæðum. Þetta á sem sagt að vera til þess að samræma gjöldin og færa þau í raun réttri sem næst því, er í öndverðu var ætlazt til.

Ég vil leyfa mér að leggja til, að málinu verði vísað til hv. fjhn. að lokinni umræðu.