02.04.1954
Efri deild: 76. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 231 í C-deild Alþingistíðinda. (2394)

165. mál, ríkisborgararéttur

Frsm. (Lárus Jóhannesson):

Herra forseti. Í tilefni af ræðu hv. þm. V-Sk. tek ég fram, að ég geri ráð fyrir, að n. vilji helzt, að atkvgr. fari fram um þetta nú þegar, og hagi svo störfum sínum eftir því. N. er búin að taka sína afstöðu, að vilja ekki veita ríkisborgararétt erlendum konum, sem giftar eru íslenzkum ríkisborgurum, fyrr en eftir a. m. k. þriggja ára hjónaband. Hún telur nauðsynlegt, að það sé einhver frestur þarna á settur, því að henni er kunnugt um a. m. k. eitt tilfelli, ef ekki tvö, þar sem einmitt þýzkar konur giftust mönnum eingöngu til að ná í íslenzkt ríkisfang og skildu svo við þá. Við verðum að athuga, að þetta, að konur hafa fengið sjálfstæðan ríkisborgararétt og verða ekki íslenzkir borgarar við giftingu, er runnið frá þeim sjálfum. Þær hafa krafizt þessa. Það er ein af jafnréttiskröfum þeim, sem þær hafa beitt sér mjög ákveðið fyrir, og ef farið væri inn á þá braut að veita skilyrðislaust og strax erlendum konum ríkisborgararétt, ef þær giftast íslenzkum mönnum, þá verðum við líka að veita erlendum mönnum, sem hafa gifzt íslenzkum konum, ríkisborgararétt, til þess að jafnræði verði á í þessu efni, og þá erum við sannast að segja komnir inn á mjög hála braut. Annars væri fróðlegt að heyra álit hæstv. dómsmrh., sem þessi mál heyra undir, um vinnubrögð n. í þessum efnum og þær till., sem hún leggur fram núna, þegar farið er að veita ríkisborgararétt samkvæmt hinum nýju lögum.