01.03.1954
Neðri deild: 55. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 284 í C-deild Alþingistíðinda. (2472)

26. mál, íbúðarhúsabyggingar í kaupstöðum og kauptúnum

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hæstv. forseta fyrir að hafa tekið þetta mál á dagskrá, áður en heilbr.- og félmn. hefur fundið ástæðu til þess að skila áliti um það. Þetta frv., sem er allmikið að vöxtum og um eitthvert þýðingarmesta mál, sem Alþ. hefur fjallað um, fór til hv. heilbr.- og félmn. þann 9. okt. á síðasta ári og hefur þessi hv. n. haft það, sem eftir var af októbermánuði, allan nóvembermánuð, allan þingtíma desembermánaðar og allan febrúarmánuð til þess að athuga þetta frv., en — að því er virðist eftir verkum hennar að dæma — ekki unnizt tími til þess að afgreiða það, eða fundizt þessi mál ekki það þýðingarmikil að það væri þess vert að skila um þau áliti. Hins vegar álít ég rétt og heppilegt, að slík mál sem þessi komi til atkv. hér í d. hvernig sem skoðanir annars kunna um þau að skiptast.

Ég mun ekki við þessa umr. fara að ræða þetta mál að nýju. Ég býst við, að þeir þm., sem áhuga hafa á að eitthvað sé reynt að bæta úr því hörmulega ástandi, sem ríkir um íbúðarhúsabyggingar og aðbúnað manna í íbúðarhúsum, ekki sízt í Reykjavík, hafi kynnt sér þetta, og þeim, sem fylgdust með þeirri ýtarlegu framsöguræðu, sem ég hélt um þetta mál, er ljóst, að hverju er stefnt með því.

Ég vildi biðja hæstv. forseta, þegar að því kæmi að greiða atkv. um þetta mál, að láta atkvgr. fara fram þannig, eins þótt menn yrðu ekki sammála um 1. gr., að hinir einstöku kaflar yrðu bornir upp út af fyrir sig. Þótt menn ekki væru sammála um 1. gr., — það hefur ýmislegt breytzt í þeim málum síðan frv. var lagt fram, síðan hafa nefnilega íbúðabyggingar verið gefnar frjálsar, þannig að 1. gr. hefur þess vegna ekki eins mikið gildi og hún hafði, þegar frv. var borið fram. — mundu allir kaflar í frv. út af fyrir sig standast.

Ég veit, að e. t. v. hefur það að einhverju leyti tafið þetta mál í n., að stuðningsmenn hæstv. ríkisstj. hafa búizt við að heyra eitthvað frá ríkisstj. um þessi mál. Gæti ég meira að segja trúað, að þeir væru sjálfir orðnir nokkuð langeygðir eftir uppfyllingu á þeim loforðum. sem ríkisstj. hefur gefið í húsnæðismálunum. Það bólar hins vegar ekki enn þá á slíkum uppfyllingum, og það litla, sem við heyrum af málum, sem ríkisstj. setti sem númer eitt á sína stefnuskrá, þ. e. rafmagnsmálunum, bendir til þess, að ríkisstj. sé jafnvel eins að hugsa um að fresta þeim málum til haustsins. Og þegar við færum eitthvað að heyra um, hvernig ríkisstj. gengur með íbúðarhúsamálin, þá er þess vegna máske ekki alveg óhugsandi, að eitthvað slíkt kæmi þá líka fyrir, t. d. að það kynni eitthvað að stranda á lánaspursmálinu, eins og virðist vera með rafmagnsmálin. Ég held þess vegna, að hv. stjórnarstuðningsmönnum væri ekki rétt að bíða eftir því að hæstv. ríkisstj. sýndi sig í því að leggja frv. um íbúðarhúsamálin fyrir þingið. Ég held, að það væri alveg óhætt að láta þetta frv. komast nokkuð áleiðis í þinginu og sjá til, hvað ríkisstj. ætli sér að gera. Ég held sem sé, að það sé alveg nauðsynlegt, líka fyrir þá þingmenn ríkisstj., sem vilja eitthvað láta gera í þessum málum, að ýta á eftir ríkisstj., láta hana vita af því, að Alþ. ætli ekki að skiljast svo við húsnæðismálin, að það verði ekki gerðar verulegar endurbætur í þeim málum. Ég held þess vegna að það væri heppilegt, líka til þess að reka á eftir ríkisstj.samþ. nú við 2. umr. þetta lagafrv., sem ég hér legg fram. Ég efast ekki um, að svo framarlega sem það verður gert, þá mundi hæstv. ríkisstj. fara alvarlegar að hugsa sitt mál. Ef hún fyndi alvöru hjá þingmönnum sjálfum, þá mundi hún líka sjálf fara að sýna einhverja alvöru í þessum málum. Ég leyfi mér þess vegna að vona, jafnvel þó að enginn úr hv. heilbr.- og félmn. finni ástæðu til þess að taka undir þetta frv. eða mæla með því, að hv. þm. skilji, hvaða velferðarmál hér er á ferðinni, og standi þess vegna með því, a. m. k. nú við þessa umr., þannig að úr fái skorizt, hvort ríkisstj. ætlar eitthvað að gera í þessum málum á þinginu eða ekki.