09.10.1953
Neðri deild: 6. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 270 í C-deild Alþingistíðinda. (2468)

26. mál, íbúðarhúsabyggingar í kaupstöðum og kauptúnum

Flm. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Þetta frv., sem ég flyt hér, er raunverulega allmikil breyt. á þeim l., sem nú eru um opinbera aðstoð við byggingar íbúðarhúsa í kaupstöðum og kauptúnum. Skal ég reyna að gera nokkra grein fyrir þessu frv.

Ég hafði í gær í sambandi við lítið frv., sem þá lá fyrir, um bráðabirgðaúrlausn í mestu vandamálunum, sem nú liggja fyrir í sambandi við húsnæðismálin, gert nokkra grein fyrir því neyðarástandi, sem ríkti í húsnæðismálunum hér í Reykjavík og bæjunum við sunnanverðan Faxaflóa alveg sérstaklega, en raunar víðar, en í þessu frv. og í sambandi við það vil ég nú fyrst snúa mér að þeim almennu réttindum, sem leitazt er við að slá föstum í 1. gr.

Hingað til held ég það hafi verið álitinn nokkurn veginn eins sjálfsagður réttur manna að geta fengið að byggja yfir sig íbúðarhús ef þeir væru þess megnugir — eins og að lifa. Og það virðist raunverulega einkennilegt, að það skuli þurfa að fara að slá því föstu í íslenzkum lögum, að menn hafi rétt til þess að byggja þak yfir höfuðið. Það er raunar ekki fyrr en á allra síðustu árum, sem það gerist virkilega nauðsynlegt að fara að setja fram till. um að setja þennan rétt inn í lög. Allan þann tíma, sem okkar land hefur verið byggt, hefur þetta verið álitið sjálfsagt, Það hefur verið álitið sjálfsagt, að ef einn maður gæti, þá mætti hann byggja yfir sig. Það hefur verið álitið sjálfsagt eins og að draga andann, og það hefur meira að segja verið gengið út frá þessu í löggjöf hér á Alþingi. Öll sú húsaleigulöggjöf, sem sett var bæði í styrjöldinni 1914–18 og í síðari heimsstyrjöldinni, hefur gengið út frá því, að þegar slíkt ástand skapaðist, að sakir ytri aðstæðna væri ekki mögulegt fyrir menn að byggja, t. d. af því, að þeir gætu ekki fengið byggingarefni flutt til landsins, þá væri eðlilegt að svipta húseigendur réttinum til þess að geta ráðstafað sínum íbúðum í sínum húsum, og forsendan auðvitað fyrir þessu öllu saman hefur verið sú, að löggjafarvaldið hefur alla tíma álitið, að það væri alveg sjálfsögð krafa hvers manns, að hann annaðhvort hefði íbúð yfir sig eða hefði rétt til þess að byggja íbúð yfir sig, ef hann væri þess megnugur. Og þegar þannig neyðarástand hefur skapazt hjá þjóðinni, að þjóðfélagið hefur ekki getað látið mönnum í té byggingarefni, hefur þess vegna þótt rétt að svipta þá, sem áttu húsnæði, þeim algeru völdum, sem þeir annars höfðu yfir því, til þess að tryggja þeim, sem byggju í leiguhúsnæði, rétt til þess að búa þar áfram. Öll sú umbótalöggjöf, sem sett hefur verið, allt frá því að l. um verkamannabústaðina voru sett, hefur gengið út frá þessari sömu hugmynd að ríkinu, þjóðfélaginu í heild, bæri að aðstoða einstaklingana til þess að koma sér þaki yfir höfuðið. Hins vegar, þegar húsaleigulögin voru afnumin, þá bregður svo einkennilega við, að þessi réttur manna er traðkaður undir fótum, það er ekki lengur raunverulega viðurkennt með löggjöfinni, að hver maður hafi rétt á því að sitja annaðhvort í því húsnæði, sem hann er fyrir í, eða þá frelsi til þess að mega byggja yfir sig, ef hann getur. Þessi réttur hefur nú á undanförnum þingum hvað eftir annað verið traðkaður undir fótum, þannig að eftir að húsaleigulögin eru afnumin og Sósfl. flytur hér frv. hvað eftir annað, á hverju einasta þingi, um að gefa byggingu íbúðarhúsa frjálsa, þá eru þessi frv. felld og bygging íbúðarhúsa ekki gefin frjáls. Meira að segja þegar frv. um að gefa íbúðarhúsabyggingu frjálsa fara hér í gegnum Nd., þá eru þau stöðvuð með erlendu valdboði í Ed.

Ég álít þess vegna, að það sé nauðsynlegt í löggjöf, sem fjalli um opinbera aðstoð við byggingu íbúðarhúsa, að byrja á því að taka fram rétt manna til þess að mega byggja sér þak yfir höfuðið, og út á það gengur 1. gr., að slá því föstu, að hver íslenzkur ríkisborgari, sem eigi ekki sjálfur íbúð, sem sé hæf til íbúðar, eigi rétt á því að byggja sér íbúðarhús með einni íbúð eða stærra hús, ef hann byggir með öðrum. Og ég verð að segja, að það er hálfljótt dæmi um, hvers konar ástand er að skapast hér í þjóðfélaginu, að það skuli vera nauðsynlegt að koma með svona ákvæði í lagafrv. á Íslandi. Þegar bæirnir voru að byrja að byggjast hér á Íslandi, var það ekki aðeins, að menn hefðu rétt til þess að byggja yfir sig, mönnum voru meira að segja mældar út lóðir og það ókeypis. Það var reynt að hvetja menn til þess að byggja í bæjunum og jafnvel rækta bletti í kringum húsin sin, og til þess voru þeim útmældar lóðirnar, sem þeir fengu til eignar. Nú er þetta þannig, að menn eru settir í tugthús, eða það vofir yfir, ef þeir reyna að bjarga sér með því að byggja yfir sig. Ég vil þess vegna vona, að þó að mönnum virðist undarleg þessi 1. málsgr. í 1. gr. hjá mér, þá skilji menn, að því miður er orðin ástæða til þess að koma fram með svona hluti í íslenzkum lögum.

