08.10.1953
Neðri deild: 5. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 263 í C-deild Alþingistíðinda. (2462)

24. mál, hámark húsaleigu o. fl.

Flm. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja tvö frv., sem bæði snerta ástandið í húsnæðismálunum og till. til úrbóta á þeim. Þetta frv., sem hér er til umr., 24. mál þingsins á þskj. 24, fjallar einvörðungu um að reyna að bæta til bráðabirgða úr þeim sárustu vandræðum, sem nú eru. Annað frv., miklu veigameira, sem síðar mun koma hér til umr., á þskj. 26, fjallar hins vegar um tillögur um varanlegar endurbætur á þessum málum. Ég mun þess vegna í sambandi við þetta frv., sem hér liggur fyrir, einvörðungu ræða um það neyðarástand, sem nú ríkir, og hvað hægt væri að gera til þess að reyna að einhverju leyti að bæta úr því í svip. Ég vil, að það sé algerlega ljóst, að þær till., sem í þessu litla frv. felast, ná þess vegna ákaflega skammt og úr þessu verður ekki bætt, svo að varanlegt sé, nema með miklu meiri aðgerðum, eins og felst í því frv., sem ég gat um áðan á þskj. 26. Ég býst við, að flestallir hv. þm., a. m. k. þeir, sem þekkja til eða kynna sér húsnæðisástandið hér í Reykjavík og í bæjunum við sunnanverðan Faxaflóa, hljóti að vera sammála um, að það sé slíkt neyðarástand, að þannig geti ekki gengið áfram. Ég veit, að t. d. hér í Reykjavík hefur þetta verið rætt allýtarlega í bæjarstjórninni, og þó að engin rannsókn hafi þar enn þá farið fram á því, hve slæmt ástandið væri, þá upplýsti borgarstjórinn í Reykjavík á bæjarstjórnarfundi nýverið, að það hefðu hátt á annað hundrað eða 176 fjölskyldur, sem þeir vissu af, verið í húsnæðisvandræðum, um hundrað hefðu leitað aðstoðar, það hefði verið hægt að veita 58 af þeim nokkra úrlausn, sumpart máske til bráðabirgða, en 42 höfðu enga úrlausn fengið. Þessar litlu upplýsingar voru þó aðeins byggðar á því, sem einn starfsmaður bæjarins hafði getað grennslazt eftir, án þess að nákvæm heildarrannsókn á ástandinu hefði enn þá farið fram. Það er þess vegna vitað, að skipta munu hundruðum þær fjölskyldur hér í Reykjavík, sem nú eru í vandræðum, og ástandið, þar sem ásóknin hefur verið hvað mest eftir atvinnu, í stöðum eins og Njarðvík, Keflavík og öðrum slíkum, er þannig, að tiltölulega enn þá meiri skortur mun vera þar fyrir hendi. Þetta hefur allt saman leitt til þess, að ekki aðeins skortir svo og svo mikið af fólki húsnæði, heldur hefur líka verð á því húsnæði, sem til leigu er, þotið upp úr öllu valdi.

