13.10.1953
Neðri deild: 7. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 294 í C-deild Alþingistíðinda. (2477)

27. mál, áburðarverksmiðja

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Þegar áburðarverksmiðjuna hefur borið á góma hér á Alþingi undanfarin ár, hef ég jafnan látið þess getið, að ég tel lagasetningunni um hana vera mjög ábótavant og hér í raun og veru á ferðinni mál, sem algerlega vansæmandi er fyrir Alþingi að taka ekki til gagngerðrar endurskoðunar. Frá lögunum var upphaflega illa gengið. Sú breyting, sem gerð var á frv. við síðustu umr. í Ed., var mjög til hins verra og opnaði leið til mikillar misnotkunar á því skipulagi, sem byggt var upp í lögunum. Þetta hefði þó getað orðið skaðlítið, ef ekki hefði svo farið, að öll skilyrði til misnotkunar á l. hefðu verið hagnýtt út í yztu æsar, þannig að nú hefur skapazt hér í áburðarverksmiðjumálinu þvílíkt ófremdarástand, að alls ekki má við svo búið standa. Vil ég minna hv. þm. í örfáum orðum á það, hvað hér er um að ræða.

Það hefur til skamms tíma verið talið, að stofnkostnaður áburðarverksmiðjunnar yrði um 108 millj. kr. Þar af leggur ríkið fram 104 millj. og einstaklingar aðeins 4 millj., eða aðeins 3–4% af stofnkostnaði verksmiðjunnar. Af þeim 104 millj., sem ríkið leggur fram til verksmiðjunnar, eru aðeins 6 millj. kr. hlutafé. Ríkissjóður eignast aðeins 6 millj. kr. hlutafé fyrir rúmlega 100 millj. kr. heildarframlag. 98 millj. kr. eru lán til verksmiðjunnar. Af þessum 98 millj. kr. hefur ríkið fengið 40 millj. kr. gefnar erlendis, en hitt er lán. Þó að einstaklingar leggi aðeins fram 3–4% af stofnkostnaði verksmiðjunnar, þá hafa þeir samt sem áður 2 menn af 5 í stjórn verksmiðjunnar. En stjórnin er þannig skipuð, að Alþingi kýs 3 af 5 stjórnendum, en einstaklingarnir, sem eru hluthafar, kjósa tvo. Fyrir 3–4% framlag af kostnaði verksmiðjunnar fá einstaklingarnir m. ö. o. áhrif á stjórnina, sem nemur 40%. Þessir 3 menn, sem sameinað Alþ. kýs, eru kosnir hlutfallskosningu, þannig að líklegt er, að stjórnarandstaðan fái einn af hinum þrem kjörnu mönnum. Ef aðstæður í Alþ. væru þannig, að stjórnarandstaðan væri á bandi einstaklinganna í stjórn áburðarverksmiðjunnar, þá gæti þannig farið, að þeir sameinuðust, fulltrúar hinna einstöku hluthafa og stjórnarandstöðunnar. og hefðu þannig meiri hluta í stjórn verksmiðjunnar, þrátt fyrir það að þeir hafi aðeins lagt fram 3–4% af stofnkostnaði verksmiðjunnar. Sjá ekki allir hv. alþm., hvað hér er á ferðinni — að hér er verið að tefla á tæpasta vað um rétt sjálfrar löggjafarsamkomunnar, sjálfs ríkisvaldsins yfir þessu mesta fyrirtæki Íslendinga? Það er fyllsta skammsýni að miða löggjöf um hin mikilvægustu fyrirtæki við þá valdaskiptingu, sem nú er á Alþ., en þannig virðist hæstv. ríkisstj. hafa hugsað. Það kann að koma henni í koll síðar, og fyrir þjóðina, sem á þetta fyrirtæki, er þetta ástand algerlega óvíðunandi.

Þetta lýtur að valdahlutföllunum í stjórn þessa mikla fyrirtækis. En hvernig er með fjármálin þar? Hlutaféð er aðeins 10 millj. kr., en stofnkostnaður verksmiðjunnar nokkuð á annað hundrað milljóna. Hlutaféð hefur auðvitað verið ákveðið svona lítið einvörðungu til þess að geta veitt þeim einstaklingum, sem fé lögðu í verksmiðjuna, tiltölulega mikil áhrif og tiltölulega mikla gróðavon. Í lögum verksmiðjunnar er svo ákveðið, að leggja skuli 3% af kostnaðarverðinu við framleiðsluna í varasjóð, og í grg. frv., þegar það var upphaflega lagt fyrir, var gert ráð fyrir því, að þetta varasjóðstillag yrði ½ millj. kr. á ári. Varasjóðstillag verksmiðjunnar verður m. ö. o. svo mikið, að hlutafé hennar eða eigið fé tvöfaldast á 20 árum, þó að ekkert væri lagt í varasjóð annað en það, sem lögin skylda verksmiðjuna til að leggja í varasjóð. Á 20 árum verður varasjóðurinn m. ö. o. jafnmikill og hlutaféð. Gerum ráð fyrir því, að verksmiðjan hagi verðinu á áburðinum þannig, að enginn hagnaður verði. Varasjóðstillögin er engu að síður skylt að leggja á áburðarverðið, og þá verður afleiðingin þessi: Varasjóðurinn verður á 20 árum jafnmikill og hlutabréfin. Varasjóðstillögin eru auðvitað viðbót við hlutaféð, þ. e., varasjóðurinn er eign hluthafanna og engra annarra en hluthafanna. Lögin eru þannig úr garði gerð, að gert er ráð fyrir því, að á 20 árum sé hluthöfunum gefið jafnmikið og þeir leggja fram í hlutafé. Ég þori að fullyrða, að Alþ. hefur aldrei áður gengið frá þvílíkri lagasetningu sem þessari. Ef verksmiðjan verður rekin þannig, að hagnaður verði, þá verður varasjóðurinn auðvitað þeim mun meiri og gjöfin til hluthafanna þá um leið þeim mun stærri.

Þessi lagasetning, eins og hún hefur verið framkvæmd, er því þvílíkt hneyksli, að taka verður hana til gagngerðrar endurskoðunar. Þess vegna er ég algerlega fylgjandi því frv., sem hér er komið fram, svo langt sem það nær, en teldi raunar æskilegra, að lögin öll væru tekin til endurskoðunar. En þetta, sem hér er gert ráð fyrir að gera í þessu frv., er alveg sjálfsagt.

Ég vildi ekki láta hjá líða að láta þessar athugasemdir koma fram þegar við 1. umr. málsins, því að mér segir svo hugur um, að þessi ríkisstj. muni enn vera á sama máli og sú, sem sat á síðasta þingi, að hún muni vilja svæfa þetta mál algerlega og láta það ekki koma til umr. aftur. Þess vegna vil ég þegar við þessa 1. umr. taka undir þau orð, sem þegar hafa verið sögð, að hér er réttlætismál á ferðinni, sem Alþ. verður sóma síns vegna og vegna hagsmuna þjóðarinnar að taka til meðferðar.