Í 2. málsgr. hins vegar fer ég fram á, að ekki aðeins þeir, sem eiga ekki neina íbúð, heldur allir íslenzkir ríkisborgarar hafi rétt til þess að byggja íbúðarhús, en bind það þó við það, að innflutningur byggingarefnis sé frjáls. Ég meina þar með, að svo framarlega sem innflutningur byggingarefnis til Íslands sé takmarkaður, þá sé rétt, að þeir séu látnir sitja fyrir þeim innflutningi, sem sjálfir eiga ekki íbúðir, en vilja reyna að byggja yfir sig, hvort sem þeir gera það sem einstaklingar með samtökum eða þeirra bæjarfélög eða annað slíkt. Sé hins vegar innflutningur á byggingarefni frjáls, þá á öllum að vera frjálst að byggja, þá á hvort heldur er framtak fjöldans eða einstaklinga að fá fyllilega að njóta sin. Manni virðist eiginlega, að það ætti ekki að vera erfitt að fá þess háttar hluti fram hjá ríkisstj., sem annars vegar kennir sig alveg sérstaklega við samvinnustefnuna og hins vegar sérstaklega við frjálst framtak einstaklingsins. En það er eins og hvort tveggja, bæði það frjálsa framtak einstaklinga og samvinnuframtakið, eigi við ákaflega þröngar skorður að búa hjá þeim hv. stjórnarflokkum. Ég hef þess vegna leyft mér að leggja þarna til, að öllum íslenzkum ríkisborgurum sé leyfilegt að byggja, svo framarlega sem innflutningur á byggingarefni sé frjáls, og — svo að ég minnist á það um leið — í 46. gr. þessa frv., VI. kaflanum, er mælt svo fyrir, að innflutningur á byggingarefni skuli vera frjáls, svo fremi að innflutningur á nokkurri vöru sé frjáls, m. ö. o., að byggingarefni skuli vera sett með þeim brýnu nauðsynjavörum, sem menn þurfa til matar, og það skuli vera sama frelsi til þess að byggja yfir sig eins og t. d. að flytja inn það, sem menn þurfa að borða.

Ég býst við, að fæstir muni neita því, að Íslendingar muni þurfa á því að halda eins brýnt að flytja inn byggingarefni til þess að byggja yfir sig eins og mat. Til allrar hamingju framleiðum við þó allmikið af mat sjálfir, fullnægjum allmiklu af þörfum okkar til matar með eigin framleiðslu, en aftur á móti lítið af byggingarefni enn sem komið er, þó að vonandi verði bráðum bætt úr því, og þess vegna er ekki nema eðlilegt, að þetta tvennt sé sett í sama flokk.

Þá munu menn máske spyrja: En eru nú gjaldeyrislegir möguleikar á því að flytja inn byggingarefni? Er ekki bara vitleysa að vera að tala um það að vera að flytja inn byggingarefni alveg frjálst? Er það ekki út í loftið, vegna þess að möguleikar okkar til framleiðslu á vörum til útflutnings eru svo litlir? — Við skulum rétt athuga það. Nú nýlega var gerður samningur við Sovétríkin um innflutning á 50 þús. tonnum af sementi. Það mun vera með mesta magni, sem við höfum flutt inn á einu ári af sementi. Að vísu mun það sement eiga að notast í fleira en íbúðarhúsabyggingar, en mér reiknast svo til, að helmingurinn af þessu sementi, 25 þús. tonn, mundi nægja í um 1200 íbúðir, miðað við 4 herbergja íbúðir svipaðar þeim, sem eru í verkamannabústöðunum. Er nú ákaflega erfitt fyrir okkur gjaldeyrislega að flytja inn 50 þús. tonn af sementi, sem, ef það væri allt saman notað til íbúðarhúsabygginga, mundi þýða, að við gætum byggt yfir 2000 íbúðir á ári. 2400 jafnvel, en eins og ég tók fram, getum við ekki notað allt sementið í íbúðarhúsabyggingar? Ég hef að vísu ekki fengið nákvæmar upplýsingar um verðið á þessu sementi, en ekki mun vera fjarri því, að það kosti hingað komið kringum 20 millj. kr. Af þeim fiski, sem við flytjum út, — við skulum segja freðfiskinum, — á því verði, sem ég býst við hann sé seldur út úr landinu núna, t. d. í þessum viðskiptasamningum, sem ég nefndi, mun það þýða rúm 3000 tonn af freðfiski, þ. e., fyrir um 3000 tonn af freðfiski, líklega 31/4 þúsund, ættum við að geta fengið um 50 þús. tonn af sementi. Ég verð nú að segja, að þegar við höfum hæglega getað framleitt undanfarið 35 þús. tonn og flutt út af freðfiski og getum, eins og ég hef hvað eftir annað sýnt hér fram á, svo framarlega sem okkar framleiðslugeta, ekki sízt okkar togara, er notuð, leikið okkur að því að framleiða 50–60 þús. tonn af freðfiski, — og markaði er hægt að skapa fyrir það allt saman, — þá er leikur einn að flytja inn 50 þús. tonn af sementi og þó að það væri miklu meira. Þetta er þó eitt grundvallarbyggingarefnið, sem við þurfum. Ég efast ekki um, að með skynsamlegri hagnýtingu þeirra framleiðslutækja, sem við nú höfum, svo að ég tali ekki um, ef haldið er áfram að bæta við þau, er leikur einn að flytja inn yfirdrifið af byggingarefni til þess að byggja yfir Íslendinga og til þess að útrýma algerlega því neyðarástandi, sem núna ríkir í okkar húsnæðismálum.

