31.03.1954
Efri deild: 74. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 256 í C-deild Alþingistíðinda. (2443)

189. mál, prófesorsembætti í læknadeild Háskóla Íslands

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér er lagt fram, hefur verið fyrir Alþ. tvisvar sinnum áður í nokkuð breyttri mynd, en er nú borið enn fram í þeirri von, að það geti náð fram að ganga, þó að áliðið sé orðið þingtíma. Af þeirri ýtarlegu grg., sem frv. fylgir, er óumdeilanlegt, að óviðunandi er núverandi aðstaða til kennslu í þeim greinum víð háskólann, sem frv. fjallar um, og skal ég ekki rekja það frekar. Það er á sannfærandi hátt gerð grein fyrir því í umsögn eða grg. prófessorsins í lífæra- og lífeðlisfræði.

Til viðbótar því, sem áður hefur fylgt þessu máli, er nú gert ráð fyrir, að sett verði lög um starfrækslu rannsóknarstofu í líffæra- og lífeðlisfræði við háskólann. Slík stofa hefur verið starfrækt undanfarin ár, en a. m. k. um skeið að nokkru leyti fyrir reikning prófessorsins sjálfs, og varð árangurinn um fyrirkomulag stofunnar og tekjur af henni til þess, að þetta frv. var ekki flutt eins fljótt á þessu þingi og ella hefði orðið. Nú er hins vegar búið að finna, að því er talið er, viðunandi lausn í því máli, og þykir þá rétt, að um það séu sett bein lög, til þess að ekki geti vafi leikið á, hvernig þessu skuli fyrir komið, og er þá enn brýnni ástæða en ella til þess að fá frv. samþykkt einmitt nú. Annars er ekki ætlazt til, að maðurinn taki við starfi fyrr en eftir rúm tvö ár, þ. e. 15. sept. 1956, en þá hefji hinn nýi prófessor starf sitt, en það er talið, að svo langan tíma muni taka fyrir mann að afla sér sérfræðimenntunar í þessum greinum, að ef þetta á að verða mögulegt, sé nauðsynlegt að fá lögin nú í vor.