31.03.1954
Efri deild: 74. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 257 í C-deild Alþingistíðinda. (2445)

189. mál, prófesorsembætti í læknadeild Háskóla Íslands

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Auðvitað get ég ekki meinað hv. þm. Vestm. að flytja slíka brtt., en ég mundi telja það mjög miður farið. Hér er um sérstakt vandamál að ræða. og það er, að kennslan í þeim efnum, sem þetta frv. fjallar um, virðist vera orðin og enn þá frekar verða á allra næstu árum einum manni ofvaxin, svo að brýn þörf er á að bæta úr því og gera nú þegar ráðstafanir til þess, að hæfur maður taki að sér að nema þessi fræði, þannig að hann geti tekið við kennslunni áður en langt um líður. Enn fremur þarf að setja lög um þessa rannsóknarstofnun, sem í frv. greinir og heppilegt er fyrir alla aðila, að ákveðnar reglur gildi um. Þarna er um raunveruleg vandamál varðandi kennsluna að ræða, sem ekki er ástæða til að blanda saman við annað, er mönnum kann að koma miður saman um.

Varðandi það atriði, sem hv. þm. Vestm. gat um, þá er það svo, að þó að prófessorsembætti yrði stofnað í þeirri grein, sem hann gat um, þá mundi það ekki auka kennslukrafta við háskólann og ekki leggja meiri kennsluskyldu á þann mann, sem nú gegnir kennslunni, heldur en hann hefur þegar. Hv. þm. Vestm. skýrði okkur einnig frá, að það mundi ekki verða til þess að auka kostnað, og í því felst, að þá á maðurinn ekki að fá hærri laun fyrir starf sitt en hann fær nú þegar. Það, sem um er að ræða, hlýtur því að vera annars vegar það, sem hv. þm. raunar gat um, að hann vill útvega þessum ágæta lækni vegtyllu, — og sízt skyldi ég hafa á móti því, að hann fengi titilinn prófessor, ef hann langar til. En það er ekki eingöngu um það að ræða, heldur einnig um réttarstöðu þessa manns innan háskólans, og ég sé heldur ekkert athugavert við það í raun og veru, að hann fengi þar fullkomið jafnrétti við aðra kennara í læknadeild. En þar komum við að miklu víðtækara máli. Það eru sem sagt miklu fleiri menn en þessi kennari einn, sem eru fyrst og fremst forstöðumenn ýmiss konar læknisfræðilegra stofnana og kenna við háskólann án þess að bera prófessorstitil og hafa prófessorsréttindi innan háskólans, og ég efast mjög um, að það sé frekar ástæða til þess að taka þennan mann þar út úr heldur en ýmsa aðra. Mér koma þegar í stað í hug a. m. k. tveir, ef ekki þrír læknar, sem munu gegna ámóta miklu kennslustarfi og væri þá jafnrík ástæða til þess að láta fá þessa prófessorsaðstöðu eins og þann ágæta mann, sem hv. þm. Vestm. talaði um. Þetta er einmitt atriði, sem ég hef lítillega hugleitt og mun athuga betur, áður en langt um líður, en ég er ekki reiðubúinn til þess að gera tillögu um það nú þegar, að allir þessir menn fái prófessorsréttindi fullkomin. Það er hins vegar ekki séð, að það sé ástæða til eða verjandi að taka þennan mann einan út úr. Undir öllum kringumstæðum er aðstaða þessara — ef svo má kalla — aukakennara við læknadeildina allt annars eðlis en það, hvort menn vilja bæta við nýjum kennara til þess að kenna fræðigreinar, sem nú þegar eru orðnar svo yfirgripsmiklar, að hinn gamli kennari kemst ekki einn yfir, þannig að þarf að fá til viðbótar mann, sem gerir að sínu höfuðstarfi að verða kennari. Þarna er um tvö ólík atriði að ræða, og hv. þm. mundi gera þessu máli bjarnargreiða og ekki leysa vandamál síns skjólstæðings með því að reyna að blanda því inn í þetta tiltölulega einfalda mál, sem hér liggur fyrir. Ég vildi þess vegna mælast til þess við hann, að hann léti kyrrt liggja á þessu stigi að flytja þessa brtt., en ef hv. n. óskar að taka það mál allt upp til athugunar, þá verði það gert á breiðari grundvelli en varðandi aðeins einn mann, þá verði tekið upp að athuga í heild aðstöðu allra aukakennaranna við læknadeild háskólans.