09.04.1954
Efri deild: 82. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 260 í C-deild Alþingistíðinda. (2451)

189. mál, prófesorsembætti í læknadeild Háskóla Íslands

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Mig langar til að gera fyrirspurn. Ég veit ekki hvort hægt er að svara henni núna, en sé það ekki hægt, þá vildi ég beina því til manna, sem þar eiga hlut að máli, að hún verði athuguð, þótt síðar væri.

Er ekki hægt og betra upp á vinnubrögð og fjárhagsútgjöld að sameina rannsóknarstofu háskólans, sem próf. Dungal veitir forstöðu núna, og þessa? Hefur það verið athugað? Ég held, að það sé töluvert mikið af kostnaði við þær hvora um sig, sem sé sameiginlegur og mundi hverfa og minnka um helming, ef þær væru sameinaðar.

Það mun ekki leika á tveim tungum, að það líður ekki langt þangað til við verðum að fara að skoða nánar niður í kjölinn ríkisútgjöldin yfirleitt og hvað við getum sparað, og þá er ég alveg viss um, að þarna er ein leiðin, sem hægt er að spara töluvert á, og sá sparnaður kemur fram bæði á ríkissjóði og eins á þeim, sem þurfa að nota þessar stofnanir báðar. Þetta vildi ég láta koma fram frá minni hálfu, án þess að ég sé að leggja á móti frv. Ég býst ekki við, að það sé hægt að svara þessu núna af neinum, sem hér er inni, a. m. k. ekki fullkomlega, en ég vil óska ákveðið eftir því, að þetta verði athugað af þeim, sem hlut eiga að máli.