02.04.1954
Efri deild: 76. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 230 í C-deild Alþingistíðinda. (2393)

165. mál, ríkisborgararéttur

Jón Kjartansson:

Herra forseti. Ég á hér brtt. á þskj. 614, þess efnis, að tveimur konum, báðum fæddum í Þýzkalandi, verði veittur ríkisborgararéttur.

Á hernámsárunum í síðustu heimsstyrjöld og eins eftir stríðið komst mikið los á allt lausafólk hér á landi. Einkum kom þetta hart niður á sveitunum, þær tæmdust, svo að til stórvandræða horfði. Var um skeið ekki annað sýnna en að heil byggðarlög færu í auðn vegna fólkseklu. Var þá það ráð tekið að leita til Þýzkalands eftir starfsfólki. Það þótti líklegast til árangurs að leita þangað vegna þess neyðarástands, sem ríkti þar í landi eftir styrjöldina, og þetta bar árangur. Á vegum Búnaðarfélags Íslands var flutt til landsins margt fólk frá Þýzkalandi til starfa hér í sveitunum. Einkum voru það þýzkar stúlkur, sem hingað komu. Allmargar þessar stúlkur hafa ílenzt hér, þær hafa gifzt íslenzkum mönnum og stofnað hér heimili og búa nú í sveitunum. Þessar þýzku konur hafa yfirleitt reynzt ágætir borgarar, þær hafa fljótt samlagazt íslenzkum högum og starfsháttum, þær hafa lært málið mjög vel á skömmum tíma, en það er nú venja Þjóðverja, því að þeir eru miklir málamenn.

Ég kann því illa, að þessar konur, sem vegna neyðarástands yfirgáfu ættland sitt og fluttust hingað fyrir atbeina íslenzkra stjórnarvalda og hafa stofnað heimili hér, séu gerðar að annars flokks borgurum. Ég tel þær vera annars flokks borgara, meðan þeim er synjað um íslenzkan ríkisborgararétt. Ég hef þess vegna leyft mér að flytja hér þessar brtt. um tvær konur. þær Dorotheu Kissmann, húsmóður í Hörgsdal á Síðu, sem er gift Bjarna Bjarnasyni hreppsstjóra þar, og Olgu Meckle, húsmóður á Reynivöllum í Suðursveit, sem er gift Þorsteini Þorsteinssyni, sem er húsbóndi á Reynivöllum og hefur tekið við búsforráðum þar af föður sínum, Þorsteini Guðmundssyni hreppsstjóra.

Ég veit, að það eru margar fleiri þýzkar konur, sem eins stendur á um og þessar, sem ég flyt hér brtt. um. Ég vil þess vegna eindregið mælast til þess við hv. allshn., að hún athugi til 3. umr. og endurskoði afstöðu sína til þessara kvenna, því að ég tel þær hafa algera sérstöðu. Þær eru fluttar hingað til landsins á vegum íslenzkra stjórnarvalda, og þa;r hafa stofnað heimili hér á landi, og ég tel það ranglæti, að þeim sé synjað um borgararétt.

Ef n. lofar að endurskoða afstöðu sína, þá vil ég taka till. mína aftur til 3. umr.