Ég álít þess vegna og byggi á því í þessu frv., að innflutningur byggingarefnis eigi að vera frjáls, algerlega frjáls, og ég get ekki séð neina skynsamlega ástæðu fyrir því að neita um að hafa byggingarefni frjálst og leyfa byggingar frjálsar á Íslandi. Við höfum verið að byggja upp okkar land, það sem af er þessari öld. Við þurfum að halda því áfram. Okkar feður tóku við þessu landi um aldamótin svo að segja húsalausu hvað snertir varanleg hús. Það hefur verið byggt mikið, það sem af er, en við þurfum líka á því að halda að byggja mikið. Okkar þjóð hefur verið framúrskarandi dugleg við að byggja. Það eina, sem hefur heft hana, eru böndin, sem ríkisstj. hefur lagt á hana. Það væri búið að útrýma húsnæðisleysinu hér á Íslandi með framtaki einstaklinga og samtökum manna, svo framarlega sem þau höft hefðu ekki verið sett á, sem skellt var á 1947, enda var auðséð, hvernig byggingarnar byrjuðu þá að minnka, t. d. hér í Reykjavík, þannig að þær hafa komizt 1952 niður í helminginn af því magni, sem byggt var 1946. Ég held þess vegna, að það, sem hér er sett fram í þessari 1. gr. um rétt manna til þess að byggja, sé í fullu samræmi við okkar afkastagetu til að framleiða vörur, sem við flytjum út úr landinu, og við okkar möguleika til þess að kaupa byggingarefni til þess að flytja inn í landið.

Ég veit ekki, hvað hefur gengið hæstv. stjórnarflokkum til að hafa beitt svona harðvítugum aðferðum til þess að hindra menn í því að byggja. en ég vil vekja eftirtekt á því, að á sama tíma og húsnæðisástandið hefur farið versnandi fyrir Íslendinga, hafa Ameríkanarnir fengið að byggja suður á Keflavíkurflugvelli. Þar er verið að byggja húsaraðir, sem í gætu verið 500 íbúðir, á sama tíma sem takmarkað hefur verið við menn þannig, að það er komið niður í milli 200 og 300 íbúðir, sem byggt er hér í Reykjavík. Ég álít þess vegna, að þessi réttur, sem hér er settur fram í 1. gr., sé réttur, sem nú verði að slá föstum með lögum og verði að halda við og verði að berjast fyrir.

Ég mun láta þetta nægja viðvíkjandi því prinsipiala í þessum málum og ræða nú eins stuttlega og ég get um kaflana sjálfa, sem hér eru.

Strax með I. kaflanum er snúið að því að taka upp að nokkru leyti þau lög, sem fyrir eru um aðstoð þess opinbera í þessum efnum. Það er vitanlegt að þau hafa ekki öll saman verið gæfurík, afskipti þess opinbera af þessum málum. Fyrstu afskiptin voru þau að banna kjallaraíbúðirnar. Það eru nú komin 24 ár síðan kjallaraíbúðir voru bannaðar hér í Reykjavík. Lögin eru í gildi, það vantar ekki, bókstafurinn stendur. 1928 voru 800 kjallaraíbúðir hér í Reykjavík, og þar með voru þær bannaðar með lögum. Þær eru núna tæp 2000. Lögin hafa aldrei nokkurn tíma verið framkvæmd. Það hefur verið gengið harðar í að framkvæma þau lög, sem banna mönnum að byggja, heldur en þau lög, sem áttu að útrýma heilsuspillandi íbúðum.

Varðandi þennan I. kafla, um verkamannabústaðina, þá er þar tekinn upp svo að segja óbreyttur sá lagakafli, sem hefur verið í gildi nú síðustu 20 árin, eins og hann var felldur inn í heildarlöggjöfina um opinbera aðstoð við byggingar íbúðarhúsa 1946. Þó voru gerðar á honum tvær breyt., og á það skal ég stuttlega minnast.

Önnur er í 4. gr. Það hefur verið svo á undanförnum árum, að það, sem hefzt hefur staðið byggingu verkamannabústaða fyrir þrifum, er fjarskortur. Það er lagt til í 4. gr., 3. undirlið, að bæta nokkuð úr þessu. Þar stendur: „Ríkissjóður leggur árlega í sjóðinn (þ. e. byggingarsjóðinn) helminginn af tekjuafgangi ríkisins af einkasölu á tóbaki.“ — Þegar einkasalan á tóbaki var sett 1931, var ákveðið, að helmingurinn af tekjum tóbakseinkasölunnar skyldi renna til verkamannabústaðanna, hinn helmingurinn til þess að bæta úr húsnæðisástandinu í sveitunum. Þetta er ákaflega oft tíðkað, þegar verið er að leggja nýjar álögur á almenning, þá er tilgangurinn með þessum álögum gerður ákaflega fallegur. Það er rétt eins og þegar söluskatturinn, sællar minningar, var lagður á. Hann var til þess að berjast móti dýrtíðinni og til þess að borga halla á fiskábyrgðinni. Þegar tóbakseinkasalan var sett á, þá áttu sem sé tekjur af henni að renna til þess að bæta úr húsnæðisskortinum. En það leið ekki á löngu, eftir að lögin um tóbakseinkasölu voru sett, þangað til þessum tilgangi var svipt burt með álagningu einkasölunnar. Og verkamannabústaðina og þeirra byggingarsjóð hefur síðan lengst af skort fé til þess að byggja fyrir. Svo framarlega sem þessi till. væri samþ., þá mundi það þýða, að helmingurinn af tekjuafgangi ríkisins af tóbakseinkasölunni rynni nú til byggingarsjóðs verkamannabústaðanna. Það mundi vera 14–15 milljónir kr., og það mundi vera stórkostleg bót fyrir verkamannabústaðina. Það mundi gerbreyta allri aðstöðu byggingarsjóðanna til þess að byggja. Og það væri í samræmi við þann upphaflega tilgang, sem fyrir 20 árum var yfirlýstur og samþykktur af hálfu Alþingis, þegar tóbakseinkasalan var sett á.

Þá er enn fremur hjá mér í þessum kafla nokkur breyt. á 5. gr. Í l., eins og þau eru nú, er ákveðið, að það skuli einungis vera eitt byggingarfélag í hverjum kaupstað eða kauptúni, og því er að vísu haldið hér, en bætt við, að í Reykjavík megi þó vera tvö byggingarfélög verkamanna, og skuli félög þau, sem nú starfa þar, öðlast viðurkenningu og njóta réttinda samkv. lögum þessum. Þessi brtt. er gerð til þess að bæta úr ranglæti, sem gert var fyrir 14 árum. Byggingarfélag alþýðu, sem hóf starfsemi verkamanna að því að byggja yfir sig samkv. 1. um verkamannabústaði og byggði verkamannabústaðina gömlu í vesturbænum, var svipt rétti til þess að starfa áfram með brbl., sem gefin voru út af þjóðstjórninni 1939, og annað félag var sett á laggirnar, sem fann velþóknun fyrir augliti stjórnarflokkanna.

