07.12.1953
Efri deild: 29. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 223 í C-deild Alþingistíðinda. (2384)

10. mál, stimpilgjald

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Snemma á þessu þingi var vísað til fjhn. tveimur frv., sem nú eru á dagskrá, því, sem nú er til umr., og frv., sem er næst á dagskránni. Þetta frv. er um stimpilgjöld, en hitt um aukatekjur ríkissjóðs. Þessi tvö frv. eru svo svipuð að efni, að n. taldi frá upphafi sjálfsagt að láta þau fylgjast að. Það má segja, að þessi frv. hafi lengið lengi hjá n., en bæði var það, að n. leit svo á, að þau þyrftu ýtarlegrar athugunar við, og eins hitt, að ýmis sjónarmið komu fram í n., sem langar umræður urðu um. N. hefur því fyllilega sinnt þessum málum og rætt þau á mörgum fundum, þó að nál. um þau komi ekki fyrr en nú.

Hv. 4. þm. Reykv. var ekki við, þegar n. afgreiddi þessi mál, og veit ég því ekki um afstöðu hans. Það, sem ég segi hér, er því aðeins fyrir hönd okkar fjögurra nm., sem undirskrifa nál. á þskj. 258. Við fjórir nm. lítum svo á, að þessi frv. bæði stefni í rétta átt og því sé rétt að samþ. þau.

Í fyrsta lagi er hér um heildarlöggjöf að ræða, sem er miðuð við nútímann. Framlenging ár eftir ár á viðaukum við þessi gjöld ætti því að geta horfið úr sögunni. Þetta tel ég fyrir mitt leyti mikinn kost og tel, að svo ætti að fara um fleiri lög, sem framlengd eru ár eftir ár og hægt er að sjá nú þegar, að ekki muni verða komizt hjá í framtíðinni að fara eftir að meira eða minna leyti. Ég tel því rétt, að um þau yrðu gerðar svipaðar ráðstafanir, ýmis þeirra, eins og hér er lagt til með þessum frv., að í staðinn fyrir þessar framlengingar kæmi löggjöf, sem ætti við nútímann.

Í öðru lagi hafa undanfarið bæði stimpilgjöld og ýmis föst gjöld, svo sem leyfisgjöld ýmiss konar og gjöld fyrir tiltekin embættisverk, verið hækkuð um vissar prósentur jafnt. Þetta er að áliti n. ranglátt, því að prósentgjöldin hækka af sjálfu sér með hækkuðu verðlagi, en þessi föstu gjöld, sem ég minntist á, hafa ekki hækkað svipað því í hlutfalli við verðlag þrátt fyrir þá viðauka, sem á þau hafa verið sett.

Þessi tvö frv., sem fyrir liggja, lækka yfirleitt prósentgjöldin, en hækka verulega hin föstu gjöld, og þetta álítur n. rétta stefnu. N. hefur ekki enn tekið afstöðu til nokkurra atriða, sem til orða hafa komið undir meðferð málsins og mjög mikið hafa verið rædd, en við 4 nm., sem að nál. stöndum, höfum þegar orðið ásáttir um að bera nú við þessa umr. aðeins fram þær brtt., sem við erum allir sammála um. En n. í heild sinni og einstakir nm. áskilja sér rétt til að bera fram frekari brtt. við 3. umr.

Skal ég svo víkja að brtt. n. með fáum orðum, þær eru samtals tíu.

1. brtt. er við 5. gr. frv., og er þar lagt til að fella niður 4. tölul., en hann er um stimplun á útlendum hlutabréfum, skuldabréfum og öðrum slíkum skjölum, sem flutt eru hingað, annaðhvort sem eign manna eða félaga, sem eiga hér heimili. N. telur ekki rétt, að þessi bréf séu yfirleitt stimpilskyld hér á landi, þar sem þau að sjálfsögðu hafa verið stimpluð í heimalandinu, þar sem þau eru gefin út.

2. brtt., við 12. gr., er aðeins orðabreyting, sem ekki þarf skýringar við. Ég vil ekki segja, að þessi orðabreyting sé endilega sjálfsögð, það er smekksatriði, en n. telur nú þetta réttara orðalag.

3. brtt. er við 13. gr., sem er um það, hverjir hafi rétt til að stimpla skjöl, og þar er m. a. tekið fram, að einstökum mönnum er óheimilt að stimpla skjöl. Þó getur stjórnarráðið veitt félögum og stofnunum rétt til þess gegn tryggingu, er það setur um reikningsskil og bókfærslu. Hér virðist það vera fellt niður, sem gilt hefur undanfarið, að málflutningsmenn hafa haft rétt til þess að stimpla skjöl samkvæmt sérstöku leyfi ráðuneytisins. N. finnst rétt, að það sé heimilt að veita slíkum mönnum þennan rétt, og er 3. brtt. um það, og er lagt til, að síðasti málsh. gr. orðist svo: „Þó getur rn. veitt félögum, stofnunum og einstökum mönnum rétt til þess gegn tryggingu, er það setur um reikningsskil og bókfærslu.“

4. brtt., við 15. gr., er orðabreyting, sem er sams konar og í 1. brtt. og þarf ekki nánari skýringar við.