Það hefur oft af hálfu þeirra flokka, sem nú ráða hér ríkjum, verið talað um það, að þeir hafi skapað alveg sérstaklega fram úr skarandi ástand í verzlunarmálum, það sé nú einhver munur eða áður hafi gilt, framboð og eftirspurn hafi nú fengið að ríkja og njóta sín og frelsi í verzlun hafi borið alla sína blessunarríku ávexti. En sannleikurinn er, að á því sviði, þar sem fólki ríður hvað mest á að sé virkilegt frelsi um þessi mál, hafa verið sköpuð þau harðvítugustu höft, sem þekkzt hafa á Íslandi, á þeim sviðum hvað húsnæðismálin snertir. Afleiðingin af þeim höftum er, að núna ríkir slíkur svartimarkaður í húsnæði hér í Reykjavík og í bæjunum hér við Faxaflóa, þ. e. yfirleitt í þeim bæjum, sem ríkisstjórnin og stjórnarstefnan er ekki alveg að drepa, þannig að fólkið flýr þaðan, þar ríkir slíkur svartur markaður, að hann hefur aldrei þekkzt neitt svipaður á húsnæði í Reykjavík. Hafi nokkurn tíma verið til svartamarkaðsstjórn á Íslandi, þá er það stj. þeirra flokka, sem núna ráða og ráða þeirri stefnu, sem ber sína ávexti í húsnæðismálunum. Árangurinn af því, hve harðvítug höft hafa verið á byggingum undanfarin ár og hvernig stjórnarflokkarnir hafa fellt niður alla aðstoð við bæina til þess að útrýma heilsuspillandi íbúðum, hefur orðið sá, að það ríkir kolsvartur markaður og neyð í húsnæðismálunum hér í Reykjavík og fleiri þeim bæjum, þar sem sæmileg atvinna er. Þetta hefur gengið það langt, að meira að segja allar skorður, sem að einhverju leyti voru áður reistar við svartamarkaði og húsnæðisvandræðum, hafa beinlínis verið afnumdar af þessum stjórnarflokkum. Húsaleigulögin hafa verið afnumin. Þau voru vissulega gölluð, það mælti enginn því mót. Það var margt gallað í þeim. En það var þó viss vernd í þeim húsaleigulögum. Og það var annað, sem átti alltaf að vera samferða þessum húsaleigulögum, ef þau væru afnumin, það voru höftin á byggingunum. Það var bent á það af hálfu Sósfl., þegar verið var að afnema húsaleigulögin hér í þinginu, að það næði ekki nokkurri átt að afnema þau lög, svo framarlega sem þau ákvæði héldust í lögum, að mönnum væri bannað að byggja yfir sig, að menn hefðu ekki fullt frelsi til þess að byggja yfir sig.

Þegar húsaleigulögin voru sett upphaflega, voru þau sett á þeirri siðferðislegu forsendu, að það væri ekki hægt fyrir menn að byggja og vegna þess að ekki væri hægt fyrir menn að byggja, þá væri ekki heldur rétt að leyfa að kasta mönnum út úr íbúðum. Síðan líður rúmur áratugur. Þá eru húsaleigulögin afnumin. En mönnum er ekki veitt frelsi til þess að byggja yfir sig. Höftunum á byggingunum er haldið áfram. Þar með skapast það ástand í þjóðfélaginu, að það er hægt að henda manni út úr íbúð, án þess að hann hafi einu sinni haft rétt til þess af þjóðfélagsins hálfu að reyna að byggja yfir sig. Sem sé: það er hægt að neita mönnum um einföldustu og sjálfsögðustu mannréttindi. Árangurinn af þessu er sá, að þar sem með þessari pólitík ríkisstj. er skapaður skortur á húsnæði, þá þýtur leigan á þeim íbúðum, sem til eru, upp úr öllu valdi, og íbúðum er jafnvel haldið óleigðum og auðum. A. m. k. var svo í september, að það voru yfir hundrað íbúðir hér í Reykjavík auðar, meðfram til þess að geta fengið sem allra hæsta leigu fyrir þær. Þetta ástand er vitaskuld alveg óþolandi, og það er ríkisstj., stjórnarflokkunum og þeirra pólitík að kenna, að til þessa ástands hefur komið. Ríkisstj. og hennar flokkar bera ábyrgð á því, að húsaleigulögin hafa verið afnumin, höftunum á byggingunum haldið áfram, þau enn þá aukin og gerð tilfinnanlegri með lánsfjárkreppunni, og afleiðingin er svo sú, að bæði neyð og svartur markaður eru orðin ríkjandi í húsnæðismálum Reykjavíkur og fleiri bæja.