Það var raunar félmrh. þáverandi, Stefán Jóh. Stefánsson, sem fannst svona mikið liggja á að svipta gamla Byggingarfélag alþýðu þessum rétti. Ég álit, að það geti ekki verið nema til góðs, að þetta gamla byggingarfélag fái að starfa frjálst áfram að því að byggja yfir verkamenn. Ég get ekki séð nokkuð, sem geti verið á móti því. Ég veit, að þegar þessi brbl. voru sett á sínum tíma og staðfest á Alþingi árið eftir, þá var það með mikilli ólund af hálfu margra þm., sem fylgdu þáverandi þjóðstjórn, svo kallaðri, að þessi l. voru staðfest. Ég held, að það sé tími til þess kominn, að Alþingi bæti úr þessum rangindum og leyfi báðum þeim byggingarfélögum verkamanna, sem nú eru til í Reykjavík, að starfa.

Að öðru leyti eru ekki í kaflanum um verkamannabústaðina brtt. Ég hef yfirleitt viljað forðast að leggja fram breyt. á þeim köflum, sem gætu orðið að ásteytingarsteini. Það er ýmislegt í því, sem ef til vill hefði verið ástæða til þess að athuga betur. En ég hef þó haft það prinsip, um leið og ég hef tekið upp þennan gamla kafla, að reyna að breyta þar sem minnstu.

Í kaflanum um byggingarsamvinnufélögin hef ég engu breytt.

Þá er hins vegar III. kaflinn, um útrýmingu heilsuspillandi íbúða. Hv. þm. mun flestum kunn saga þess kafla. Það voru sett sérstök lög um þetta 1946 af nýsköpunarstjórninni, og þá var hugsað mjög hátt í þessum efnum. Í 30. gr. í þessu frv. mínu, sem er tekin upp orðrétt eftir því gamla, er rætt um, að þegar sveitarstjórnir hafi rannsakað, hve mikið sé um heilsuspillandi íbúðir, skuli gerð áætlun um útrýmingu þeirra og hve langan tíma það muni taka og stefnt að því, að þeirri útrýmingu verði lokið á 4 árum. 1946 var meiningin, að allar sveitarstjórnir á Íslandi settu sér það að reyna á 4 árum að ljúka við að útrýma heilsuspillandi íbúðum í kaupstöðum og kauptúnum á Íslandi, og það var álitið þá, að þetta mundi vera fært. Var reiknað út og lá bæði fyrir Alþingi og bæjarstjórnum, held ég, að þá, 1946, mundi þurfa t. d. hérna í Reykjavík að byggja 600 íbúðir á ári, til þess að það hefðist við að fullnægja eðlilegri þörf þeirra manna, sem bættust við í bænum, og útrýma þeim heilsuspillandi íbúðum, sem fyrir væru, og það var komið upp í það með byggingarnar 1946. Það voru byggðar yfir 600 íbúðir í Reykjavík, þótt óskipulagt væri og ýmsir gallar á því hjá okkur, eins og eðlilegt er. Það var þess vegna alveg gefið, að afkastamöguleiki Íslendinga var nægur til þess að byggja, t. d. hvað Reykjavík snerti, 600 íbúðir og meira til, svo að landsmenn gátu orkað því fyllilega. 1947, eftir kosningarnar, var þessi löggjöf hins vegar raunverulega felld úr gildi í reyndinni, þó að lögin væru ekki felld niður. Það var gert undir því yfirskini, sem oft hefur verið tíðkað við góða löggjöf, sem menn hafa verið dálítið smeykir að ráðast beint framan að, að það hefur verið frestað framkvæmd laganna. Það eru gamlar aðferðir, sem gamla þjóðstjórnin tók upp á, þegar hún var að ráða niðurlögum umbótalöggjafarinnar frá tímunum kringum 1934–37, og síðan var tekin upp af stjórninni 1947 og kom alveg sérstaklega hart niður á þeim bæjum, sem þurftu á aðstoð að halda til þess að útrýma heilsuspillandi íbúðum hjá sér. Það var þá alveg vitanlegt mál, að meira að segja ríkasti bærinn af öllum þessum. Reykjavík, mundi ekki geta unnið að þessu þannig, að öruggt væri, að það kæmi að notum, nema með þeirri aðstoð frá því opinbera, sem gert var ráð fyrir í þessum lögum um útrýmingu heilsuspillandi íbúða. Afleiðingarnar af því, að þessi lög voru þá raunverulega felld úr gildi, urðu þær, að það var fleira og fleira fólk sett inn í gömlu herbúðirnar í Reykjavík. Í staðinn fyrir að útrýma heilsuspillandi íbúðum var aukinn mannfjöldinn í heilsuspillandi íbúðum. Það þótti ægilegt 1946, að það skyldu vera 1300 manns í Reykjavík í bröggunum, gömlu herbúðunum. 1952 var þessi fjöldi kominn upp í 2400. Þetta voru afleiðingarnar af því, að lögin höfðu raunverulega verið felld úr gildi, fólkið ekki aðeins látið vera í þeim heilsuspillandi íbúðum, sem fyrir voru, heldur fleira fólki holað niður í heilsuspillandi íbúðum heldur en áður hafði verið þar. Harðast kom þetta niður á þeim, sem sízt máttu við því. Barnafjöldinn í gömlu braggaíbúðunum í Reykjavík 1946 hafði verið 511. Hann var 1950 kominn upp í 976.