5. brtt. er um það, að 30. gr. frv. falli niður, en hún hljóðar svo: „Framsal á skuld stimplast eftir reglum 27. gr.N. álítur, að framsal á skuld, sem venjulega mundi þá verða þannig, að skuldabréf er framselt, eigi ekki að vera stimpilskylt, því að slík bréf hafi auðvitað verið stimpluð áður.

Þá er töluverð breyt., sem n. vill gera við 31. gr. Er það 6. brtt. hennar í tveimur stafliðum. Það er svo ákveðið fyrr í frv., að lægsta stimpilmerki skuli vera 5 kr. Það var nú uppi óánægja í n. út af þessu ákvæði, að hafa lágmark stimpilgjalds svo hátt. Nú munu vera til 5 aura stimpilmerki, en þó gerir nú n. ekki brtt. við það, en í 31. gr. er svo ákveðið, að víxlar verði aldrei stimplaðir með lægri upphæð en 10 kr. Þetta finnst n. allt of hátt. Það eru til lágir víxlar, og á lægstu víxlum mundi stimpilgjaldið hækka gífurlega, ef frv. yrði að þessu leyti samþ. óbreytt. N. vill því halda sig við það, að víxla megi stimpla með lægsta stimpilmerkinu, sem frv. gerir ráð fyrir að sé til, en yfirleitt á að stimpla víxla með 2‰. En þó að þetta verði nú samþ., þá er það ekki nægilegt. Ég fyrir mitt leyti veit t. d. um fimmtíu króna víxil. Það yrði nokkuð hátt stimpilgjald á honum að hafa það 5 kr. Enn fremur veit ég um 75 kr. víxil og svo ýmsa víxla, sem eru nokkur hundruð. Þess vegna leggur n. til í b-lið 6. brtt., að endurnýjun víxils, sem ekki nemur 1000 kr., skuli vera stimpilfrjáls, og ef þetta verður samþ., þá er það svo, að þessir víxlar sleppa við stimplun, þegar þeir eru framlengdir, og á þeim víxlum, sem eru 1000 og 2000 kr., hækkar aðeins um 20 aura, því að nú er það kr. 4,80. Að öðru leyti, er ofar dregur, lækka stimpilgjöld, eins og ég gat um áðan, yfirleitt um 20%, þó nokkuð mismunandi, en yfirleitt lækka þau.

En það er annað atriði líka í b-lið 6. brtt., og það er um það, að endurnýjun á víxlum, sem bankar eða sparisjóðir hafa keypt og tryggðir eru með veði í framleiðsluvörum sjávarútvegs, landbúnaðar eða iðnaðar, skuli vera stimpilfrjáls, ef endurnýjun fer fram innan árs frá gjalddaga frumvíxils, þannig að þótt skuldin standi í 18 mánuði, ef fyrsti víxillinn er tekinn til 6 mánaða, þá verður ekki goldið nema einu sinni stimpilgjald af þessum víxlum. Enn sem komið er er hér aðallega að ræða um svo kallaða fiskvíxla. Þó að í tillögunni sé nefndur bæði landbúnaður og iðnaður, þá munu það hafa verið sjávarafurðir hingað til aðallega, sem hafa haft slíka víxla. Með opinberum ráðstöfunum hefur það fengizt fram, að þessir víxlar eru með lægri vöxtum en aðrir víxlar, og þá virðist rökrétt afleiðing af því, að það opinbera lækki einnig önnur gjöld af slíkum skuldum eða slíkum víxlum. Það mun vera svo, þegar afli er veðsettur, að þá eru þessir víxlar gjarnan til stutts tíma, vegna þess að von er þá um, að aflinn seljist og greiðsla geti farið fram, en svo, þegar þetta dregst, þá verða framlengingarnar margar, og eigendum aflans hefur fundizt þetta mjög tilfinnanlegt, að þurfa að vera að borga stimpilgjöld upp aftur og aftur, og fær n. ekki betur séð en að réttmætt sé að verða við óskum um að létta þessu af, þó ekki lengur en ár frá gjalddaga frumvíxilsins, því að eftir 18 mánuði má undir flestum eða næstum öllum kringumstæðum búast við, að aflinn verði seldur og skuldin greidd.