Ég vil aðeins, ef mönnum er ekki alveg fullkomlega ljóst, hvernig ríkisstj. hefur takmarkað byggingarnar, minna hv. þm. á, hvernig hefur gengið til hér í Reykjavík á síðustu 7–8 árum. Á tímabili nýsköpunarstjórnarinnar, 1945, var byggð hér í Reykjavík eða fullgerð á því ári 541 íbúð. 1946 voru fullgerðar 634 íbúðir. Það ár, þ. e. síðara árið, sem nýsköpunarstjórnin sat að völdum, er líklega eina árið, þar sem nokkurn veginn hefur verið haldið í horfinu með byggingar í Reykjavík. Samt skal ég ekki úr því draga, að vissulega hefði þurft að gera meira af skipulögðum byggingarframkvæmdum heldur en þá var gert. En það sýndi sig þó, að með því að veita mönnum sæmilegt frelsi til þess að byggja, þá komust menn mjög nærri því að byggja þannig, að Reykvíkingar hefðu undan að bæta úr sárustu húsnæðisvandræðunum. Strax eftir það ár, eftir að Marshallstefnan og Marshallflokkarnir taka hér við völdum, fer að síga á ógæfuhliðina. 1947 eru fullgerðar 468 íbúðir í Reykjavík, 1948 491, 1949 366, 1950 410, 1951 284, 1952 329. Þá er það komið niður í helminginn af því, sem var á nýsköpunarárunum. Og þetta er skipulagður skortur, sem þarna. er skapaður. Það eru sjálf stjórnarvöldin, sem setja sérstaka nefnd til þess að skipuleggja þessi vandræði, til þess að hindra menn í því að byggja, til þess að banna mönnum að byggja. Og sú stjórnarstefna, sem þessu veldur, lýkur svo með því að afnema húsaleigulögin um leið.

Það er þess vegna engum efa bundið, að það vandræðaástand, sem nú er skapað, er beinlínis fyrir tilverknað þeirra stjórnarflokka, sem ráðið hafa undanfarið. Ég býst ekki við, að þeir stjórnarflokkar muni reyna að bera af sér, að þetta hafi verið þeirra stefna. Þeir byrjuðu, þegar þeir tóku við völdum, strax með því að eyðileggja lögin um útrýmingu heilsuspillandi íbúða, þau lög, sem nýsköpunarstjórnin hafði sett, þau lög, sem bæirnir raunverulega fyrst og fremst hlutu að byggja á, svo framarlega sem þeir ættu að geta útrýmt því ægilega ástandi, sem var í húsnæðismálunum víða. Síðan hefur hæstv. ríkisstj. gert þetta ástand enn þá verra með því að kalla hér inn í landið erlendan óþjóðalýð, sem Íslendingar nú þegar verða að þola þungar búsifjar af, og nú upp á síðkastið kemur það alveg greinilega fram, að Ameríkanarnir, sem hér dveljast, eiga ekki hvað sízt þátt í því að sprengja upp úr öllu valdi húsnæðið hér í Reykjavík og annars staðar og gera Íslendingum ókleift að búa í eigin íbúðum. Það er vitað mál, að það þarf ekki nema að líta í Morgunblaðið, aðalmálgagn ríkisstj., til þess að sjá, hvernig Ameríkanarnir, sem skoða sig sem herraþjóð hér í landinu, krefjast þess daglega í krafti peningavaldsins að fá íbúðir, sem íslenzkar fjölskyldur þurfa á að halda, og hvernig Morgunblaðið kemur fyrirskipunum þessarar herraþjóðar fram með því að auglýsa, að þeir óski eftir íbúðum, og svo sýnir það sig, þegar farið er að reyna að ná í íbúðir, að eðlilega eru Ameríkanarnir þar hlutskarpastir. Þeir fyrirskipuðu stjórnarflokkunum að lækka gengi íslenzku krónunnar, til þess að þeirra dollar skyldi verða þrefaldur á við íslenzka krónu á móts við það, sem hann áður var, og eftir að hafa þannig fyrirskipað Íslendingum, hvaða gildi skyldi skráð á þeirra dollar, og hækkað hann þannig í verði, þá standa þeir eðlilega tiltölulega miklu betur að vígi heldur en Íslendingar, sem verða að búa við einn þriðjung upp í helming þeirra launa, sem Ameríkanarnir hafa suður á Keflavíkurflugvelli, til þess að ná húsnæði af Íslendingum, meðan það eru peningarnir einir, sem gilda. Það var sagt nýlega í Alþýðublaðinu frá konu, sem hafði verið að reyna að ná saman fé til þess að borga 25 þús. kr. fyrir húsnæði í fyrirframgreiðslu. Þegar hún hafði komið með peningana, verið búin að fá hjá sínu frændfólki að lokum þessa upphæð, þá hafði verið kominn einn Ameríkani í spilið, einn af þessum herrum, sem Alþfl., Sjálfstfl. og Framsfl. hafa boðið hingað inn í landið, með 65 þús. kr. til þess að leggja á borðið. Svona er farið að því að bola Íslendingum út úr því húsnæði, sem til er, og tryggja það fyrir herraþjóðina. Þó munu vera enn þá meiri brögð að þessu suður í Njarðvík og Keflavík heldur en hér í Reykjavík, og mun það samt vera nægilega slæmt hér í Reykjavík.