Ég vil hins vegar taka fram, að ég álít, að það hefði verið hægt að útrýma þessum heilsuspillandi íbúðum á þeim fjórum árum, sem liðu frá 1946 til 1950–51, svo framarlega sem þessi löggjöf hefði verið látin vera í gildi og svo framarlega sem þessu hefði verið framfylgt. Það er auðséð, að það er hægt að byggja af fullum krafti, þegar verið er að byggja yfir ameríska hermenn suður á Keflavíkurflugvelli. Og þá eru sett öll nýtízku tæki í gang til þess að gera það. En ef á að byggja yfir íslenzk börn, þá er það bannað. Við höfum ekki aðeins á hverju einasta þingi, sósíalistar, lagt fram brtt. við bráðabirgðabreytinguna á nokkrum lögum, þ. e. til þess að reyna að fella þetta frestandi ákvæði úr gildi. Við höfum líka í hvert skipti í sambandi við meðferð fjárlaganna lagt fram till. um að veita fé á fjárl. til þess að koma lögunum þannig í gildi. Það hefur líka alltaf verið drepið. Þess vegna er svo komið, að ástandið nú er orðið verra en það hefur verið um langan tíma fyrr hjá okkur.

Ég veit, að sumir af fjármálamönnum þessarar hv. d. munu segja, að við höfum ekki peninga til þess að gera þetta. Það er ekki rétt. Það er ekki á því, sem það hefur strandað. Meira að segja einstaklingar hafa verið til í að leggja fram fé til þess að byggja hér í Reykjavík. Þeim hefur verið bannað það. Þeir hafa komizt í gegnum nálarauga fjárhagsráðs og fengið leyfi til að byggja, en þá hefur ríkisstj. grípið í taumana til þess að hindra þá í því. Svona er það viðkvæmt mál að viðhalda húsnæðisleysinu í Reykjavík, að ríkisstj. grípur í taumana, svo framarlega sem hún er hrædd um, að meira að segja fjárhagsráð hafi látið undan kröfu almennings og tilboðum einstaklinga um að byggja. Það er auðséð, að það eru aðrir hlutir, sem þarna eru að verki, hvort sem tilgangurinn er að reka byggingarverkamennina hér í Reykjavík suður á Keflavíkurflugvöll til þess að láta þá byggja yfir Kanann og banna þeim að byggja hér í Reykjavík eða hvort tilgangurinn er að reyna að skapa atvinnuleysi hérna í Reykjavík með því að hindra, að menn hefðu atvinnu við byggingar, eða hvort tilgangurinn er að koma húsaleigunni upp í það okur, sem nú er á henni, og gera þannig þeim, sem braska í húsnæðinu, mögulegt að græða sem mest. Hver sem tilgangurinn kann að vera með þessu, þá er hann jafnósvífinn, sérstaklega af hálfu þeirra manna, sem varla opna sinn munn án þess að tala um frjálst framtak einstaklingsins. En það er ekki aðeins, að margir einstaklingar muni vera reiðubúnir til að byggja, ef þeir hefðu fullt frelsi til þess. Það er heldur engin afsökun fyrir því af hálfu þess opinbera, ríkisins og bankanna, að láta ekki í té þeim einstaklingum, sem hafa ekki efni á því að byggja sjálfir, miklu meiri aðstoð til þess heldur en gert hefur verið.

Ég hef á undanförnum þingum nokkrum sinnum kastað fram þeirri spurningu, hvað lánin til íbúðarhúsa hér á Íslandi væru mikil nú sem stendur. Ég hef aldrei getað fengið neinar upplýsingar hjá hæstv. ríkisstj. um það. Brunabótamat á öllum húsum á Íslandi mun vera yfir 3000 millj. kr., og ég býst við, að þetta brunabótamat muni í allflestum tilfellum vera nærri því að vera söluverð íbúðanna, oftast nær undir því, a. m. k. hér í Reykjavík og á þeim stöðum, þar sem mest eftirspurn er eftir íbúðum. Ef íbúðarhús á Íslandi eru yfir 3000 millj. kr. virði, þá er ekki nema eðlilegt, að það sé spurt, hve mikið sé sem stendur frá lánsfjárstofnununum lánað út á þetta verðmæti. Í veðdeild Landsbankans voru lánin á síðustu reikningum 38 millj. kr. Það eru ekki nema ágizkunartölur að gizka á, hvað muni vera alls lánað út á veðrétti í íbúðarhúsum í okkar bönkum. Ég hef undanfarið gizkað á 70 millj. kr. eða einhvers staðar þar í kring og vildi mjög gjarnan fá upplýsingar um það frá þeim, sem aðstöðu hafa til þess að veita þær, hvað það raunverulega sé. Ég hef stundum verið að spyrja menn, líka menn hér í þinginu, sem að einhverju leyti þekkja til um fjármál hér, hvað hægt væri að gizka á að væri lánað út á íbúðarhús af einstaklingum og væri af slíkum veðlánum í gangi. Það er ákaflega erfitt að gizka á þetta. Það hefur verið talað um, hvort það mundi vera einhvers staðar milli 150 og 200 millj. kr., en mér þætti ekki undarlegt, þó að öll þau lán, sem til eru út á veð í íbúðarhúsum á Íslandi, færu ekki fram úr 300 millj. kr., eða 1/10 af brunabótamati íbúðarhúsanna á Íslandi. Það þýðir m. ö. o., þar sem svo að segja öll þessi hús eru byggð af núverandi kynslóð eða þeirri síðustu og flest, a. m. k. þau, sem byggð eru upp á síðkastið, það vel byggð, að þau geta vel staðið í 200–300 ár, að það er verið að knýja núverandi kynslóð til þess að borga þessi hús upp sjálf, að mestu leyti máske á 10–15 árum, og beztu lánin eru upp í 40 ár. Auðvitað væri ágætt, ef ein þjóð hefði efni á því að geta borgað svona fljótt upp. En hvernig kemur það út hjá almenningi, ef á að píska menn til þess að borga svona fljótt niður og gera mönnum annars ómögulegt að byggja? Það kemur þannig út, að þeir, sem lítil hafa efni til þess að byggja þannig, brotna saman efnahagslega undan þessari áreynslu. Það þýðir, að þeir missa íbúðirnar, sem þeir hafa verið að reyna að afla sér, og að íbúðirnar lenda smám saman í hendur nokkurra fárra, auðugra manna, sem kaupa þær upp og leigja þær síðan út seinna meir fyrir of fjár, eins og nú er að verða í Reykjavík.

