02.04.1954
Efri deild: 76. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 234 í C-deild Alþingistíðinda. (2399)

165. mál, ríkisborgararéttur

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Það er nú alveg óþarft að vera að bæta við það, sem hv. þm. Seyðf. (LJóh) hefur sagt í þessu máli.

Eins og hv. þd. veit, þá var það meginreglan samkvæmt íslenzkum lögum, að menn þurftu að vera hér 10 ár til þess að geta öðlazt ríkisborgararétt. Í annan stað þurfti fimm ár, ef menn voru í opinberri þjónustu. Í þriðja lagi tók konan ríkisborgararétt mannsins, þannig að ef erlend kona giftist íslenzkum manni, varð hún ríkisborgari um leið. Þessi lög voru felld úr gildi, og nú gilda um þetta ný lög. Samt sem áður hefur n. fylgt þessari höfuðreglu, að sá, sem öðlast hér íslenzkan ríkisborgararétt, ógiftur maður og ógift kona, þarf að vera hér í 10 ár, en ef kona giftist manni, sem hefur íslenzkan ríkisborgararétt, þá höfum við sett upp aðra reglu, sem hv. þm. Seyðf. benti á. Hún er sú, að hún þarf að hafa verið gift manninum í þrjú ár, og þá verði þeirri reglu fylgt, að hún fær íslenzkan ríkisborgararétt. Við gerum ráð fyrir, að svipuð regla verði látin gilda um karlmenn einnig, þegar maður hefur verið giftur íslenzkri konu í þrjú ár, þá fái hann íslenzkan ríkisborgararétt, þó að þeirri reglu sé ekki slegið fastri í þessu tilfelli, sem hér liggur fyrir, því að ég held, að það standi ekki þannig á. Spurningin er bara þetta: Vill hv. þd. fallast á þessar reglur?

Vegna þess hefur það ákvæði verið numið úr lögum, að erlendar konur öðlist ríkisborgararétt af sjálfu sér, um leið og þær giftast íslenzkum manni, að Alþ. hefur ekki viljað láta þá reglu gilda. Þess vegna var hún numin úr lögum, skyldi maður gera ráð fyrir. Ég verð að benda á það, að maður hefur ekki nokkra minnstu ástæðu til þess að halda, að það standi þannig á með neitt af þessum hjónaböndum, að þau séu miðuð við það að ná í íslenzkan ríkisborgararétt; það er síður en svo. En við vitum aldrei, hvenær það getur komið fyrir í framtíðinni, og þess vegna verða að gilda um þetta reglur. Ég hygg, að ég fullyrði ekki of mikið, þó að ég segi, að íslenzkur ríkisborgararéttur sé eins mikils virði og ríkisborgararéttur nokkurrar annarrar þjóðar fyrir þá, sem vilja fá að flytjast inn í lönd, sem er mjög erfitt að komast inn í, og má benda þar á Vesturheim. Þar er tekið með opnum örmum á móti Norðurlandabúum, og líklega eru þeir þar í fremstu röð. Það er a. m. k. enginn framar, og þennan kvóta, sem við höfum inn í ýmis lönd, notum við ekki og erum meðal þeirra örfáu þjóða, sem ekki nota hann. Þess vegna er geysileg eftirsókn hjá þjóðum, sem ekki fá að flytjast inn í þessi lönd, eru búnar að biðja um 4–5 sinnum meiri innflutning til þessara landa heldur en þessar þjóðir fá, og fjöldi manna alltaf á biðlistum. En hjá okkur er það þannig, að við notum ekki þennan kvóta, þannig að hver Íslendingur, sem vill, getur núna komizt inn í þessi lönd, því að ég held, að kvótinn hafi aldrei verið fullnotaður nokkurt ár. Það er þess vegna ekki litið eftirsóknarvert að ná í þennan ríkisborgararétt, og þess vegna er hugsanlegt, að það geti farið svo, að það verði reynt að misnota þetta. (Gripið fram í.) Það kann að vera, að það hafi verið gert. Mér finnst þess vegna, að þessi þriggja ára regla sé ekki ósanngjörn og það sé ekki ósanngirni gagnvart þessum ágætu konum, sem hafa flutzt upp í sveit og gifzt þar, þó að þær þurfi að sætta sig við þessa þriggja ára reglu vegna þess, hvað það er mikils virði að fá íslenzkan ríkisborgararétt, og vegna þess, að við verðum að vera á verði í þessu efni af þeim sökum. Það hefur verið misnotað annars staðar að ná í ríkisborgararétt, sem er mikils virði, og það getur komið að því líka, að það verði misnotað hér. Við þetta miðar n. sínar reglur, en vitanlega er það á valdi hv. þd. að ákveða, hvort þessar reglur eiga að gilda eða eitthvað annað.