Nú er það vitanlegt, að allt þetta framferði Ameríkananna er lögbrot. Þeir hafa engan rétt til þess að fá leigt, hvorki hér í Reykjavík, Njarðvík, Keflavík né annars staðar. Það eru alger lögbrot, hvar sem þeir, starfsmennirnir á Keflavíkurflugvelli eða hermennirnir eða aðrir slíkir Ameríkumenn, hafa húsnæði á leigu hér í Reykjavík. Með lögunum um hámark húsaleigu frá 4. febr. 1952, 4. gr. þar í, er öllum utanhéraðsmönnum gert óheimilt að flytja í hús, óheimilt fyrir leigusala að leigja öðrum en heimilisföstum innanhéraðsmönnum íbúðarhúsnæði, en það er bara með þessi lög eins og annað, þar sem Ameríkanarnir eiga hlut að máli, að íslenzk lög eru ekki látin gilda, þegar þeir eiga í hlut.

Það, sem þess vegna er aðalatriðið í þessu litla frv., sem ég hér flyt, er að fyrirskipa, að lög frá 1952 skuli látin koma í gildi. Það virðist ekki farið fram á mikið. En mér sýnist, að til þessa sé full ástæða. Aðalatriði þessarar einu greinar, sem efni frv. felst fyrst og fremst í, er í fyrsta lagi, að bæjar- og sveitarstjórnir skuli láta fara fram rannsókn á tveim atriðum, þ. e. hvaða húsnæði í viðkomandi bæ, ef þar er húsnæðisskortur, kaupstað eða kauptúni, sé ónotað, en nothæft, og í öðru lagi, hvaða húsnæði sé leigt amerískum hermönnum eða útlendingum, sem starfa í þjónustu hersins eða við framkvæmdir vegna hersins.

Það hefur gengið erfiðlega að fá það fram, að svona rannsókn yrði gerð. Það er enginn efi á því, að það er hægt að gera svona rannsókn á mjög skömmum tíma og það er nauðsynlegt að gera svona rannsókn. Ég álít, að ríkisvaldinu sjálfu, sem ber höfuðábyrgðina á því neyðarástandi, sem nú ríkir, beri að fyrirskipa, að slík rannsókn fari fram, og sjá um, að það sé gert. Hér er í þessari 1. gr. settur tveggja vikna frestur til þess að ljúka þeirri rannsókn, eftir að n. hafi verið kosin af viðkomandi bæjar- og sveitarstjórn til þess.

Hvað snertir það ónotaða, en nothæfa húsnæði, þá býst ég við, að það sé mál, sem varla þarf að ræða mikið um. Það mun öllum finnast eðlilegt, að slíkt húsnæði sé tekið til notkunar, þegar neyðarástand er. Sumir munu máske segja, að það sé allmikil skerðing á persónufrelsi fólks að geta ekki fengið að leigja sitt íbúðarhúsnæði sjálft, en sannleikurinn er, að öllum þeim, sem af því vita, að svona lög séu í undirbúningi og séu að komast í framkvæmd, er hægur vandi, ef þeir eru með óleigðar íbúðir, að ráðstafa þeim þá undireins, þannig að húsnæðislaust fólk geti fengið þar inni, það ráði því sjálft og það komi ekki til þess, að það þurfi að taka slíkt leigunámi.