Sú velmegun, sem skapaðist hjá almenningi á árunum 1942 til 1946–47 og að sumu leyti hélzt við á fyrstu árunum þar á eftir, leiddi til þess, að líklega helmingurinn af t. d. verkalýðnum í Reykjavík mun hafa reynt að eignast eigin íbúðir. Þróunin, sem hefur verið að gerast núna síðustu árin, hefur leitt til þess, að menn eru að missa slíkar íbúðir. Íbúðirnar fara að færast aftur yfir á færri hendur. Það var þróun, sem við kynntumst hérna í Reykjavík líka á árunum eftir styrjöldina, sem lauk 1918, og það er hættuleg þróun. Það er eðlilegt í einu þjóðfélagi að stuðla að því, að menn geti átt sínar íbúðir sjálfir eða þá að það séu mynduð samtök til þess, að menn geti átt slíkar íbúðir sameiginlega, eða þá að bæjarfélögin sjálf sem heildarsamtök almennings komi upp slíkum íbúðum. Það er engan veginn í þágu þjóðfélagsins, að það sé stuðlað að því að koma meira og meira af íbúðum í hendur einstakra braskara. En öll sú lánsfjárpólitík, sem rekin er í landinu, virðist miðuð við þann tilgang, og það er óhæfur tilgangur. Það ástand, sem ríkir í lánsfjármálunum viðvíkjandi húseignum hér á Íslandi. er ekki til neins staðar á Norðurlöndum, svo að ég viti til. Þar þykir mjög eðlilegt fyrir menn að geta fengið veðlán út á sín hús til mjög langs tíma og út á tiltölulega mikið af verðmæti húsanna. Og ég álít, að þarna verði að verða alger breyting á.

Ísland á þarna gífurleg verðmæti, og það er aðeins spursmál um, hvers konar lánsfjárpólitík þjóðin vill reka, hvort almenningi er gert kleift að eiga sjálfur íbúðir sínar og eignast þær. Það er bara spursmál um lánsfjárpólitík. Ég veit, að stjórnarflokkarnir hafa lagzt á móti því, að lán til íbúðarhúsabygginga væru veitt. Ég veit, að ríkisstj. hefur haft þau afskipti af lánsfjármálum að telja úr bönkunum, sem þó hafa verið mjög íhaldssamir í þessum efnum, að auka lán til íbúðarhúsabygginga, og ég hef hins vegar ekki ætlað þeirri ríkisstj., sem sat, það illt, að hún hafi gert það af sjálfsdáðum. Ég hef álitið, að þau fyrirmæli, sem fyrrv. ríkisstj. gaf og ég býst við, því miður, að núverandi ríkisstj. standi við, þar sem lagt var fyrir bankana að draga raunverulega úr lánum til íbúðarhúsabygginga, hafi verið gert samkv. samningum, sem ríkisstj. hefur gert við þá amerísku banka, Alþjóðabankann og slíka, sem ráða raunverulega okkar seðlaútgáfu og lánsfjárstarfsemi, þannig að það hafi verið eitt af þeim ákvæðum, sem hins vegar Alþ. hefur ekki fengið upplýst, í samningunum um mótvirðissjóð, að Ameríkanarnir tryggðu sér yfirráðin um það, hvernig seðlaveltan á Íslandi, seðlaútgáfan á Íslandi og lánsfjárveitan væri. Ég hef oft áður rætt þetta mál hér og hef verið fær um að leggja þar plögg á borðið, sem ekki hefur verið hægt að neita, vegna þess að þau plögg voru frá fjárhagsráði með tilvitnun í afskipti Ameríkananna af þeim málum. Það var vitanlegt, að einmitt þegar það var komið í gegnum Nd. og komið til 2. umr. í Ed. að gefa byggingu íbúðarhúsa frjálsa og um leið verið að ræða um í Sþ. að gefa frjálsan innflutning byggingarefnis, þá skarst fjárhagsráð í leikinn með bréfi, dags. 13. jan. 1951, og sagði þar í eftirfarandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Fjárhagsráði hefur skilizt, að vegna tilrauna til þess að fá að nota fé úr mótvirðissjóði, verði að takmarka fjárfestingu við ákveðið hámark, og að það sé fullkomlega skilyrði fyrir því, að leyfi fáist til þess að nota mótvirðissjóð. Ef fara ætti eftir till. þessari, mundi það gera ómögulegt að sýna forráðamönnum mótvirðissjóðs fram á, hver fjárfestingin væri, þar sem takmarkanirnar næðu aðeins til hluta hennar.“

Fjárhagsráð gaf með þessu bréfi alveg til kynna, hverjir það væru, sem hindruðu, að bygging íbúðarhúsa væri gefin frjáls Íslendingum, það væru þeir, sem fjárhagsráð og ríkisstj. auðsjáanlega álitu að væru forráðamenn mótvirðissjóðs. Forráðamenn mótvirðissjóðs eftir íslenzkum lögum eru Alþingi. Forráðamenn mótvirðissjóðs eftir skilningi fjárhagsráðs og ríkisstj. voru hins vegar Ameríkanarnir. Það varð að skýra fyrir þeim, það varð að skýra fyrir húsbændunum í Washington, hvort einn maður á Íslandi hefði þörf á því að fá að byggja yfir sig hús. Ef hætta var á, að mönnum væri gefið frelsi til þess að byggja yfir sig hús, þá voru yfirráð Ameríkananna yfir okkar efnahagslífi í hættu. Þess vegna varð að grípa inn í. Þess vegna var frv., sem fjhn. Ed. hafði mælt með sem heild, vísað til ríkisstj. við 2. umr. samkv. till. meiri hl. sömu fjhn. Frv. hafði fjhn. Nd. flutt, það verið samþykkt svo að segja einróma hér í þessari hv. d. og nál. gefið út af fjhn. Ed. og tekið þar í sama streng, en þessu var öllu saman gerbylt, þegar Kaninn greip inn í, og frv. drepið á þann hátt að vísa því til ríkisstj. Það var þess vegna auðséð, að ríkisstj. var ekki sjálfráð í þessum efnum. Hún hafði skuldbundið sig til þess að láta aðra hafa yfirstjórnina á okkar seðla- og lánsfjárveltu og þar með á fjárfestingarstarfseminni.

