13.04.1954
Neðri deild: 95. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 254 í C-deild Alþingistíðinda. (2436)

165. mál, ríkisborgararéttur

Forsrh. (Ólafur Thors):

Ég skal ekki verða langorður, herra forseti, enda hef ég ekki ástæðu til þess. Ég heyrði hæstv. forseta sameinaðs þings, næstelzta þm. að þingatölu, elztan að aldri, flytja hér sína skeleggu ræðu, sem honum var lík. Þetta er mikill ættjarðarvinur og málhreinsunarmaður. En þá hvarflaði að mér nafn elzta þm., sem heitir nú Ottesen og situr þarna og virðist ekkert skammast sín fyrir það. Einn af þeim elztu heitir Thors. Einhver er borgarstjóri, æðsti borgari þessa bæjar, hann heitir Thoroddsen; svo að maður sleppi nú smákörlum eins og venjulegum þm., sem heita Flygenring. Ætli það sé ekki mjög raunalegt, að þetta slys skyldi hafa hent þjóðernið og tunguna, að hafa á Alþingi Íslendinga slíka menn? En svolítil bót fannst mér þeim, sem hafa valið þessa gallagripi inn á Alþingi, að minnast manns, sem heitir Steingrímur Thorsteinsson, manns, sem heitir Bjarni Thorarensen, manns, sem heitir Benedikt Gröndal, og svo nokkurra höfðingja í voru þjóðfélagi, sem heita Stephensen. Þetta mætti kannske verða huggun hæstv. forseta sameinaðs þings á þeirri andvökunótt, sem hann hlýtur nú að hafa, þegar hann loksins kemst úr þessum sölum og fer að hugsa um þetta ræðuhald sitt.

Ég vil svo segja mínum góða vini, hv. 3. þm. Reykv. (BÓ), sem ég að vísu tel mjög náinn vin minn, að ég vil í þessu máli heldur eiga samfylgd með hv. 1. landsk. Þó að ég telji ekki til jafngóðrar vináttu við hann eins og við hv. 3. þm. Reykv., þá vil ég langtum heldur vera í samfylgd með hv. 1. landsk. um réttlætismál heldur en um slíkt mál sem þetta með hv. 3. þm. Reykv. Það veit ég, að hann skilur; hann þekkir mig svo vel.