Hvað snertir hins vegar Ameríkanana, þar sem þeir eru í húsnæði, þá er auðséð, að Alþ. þarf þarna að grípa í taumana. Það er auðséð, að bæjar- og sveitarstjórnir, hvort heldur það er í Njarðvíkunum, Keflavík eða Reykjavík, af hvaða ástæðu sem það er, treysta sér nú ekki til þess að eiga við þetta sjálfar. Það er að vísu heimilt að beita ákvæðum gagnvart utanhéraðsmönnum almennt, en það hefur ekki verið gert um mörg ár, og það hefur vafalaust sumpart verið látið niður falla vegna þess, að það eru ákaflega tvísýn fyrirmæli að ætla sér að hindra flutning fólks til eins byggðarlags með því að banna að leigja utanhéraðsmönnum eða banna þeim að kaupa hús. Það er eðlilegt, að það sé litið svo á, að slíkum lagafyrirmælum sé ekki beitt nema í alveg ýtrustu nauðsyn. Og til þessarar eðlilegu tilfinningar, sem hefur valdið því, að bæjar- og sveitarstjórnir hafa ekki farið hart í að framkvæma þennan lagabókstaf, tek ég það tillit, að áður en farið væri að framkvæma að ýmsu leyti allhörð lög, þá álít ég, að það eigi að láta amerísku hermennina og starfsmennina víkja, það sé eðlilegt og sjálfsagt af öllum ástæðum, að af öllum utanhéraðsmönnum séu þeir fyrst látnir víkja. Það er vitanlegt, að þessi herraþjóð hefur haft leyfi til þess að byggja hér á Íslandi. Hún hefur haft fullt frelsi. Hún hefur ekki þurft að spyrja neinn. Á sama tíma sem Íslendingar hafa verið fjötraðir og þeim bannað að byggja yfir sig, sem dönsk einokun aldrei bannaði þeim, meðan hún réð þessu landi, þá hefur Ameríkönunum verið gefið fullt frelsi til þess að byggja hús, byggja heilar húsaraðir, sem væru, ef þær væru notaðar þannig, alveg ágæt íbúðarhús. Og þeir hafa þess vegna enga afsökun. Það er engin afsökun til fyrir því, hvort sem menn annars eru með eða móti hernámssamningnum, að Ameríkanarnir, sem hafa haft nægilegt fé, nægilegt íslenzkt vinnuafl, nægilegt efni og einir ekkert fjárhagsráð þurft að spyrja um leyfi, skuli ekki hafa haft yfirdrifið húsnæði handa sér og sínum. Þeim er engin vorkunn. Og það er sú taumlausasta frekja, sem hægt er að hugsa sér, þegar liðsforingjar og yfirmenn og aðrir slíkir Ameríkanar sunnan af Keflavíkurflugvelli leigja sér fyrir of fjár íbúðir hér í Reykjavík bara til þess að geta sjálfir verið hér um helgar og bægja fátækum íslenzkum fjölskyldum frá því að geta komizt í sómasamlegt húsnæði.

Það má sjá af þessu, að þetta frv. fjallar aðeins um bráðabirgðaframkvæmdir, sem nú tafarlaust yrði að gera. Ég álít, að þær till., sem í þessu frv. felast, séu til l., sem ættu raunverulega að ná fram að ganga nú þegar og vera framkvæmdar í þessum mánuði, og að það sé ekki seinna vænna að gera þessar ráðstafanir, og það er einmitt þess vegna ekki farið þarna lengra í en það, sem ég álit að væri allra eðlilegast og sjálfsagðast. Hitt aftur á móti, hvað snertir varanlegar úrbætur, mun ég ræða, þegar kemur að því frv. Ég vil aðeins taka fram, að ég geri mér auðvitað ljóst, að með þessu litla frv. mínu hér væri ekki bætt nema úr ofur litlu af þeirri neyð, sem hér ríkir, rétt í svipinn til þess að hjálpa þeim, sem allra bágast eiga og bókstaflega að heita má standa á götunni nú eða hafa fengið að dveljast nokkra daga eða eina eða tvær vikur fram yfir í þeim íbúðum, sem þeir eru í. Ég vildi þess vegna leyfa mér að vona, að hv. þm. taki þessu litla frv. vel, hvernig sem kann svo að fara um það stærra, þegar þar að kemur, og vil gera það að minni till., að því sé vísað nú að lokinni þessari umr. til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn. og vildi svo mælast til þess við þá hv. n., að hún afgreiddi þetta mál sem allra fyrst, vegna þess að raunverulega hefur þetta mál ekkert gildi nema því aðeins að látið sé rætast fljótt það, sem í því er, og gripið sé til þeirra úrræða nú þegar, sem þar er á bent.