7. brtt. er um það, að 1. málsgr. 33. gr. falli niður, en hún hljóðar svo: „Ef veð eða ábyrgð er áskilin í víxli, stimplast hann eins og veðtryggt skuldabréf.“ Það kann að vera, að þessi málsgr. sé meinlaus, en allir nm. voru sammála um, að hún væri gagnslaus. E. t. v. er það fyrir vanþekkingu nm., en enginn okkar, sem í n. sitjum, hefur séð slíkan víxil sem hér um ræðir, og ég fyrir mitt leyti hygg, að slíkir víxlar séu ekki til hér á landi. Ef veð er sett með víxli, þá er það venjulega, að honum fylgir tryggingarbréf, og er annars staðar í frv. ákvæði um það, hvernig þá skuli með fara, þannig, að ef víxillinn er stimplaður, þá er slíkt tryggingarbréf ekki stimpilskylt.

8. brtt. er, að því er ég hygg, aðeins leiðrétting á prentvillu, þar sem stendur í till., að í stað 0,25% í 3. tölul. komi 0.25‰. Bæði liggur þetta í hlutarins eðli og auk þess má sjá það á grg. frv., að þeir, sem það sömdu, hafa reiknað með því, að þetta væri 0.25‰.

Þá hefur n. gert allmikla breyt. við 50. gr. frv. Er það 9. brtt., en gr. er um það, hvaða l. falli úr gildi með þessu frv., ef að l. verður. Brtt. er um að fella úr frv. þá liði, sem snerta svo kölluð sérréttindi hankanna um stimplun á eigin skjölum, en samkv. frv. óbreyttu er ætlazt til, að þessi l. falli úr glldi, sem á ýmsum tímum hafa verið sett bæði um bankana og einstaka sjóði, og mundu þá þessi réttindi hverfa, ef frv. væri samþ. óbreytt. N. lítur svo á, að það sé rétt, að bankarnir og aðrar þær stofnanir, sem þessi réttindi hafa haft, haldi þeim áfram, og því leggur hún til, að þau ákvæði í 50. gr., sem nema þau l. úr gildi, verði felld úr frv. Ef frv. væri samþ. óbreytt, þá yrði t. d. að stimpla veðdeildarbréf, ræktunarbréf og ýmis slík bréf, sem bankar og tilteknir sjóðir gefa út, og e. t. v. mætti skilja l. á þann veg, að það þyrfti jafnvel að stimpla sparisjóðsbækur eða venjulegar viðskiptabækur. Þetta virðist óþarfi að ákveða með l. að gert skuli.

10. brtt. n. er þess efnis að fella niður 2. mgr. 1. tölul. ákvæða til bráðabirgða, en sú málsgr. hljóðar svo: „Fjármálaráðuneytinu er heimilt að ákveða, að margföldunartala fasteignamatsins skuli breytast til hækkunar eða lækkunar í samræmi við verðlagsbreytingar í landinu.“ N. finnst of langt gengið með því, þegar í fyrri mgr. þessa tölul. er heimilað að tífalda fasteignamatið, að gefa þá rn. víðtækari heimild en þar er. Annars er allt fasteignamat, það skal ég viðurkenna, orðið úrelt og leiðinlegt viðfangs. Það er ekki orðið mögulegt, ef um fasteignaveðslán er að ræða, að fara á nokkurn hátt eftir því löglega fasteignamati nema að margfalda það. Þess vegna er það í lánsstofnunum orðin venja, að í stað þess, að áður var farið eftir fasteignamatinu eins og það lá fyrir í fasteignamatsbók, þá eru nú jafnan dómkvaddir menn eða þá trúnaðarmenn lánsstofnunarinnar, sem verða að meta fasteignina að nýju. Það er alveg víst, að verðlag verður aldrei það sama og það var fyrir stríð og í stríðsbyrjun. Þess vegna er það ákaflega undarlegt, að það skuli ekki vera gerðar nú, þegar verðlag er þó töluvert að festast, ráðstafanir til þess að framkvæma nýtt fasteignamat. Ég býst við, að þetta sé gert — eða réttara sagt, að það sé trassað að gera þetta, að ákveða nýtt fasteignamat, til að hlífa mönnum við fasteignaskatti, en ég sé ekki, að fasteignaskattar þyrftu neitt að hækka, þó að fasteignamatið væri gert svo rétt sem kostur er á, því að auðvitað mætti um leið lækka fasteignaskattana, þegar fasteignamatið hækkaði, lækka þá hlutfallslega, en þetta er nú önnur saga og kemur ekki beinlínis þessu máli við.

Það er þá till. n., eða þess hluta hennar sem afgreiddi málið, að frv. verði nú við þessa umr. samþ. með þeim breyt., sem gerðar eru í þskj. 258, en án efa munu koma einhverjar brtt. fram frá n. eða a. m. k. þá frá einstökum nm. við 3. umr.