13.04.1954
Neðri deild: 95. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 255 í C-deild Alþingistíðinda. (2438)

165. mál, ríkisborgararéttur

Frsm,. (Jörundur Brynjólfsson):

Hv. 1. landsk. taldi, að ég mundi hafa misskilið till. hans eða ekki lesið hana. Ég veit, hvað fyrir hv. þm. vakir. Hann telur, að því sé borgið, ef börnin skírist að einhverju leyti íslenzku heiti, þá nái það ekki lengra og ættarnafn foreldra haldi ekki áfram. Hann þarf ekki annað en kynna sér ofur lítið, hvernig farið hefur um framkvæmd nafnalaganna íslenzku. Mundi reyna minna á að halda þessu í réttu horfi, þar sem útlendingar eiga í hlut með útlendum heitum, heldur en með Íslendingana? Hann veit ofur vel, að það hefur ekki einu sinni verið farið nærri nógu vel eftir þessari löggjöf um íslenzk mannanöfn. Svo býst ég við, að það kunni að verða fleiri líkrar skoðunar og fram hefur komið hjá hv. þm, um það, að það væri ekki um að sakast, þó að niðjarnir tækju upp ættarnöfnin og héldu þeim áfram. Meira að segja þessi hv. þm. lét það í ljós áðan, að það væri eiginlega ómynd að amast við ættarnöfnum þeirra, þó að þeir hefðu þau, honum fannst það engin goðgá, það kom fram í ræðu hans áðan.

Viðvíkjandi því, sem hæstv. forsrh. sagði, hvort ég teldi ekki tiltekna menn eins góða Íslendinga og aðra, og nefndi þar til okkar fornu skáld eins og Bjarna Thorarensen, Steingrím Thorsteinsson, Gröndal, Laxdal og fleiri, þá voru það vissulega góðir þegnar. En þess ber að gæta, að á þeirri tíð, er þau nöfn eru tekin upp, var alls ekki skoðuð nein goðgá að taka upp slík heiti, því miður, og það var á þeirri tíð miklu minni hætta á, að það festi rætur hér í íslenzkunni, eins og ástatt var um samgöngur milli landa og fólksflutninga þá, borið saman við það, sem nú er orðið. Við erum nú enn meir berskjaldaðir fyrir þessu, eins og í mörgum öðrum efnum, heldur en áður var. Viðvíkjandi þessu verð ég þó að segja það, að enn skemmtilegra hefði mér þótt það, að þessir menn hefðu kennt sig að íslenzkum hætti við feður sína, en ekki tekið upp þessi erlendu heiti, og það veit ég að hæstv. forsrh. finnst líka.