Ég mun nú að síðustu, áður en ég lýk mínu máli, koma nokkru nánar inn á, hvað ég held að ríkisstj. hyggist fyrir í þessum málum nú. En hitt vildi ég aðeins gera ljóst út af spursmálinu um lánsféð, að það, sem stendur því fyrir þrifum, að Íslendingum sé veitt nóg lánsfé af þeirra eigin bönkum til þess að byggja, er einvörðungu útlent eftirlit, útlend yfirstjórn á okkar efnahagsstarfsemi, við Íslendingar höfum næga getu til þess að byggja, nægilegt vinnuafl, getum haft nægilegt efni og þörfin er nóg.

Þá er IV. kaflinn um lánadeild smáíbúðarhúsa. Þar legg ég til, að hækkað sé nokkuð það framlag, sem ríkissjóður leggur til lánadeildarinnar, og breytt nokkuð hennar starfsemi. Ég legg til í 39. gr., að Landsbanka Íslands eða annarri lánsfjárstofnun, sem félmrn. semur við, sé falin framkvæmdin á þessum lánum, úthlutun lánanna, samkv. reglugerð, er ráðuneytið setur. Ég verð að segja, að ég kann illa við það og það hefur viðgengizt of lengi, að formenn hinna pólitísku félaga stjórnarflokkanna í Reykjavík séu settir í n. rétt fyrir kosningar til þess að úthluta smáíbúðum. Það er hneyksli. Það var átalið hér í fyrra á Alþ., og því var ekki sinnt. Því var haldið áfram núna og varð enn þá meira hneyksli en það hafði verið árið áður. Ég álít eðlilegt og sjálfsagt, að smáíbúðarhúsin séu ekki notuð sem neinar pólitískar mútur, heldur sé farið með lánin til þeirra eins og venjulega er farið með lán í lánsstofnunum, og mér finnst það satt að segja orðið hálfundarlegt, ef hæstv. ríkisstj. treystir ekki lengur neinum af þeim opinberu bönkum eða sparisjóðum í landinu til að sjá um þessa hluti og verður að velja menn, sem beinlínis eru valdir með pólitískum sjónarmiðum, til þess að sjá um slíkt.

En hæstv. ríkisstj. hefur ekki aðeins gengið illa að vinna þetta réttlátlega, heldur líka gengið illa að framkvæma þetta í heild. Það var samþykkt á síðasta Alþ., að 16 millj. kr. lán skyldi tekið til þessara smáíbúðarhúsa. Það hefur ekki einu sinni verið tekið allt enn þá. Það af því, sem hefur verið tekið, hefur verið tekið seint og illa. Fólkinu, sem þrælað hefur við að koma upp þessum smáíbúðum, hefur verið gert margfalt erfiðara fyrir en nokkur þörf var á, og þar að auki hefur það ekki fengið nærri því eðlilegt fjármagn. Ég legg til þarna, að þetta sé hækkað upp í 30 millj. kr., býst við, að ekki muni af því veita.

Um leið vil ég átelja þá reglugerð, sem gefin var út af ríkisstj. viðvíkjandi smáíbúðarhúsunum. Sú reglugerð var að miklu leyti í andstöðu við sjálf lögin og þeirra tilgang. Þegar lagafrumvarp ríkisstj. kom hér fyrir Alþ. í fyrra, fyrir þessa hv. d., þá var gengið út frá því, að smáíbúðirnar skyldu allar saman vera einbýlishús. það áttu sem sé að vera smáíbúðarhús, hús, sem væri ein íbúð í. Ég fékk þessu breytt í fjhn. þessarar hv. d. Öll fjhn. féllst á það, þegar við ræddum þetta, að það væri hreinasta fásinna að ætla að binda byggingu smáíbúða við það að vera einbýlishús. Fjhn. gekk þannig frá þessum lögum, að það var fyllilega leyfilegt fyrir menn að byggja þessar smáíbúðir, þó að það væru þriggja hæða hús, samfastar húsaraðir. Það, sem var átt við, var þetta, að það væru smáíbúðir, sem menn væru að byggja, það væru íbúðir sem t. d. væru ekki stærri en það, sem ætlað er eftir lögunum um verkamannabústaði, m. ö. o., það væri verið að byggja íbúðir fyrir almenning og gera honum kleift að byggja, og auðvitað átti þá að sjá um, að þetta væri byggt á þann hátt, sem það er tæknilega praktiskast. Hins vegar hefur verið farið þarna rangt að, sumpart einmitt vegna vitlausrar reglugerðar, sem ríkisstj. hefur gefið út, og enn þá vitlausari framkvæmdar. Það hefur verið reynt yfirleitt að knýja menn til þess að byggja einbýlishús. Nú vil ég segja í því sambandi, að það hefur verið ákaflega rík tilhneiging hjá mönnum til þess að byggja slík einbýlishús. Sú tilhneiging er að mörgu leyti skiljanleg, og hún er eðlileg í smáum bæjum. Það er eðlilegt úti um land, þar sem litlir bæir eru og lítil þorp, að menn vilji byggja smáíbúðarhús og hafa jafnvel tún þar í kring og annað slíkt. En það er ekki skynsamlegt að ætla að byggja svona í borg. Ef menn ætla að búa í borg, þá mega menn ekki hugsa eins og sveitamenn. Sveitamaðurinn hugsar eðlilega þannig. Hann er vanur að búa á sínum bæ, þannig að það sé langt til næsta bæjar og hann sjái hann jafnvel ekki. Og þegar sveitafólkið flytur til bæja, þá er þessi hugsunarháttur efst í því. Hins vegar er ekki hægt að skapa bæ þannig, að það verði sæmilegt að lifa í honum, ef hann er byggður út frá þessu sjónarmiði. Ég álít það þess vegna ópraktískt að einbeita allri leyfðri byggingargetu íbúanna svo að segja að því að byggja slík einbýlishús. Það hefur ekki fengizt reiknað út, hvað slíkt kostar bæjarfélagið. En það er dýrt. Það þýðir, að mennirnir, sem í þessum íbúðarhúsum búa, og aðrir, verða að borga í hækkuðum útsvörum kostnaðinn við að byggja ópraktískt. — Ég tek það fram um leið, að það að byggja þessi einbýlishús eins og byggt hefur verið er t. d. ákaflega stór framför frá því að banna mönnum að byggja, og það er alveg eðlilegt og sjálfsagt að gefa mönnum kost á að byggja svona og eðlilegt að styðja menn til þess, en þá á jafnframt við hliðina á þessu af fullum krafti að skipuleggja íbúðarhúsabyggingar með nútímatækni. Það á ekki að láta staðar numið við það að leyfa fjölskyldum að þræla við það allar helgar, öll kvöld, að byggja yfir sig einbýlishús. Það á samtímis með þeirri miklu tækni, sem við höfum yfir að ráða, öllum okkar steypuvélum og öðru slíku, að leyfa mönnum að byggja heilar húsaraðir og sjá, hvort menn með slíkum byggingum geta ekki keppt fullkomlega við hitt og boðið mönnum mjög sæmilegar íbúðir og jafnvel ódýrari með því móti. Það er allt í lagi að leyfa smáíbúðarhúsabyggingarnar, stuðla að þeim og annað slíkt, en það á ekki að banna hitt um leið, að byggja praktískar fyrir eina borg. Þess vegna álít ég, að þessir hlutir þurfi að fylgjast að. En hins vegar vil ég á engan hátt draga úr löngun manna til þess að eiga einbýlishús. Ég vil aðeins gefa þeim kost á, að þeir hafi fleiri aðferðir til þess að geta fullnægt sinni þörf fyrir húsnæði.

