12.04.1954
Neðri deild: 90. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 238 í C-deild Alþingistíðinda. (2411)

165. mál, ríkisborgararéttur

Einar Ingimundarson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja brtt. við frv. um veitingu ríkisborgararéttar á þskj. 791 þess efnis, að Reidar Kolsoe stýrimanni í Reykjavík verði veittur íslenzkur ríkisborgararéttur. Umsækjandi er fæddur 28. sept. 1902 í Osló. Hann er kvæntur íslenzkri konu, Hallveigu Jónsdóttur, og gengu þau í hjónaband 1. maí 1943. Umsækjandi hefur dvalið í Reykjavík, þegar hann hefur verið hér á landi, en hefur annars verið í siglingum þess á milli. Á árunum 1946-'49 var hann í siglingum við Ameríku á amerískum skipum, og var fjölskyldan því lengst af því tímabili búsett í New York. Síðan í maí 1949 hefur fjölskyldan veríð í Reykjavík að undanskildum nokkrum mánuðum, sem hún dvaldi í Noregi árið 1950, en umsækjandi hefur að verulegu leyti haft atvinnu sína á erlendum skipum og því verið fjarverandi um lengri og skemmri tíma. Umsókn þessari fylgja vottorð fjögurra valinkunnra manna um, að þeir hafi fylgzt með hegðun hans og telji ekkert athugavert við hana. Frammi liggur líka með umsókninni vottorð frá dómsmrn. þess efnis, að samkvæmt heimild í lögum nr. 100/1952 hafi kona umsækjanda, sem er íslenzk, eins og ég gat um áður, öðlazt staðfestingu rn. á íslenzkum ríkisborgararétti hennar. Þá fylgir og vottorð sakadómarans í Reykjavík, þar sem vottað er, að umsækjandi hafi hvorki sætt ákæru né refsingu, og einnig vottorð borgarstjórans í Reykjavík, þar sem segir, að umsækjandi hafi verið skráður í manntal Reykjavíkur 1943 til í janúar 1946, er hann fór af landi brott, hann skuldi ekki bæjargjöld og hafi ekki þegið hér framfærslustyrk.

Ég mælti með því við allshn. Nd., þegar hún hafði þetta frv. til meðferðar, að n. gerði till. um, að manni þessum yrði veittur íslenzkur ríkisborgararéttur, en ekki náðist samkomulag í n. um það, þrátt fyrir það að einstakir nm. væru því hlynntir og teldu alla sanngirni mæla með því, að þessi maður öðlaðist ríkisborgararétt.

Ég á dálítið erfitt með að skilja, hvers vegna þessi maður skuli ekki eiga rétt á að öðlast borgararéttindi hér á landi, þegar þeirri reglu hefur verið fylgt bæði undanfarin ár og nú í þetta sinn, að þeir útlendingar, sem kvæntir eru íslenzkum konum og eru búnir að vera giftir þeim í þrjú ár, skuli öðlast ríkisborgararétt. En þessi maður hefur verið kvæntur íslenzkri konu í 11 ár og talið heimili sitt hér í 4–5 ár. Það er að vísu rétt, að umsækjandi hefur ekki dvalið langdvölum hér á landi upp á síðkastið, en þess er að gæta, að hann hefur haft atvinnu við siglingar, lengst af verið skipstjóri eða stýrimaður á stórum skipum, en þau sigla sem kunnugt er um heimshöfin fjarri Íslandi, og hefur hann þess vegna ekki átt þess kost að dvelja hér nema að litlu leyti, og um það mundi náttúrlega gegna sama máli, í hvaða landi sem hann hefði ríkisborgararétt, að hann gæti ekki nema að mjög litlu leyti dvalið á heimili sínu. Hins vegar ber þess að gæta, að síðan 1949 hefur hann talið heimili sitt vera hér í Reykjavík og kona hans og fjölskylda öll — hjónin eiga þrjú börn á misjöfnum aldri — hefur dvalið hér óslitið frá 1949, og þar með hafa bæði þau og hann sýnt í verki, að þau kjósa að eiga hér heimili, og eðlilegt er, að umsækjandinn vilji þá fá íslenzkan ríkisborgararétt. Ég vil einnig benda á það, að umsækjandinn hefur alltaf dvalizt hér á heimili sínu, þegar hann hefur komizt höndum undir vegna starfa síns, en það hefur, eins og ég tók fram áður, verið nokkuð sjaldgæft, að hann gæti það, vegna þess að hann hefur atvinnu við að sigla um fjarlæg höf. Ég vil einnig benda á, að ef manni þessum yrði ekki veittur íslenzkur ríkisborgararéttur; mundi hann aldrei fá tækifæri til að dvelja hér stundinni lengur, því að þá mundi hann neyðast til að halda áfram að sigla á erlendum skipum um fjarlæg heimshöf, en fengi hann hins vegar íslenzkan ríkisborgararétt, mundi honum opnast leið til að afla sér atvinnu við sitt hæfi hér á landi og ætti þess kost eftir það að dvelja oftar og ef til vill lengur hér á landi heldur en hann hefur átt kost á fram að þessu.

Ég vil að lokum geta þess, að umsækjandi er nú gersamlega slitinn út tengslum við sitt upprunalega heimaland, Noreg, og mun ekki hafa komið þangað í mörg ár. Þannig er því ástatt með hann, að hann er raunverulega heimilislaus, þó að hann eigi að heita að eiga ríkisborgararétt enn þá í Noregi. En kona hans hefur verið hér búsett í mörg ár, eins og ég gat um áður, og er þegar orðinn íslenzkur ríkisborgari. Mér finnst því öll sanngirni mæla með því, að hv. alþm. stuðli ekki beinlínis að hjónaskilnaði með því að halda þessum manni svo langt frá heimili sínu, að hann geti ekki atvinnu sinnar vegna dvalið hér nema einstöku sinnum, og vona ég mjög eindregið, að hv. þdm. sýni þessu máli skilning og styðji þessa till. mína.