Í V. kaflanum eru ákvæði um rétt einstaklinga til veðlána. Þar eru fyrirmæli um, að veðdeild Landsbankans skuli starfrækt, bankanum skylt að kaupa bankavaxtabréfin og lánin hækkuð frá því, sem nú er. Það var í fyrra flutt hérna, ef ég man rétt, af ýmsum þm. Sjálfstfl. till. um breytingar á þessu, og gengu sumar, held ég, ekkert skemmra en það, sem ég legg hér til, þannig að maður skyldi nú ætla, ef það hefur ekki verið vegna kosninganna, sem það var flutt, að þetta ætti að finna góðar undirtektir.

Viðvíkjandi svo síðasta kaflanum, um innflutning byggingarefnis, þá hef ég þegar minnzt á hann, þannig að ég held, að það sé ekki þörf að ræða um 1. og 2. gr. í honum, sem eru breyting frá lögunum, sem nú eru.

En ég vil svo að síðustu aðeins minnast á það, að hæstv. ríkisstj. lofaði því nú fyrir kosningarnar, og hennar flokkar, að gefa byggingar frjálsar. Hún lofaði því, og sérstaklega Sjálfstfl. sagði ákaflega skýrt og greinilega, að fjárhagsráð yrði afnumið og byggingar yrðu gerðar frjálsar, og ég man ekki betur en jafnvel það hafi staðið í stefnuyfirlýsingu ríkisstj., að fjárhagsráð skyldi lagt niður. — Fjárhagsráð hefur fengið að taka á sig ákaflega mikið af þeim óvinsældum, sem Sjálfstfl. og Framsfl. áttu með réttu. Og hæstv. ríkisstj. virðist nú hafa fundið það heillaráð. að það væri alveg hreint upplagt að leggja fjárhagsráð niður, skapa nú eitthvert annað ráð í staðinn til þess að láta það taka við þeim óvinsældum, sem stjórnarflokkarnir virðast vera að hugsa um að baka sér með því að bregðast þeim loforðum, sem þeir gáfu fyrir kosningar um að gefa byggingu íbúðarhúsa frjálsa. Ég vil sem sé taka það fram, að það er út af fyrir sig ekki nokkur meinabót í þessum efnum að afnema fjárhagsráð, svo framarlega sem það er meiningin, sem sérstaklega virðist vera nú eftir blöðum Framsfl. að dæma, að gefa ekki íbúðarhúsabyggingar frjálsar. Það væri nú gott að fá einhverja skýringu hjá hæstv. ríkisstj. á því, hver er meiningin hjá ríkisstj. í þessum efnum. Ég minntist fyrr í minni ræðu á eftirlitið með mótvirðissjóði og hvaða dularfullt og ekki dularfullt samband væri á milli mótvirðissjóðs annars vegar og bannsins á byggingum hins vegar. Mótvirðissjóðurinn var í fyrra færður yfir í Framkvæmdabankann, þegar hann var stofnaður. Bankastjóri Framkvæmdabankans er sá maður. sem fyrir hönd Ameríkana hefur haft eftirlit með því á Íslandi, að það væri byggt sem minnst af húsum, sá maður, sem jafnvel hefur heimtað að fá að sjá víxlana í bönkum landsins til þess að geta grennslazt eftir því, hvort það kynni nú að vera á einhverjum víxli lán út á hús. Og ég lagði hér fram í fyrra till. um rannsókn á framferði þessa manns og hvaða rétt hann hefði til slíkra afskipta, og hæstv. ríkisstj. vildi ekki sleppa þeirri till. til nefndar, kærði sig auðsjáanlega ekki um neina rannsókn á því sambandi, sem væri á milli húsnæðisleysis fjölda Reykvíkinga og versnandi húsnæðisástands og yfirráða Ameríkana yfir efnahagslífi landsins. Mér er spurn: Er það meining ríkisstj. nú að fela Framkvæmdabankanum eftirlit með íbúðarhúsabyggingum? Er það framkvæmdin á því frelsi Íslendinga um íbúðarhúsabyggingar, sem var lofað fyrir kosningarnar, að það eigi sem sé að gera hið útlenda eftirlit enn þá beinna, enn þá ósvífnara enn þá meira áberandi en það hefur verið fram að þessu? Ég held, að það sé tími til kominn, að Íslendingar fái það staðfest í lögum, að þeir hafi rétt til þess að búa í húsum, að þeir hafi rétt til þess að byggja yfir sig og að þeir hafi rétt á að krefjast aðstoðar hins opinbera til slíks. Þetta lagafrv. mitt gengur út á það, og ég vil vona, þótt erfiðlega hafi gengið undanfarið með samþykkt á því, að einhverjum kunni að hafa snúizt hugur og að það fái betri viðtökur nú en það fékk síðast.

Ég vil leyfa mér að lokinni þessari umr. að óska þess, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn., ég tel eðlilegast, að það sé í þeirri nefnd.