13.10.1953
Neðri deild: 7. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 312 í C-deild Alþingistíðinda. (2498)

36. mál, fiskveiðasjóður Íslands

Flm. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Við höfum fjórir þm. leyft okkur að flytja hér á þskj. 37 frv. til l. um breyt. á l. um fiskveiðasjóð Íslands. Þessi breyting er í því fólgin, að starfssvið sjóðsins verði nokkuð víkkað, þannig að honum verði einnig heimilað að lána til verbúða og útgerðarhúsa.

Eins og hv. þingmönnum er kunnugt, þá er svo ákveðið í lögum um fiskveiðasjóð Íslands, að sjóðnum skuli ætlað að veita lán til tiltekinna framkvæmda í sjávarútvegi, og hefur það hingað til verið miðað við annars vegar skipakaup og skipabyggingar og hins vegar iðnað í sambandi við útgerðina, þannig að ekki hefur verið talið heimilt að veita úr sjóðnum lán til húsa í landi í sambandi við útgerðina, nema því aðeins að þar færi fram einhvers konar fiskiðnaður. Auk þess er sjóðnum heimilað að verja lánum til dráttarbrauta og til olíugeyma.

Þannig standa sakir með stofnlánadeildir sjávarútvegsins, að þær eru að vísu tvær: stofnlánadeild sjávarútvegsins við Landsbanka Íslands og svo fiskveiðasjóður Íslands. Stofnlánadeild sjávarútvegsins við Landsbankann hefur ekki starfað neitt frá þeim tíma, að upphaflega var varið úr henni 100 millj. kr. í sambandi við nýsköpunina. Því fé var þá öllu eytt, og þurfti allverulega upphæð til viðbótar, eða um 25 milljónir, sem ríkissjóður varð að lána þá til þeirra, sem ekki gátu notið hlunninda stofnlánadeildarinnar, og varð að gera um það sérstaka samninga víð Landsbankann. Síðan hefur stofnlánadeildin lítið eða ekkert lánað og þar af leiðandi ekki verið möguleiki fyrir útgerðina að leita þangað um stofnlán. Það er því ekki um aðra stofnun að ræða en fiskveiðasjóð Íslands, og þegar hann hefur ekki haft heimild til að lána til þeirra framkvæmda, sem ég hef getið um, verbúða og útgerðarhúsa, þá gefur að skilja, að það hefur verið erfitt um vik fyrir þá, sem hafa þurft að koma upp þessum húsum, að fá til þeirra lán, því að bankarnir hafa verið mjög tregir til að veita almenn lán til þeirra framkvæmda, a. m. k. til svo langs tíma sem nauðsynlegt hefur verið. Það þarf vitanlega ekki að taka fram, að hér er um mjög mikilvægar framkvæmdir að ræða og óumflýjanlegar, enda er það svo, að nú síðustu árin hefur stóraukizt með ári hverju aðsókn á fiskveiðasjóðinn um lán í þessu skyni, ekki hvað sízt til útgerðarhúsanna, sem hefur orðið þeim mun brýnni sem meiri hefur orðið saltfisksframleiðslan, og bátaútvegsmenn víða um land hafa saltað fisk sinn sjálfir og hafa til þess þurft einhverja aðstöðu í landi. En hins vegar hefur verið mjög erfitt eða svo að segja ógerlegt að fá lán, sem til þessa þurfti. Ég ætla því, að það muni naumast geta orðið ágreiningur um það hér í hv. d., að eðlilegt sé og sjálfsagt að gera þessa breyt. á l. sjóðsins. að honum verði heimilað að verja fé í þessu skyni.

Þá kemur auðvitað hin hlið málsins, að eins og sakir standa er fiskveiðasjóður Íslands mjög fjárvana. Samkv. lögum fær hann vissar tekjur á ári hverju, sem er útflutningsgjald af útfluttum sjávarafurðum. Þó eru þar nokkrar undanskildar, og er þar sér í lagi um að ræða saltfiskinn, sem með sérstökum lögum var undanskilinn fyrir nokkrum árum, þegar erfiðlega horfði með saltfisksframleiðslu. Á síðasta þingi var borið fram hér í hv. d. frv. um það, að greitt skyldi útflutningsgjald af saltfiski sem öðrum sjávarafurðum og það gjald rynni til sjóðsins. Það þótti þá ekki mögulegt vegna erfiðleika saltfisksframleiðenda að leggja á þetta gjald, og frv. var þá vísað frá á þeim grundvelli, en jafnframt tekið fram. að lögð væri áherzla á, að ríkisstj. tæki til athugunar, hvernig unnt yrði að leysa úr fjárhagsvandræðum fiskveiðasjóðs Íslands.

Eins og ég áðan gat um, þá er stofnlánadeildin nú lokuð, og það er því ekki um að ræða til stofnlána sjávarútvegsins nema það fé, sem fiskveiðasjóður hefur á hverjum tíma yfir að ráða, en það munu vera um 5 millj. kr. á ári, sem hann fær, auk vaxta og afborgana af lánum, sem hann hefur áður veitt. En eins og mönnum er kunnugt, þá hafa hinir miklu erfiðleikar útgerðarinnar undanfarið valdið því, að gengið hefur mjög treglega að fá innborguð aftur þau lán, sem veitt hafa verið bæði úr stofnlánadeild og fiskveiðasjóði. Þetta leiðir vitanlega til þess, að mjög miklir erfiðleikar verða af þessum sökum, meira en ella hefði verið hjá fiskveiðasjóði með sitt lánsfé.

Það er svo ákveðið í lögum um fiskveiðasjóð Íslands, að við sjóðinn skuli vera sérstök deild, sem hefur það hlutverk að lána fé út á 2. og 3. veðrétt í fiskiskipum, og á að ganga til þeirrar deildar 331/3% af tekjum fiskveiðasjóðs af útflutningsgjaldi. Þessi deild sjóðsins mun nú nema allverulegri upphæð, eða um 12 millj. kr. Samt er það svo, að enda þótt gert yrði ráð fyrir að lána allt það fé, sem inni stendur í þessari deild, og allt annað fé, sem fiskveiðasjóður hefur nú yfir að ráða, þá standa sakir þannig, að lánsloforð, sem veitt hafa verið úr sjóðnum, nema allt að þessari upphæð, eða nálægt 16 millj. kr.. og er þá svo að segja þrotið algerlega það fé, sem sjóðurinn hefur yfir að ráða að meðtalinni þessari sérstöku deild. Á næsta ári mun því ekki verða um að ræða í sjóðnum nema þessar árlegu tekjur, sem ég áðan gat um og munu nema um 5 millj. kr. Það liggur því í augum uppi, að það ber brýna nauðsyn til þess að gera sérstakar ráðstafanir til þess að efla fiskveiðasjóðinn eða — og þá jafnframt ef til vill — að fara þá leið að efla stofnlánadeild sjávarútvegsins við Landsbankann og láta hana halda áfram sinni starfsemi. Með hliðsjón af þeirri mjög brýnu þörf sjávarútvegsins fyrir stofnlán og þeim háu upphæðum, sem menn þurfa þar á að halda, bæði í sambandi við fiskiskipakaup og við að koma upp ýmiss konar fiskiðjuverum, frystihúsum eða öðrum framkvæmdum, sem eru mjög dýrar stofnanir. þá er ljóst mál, að þess er mikil þörf að ekki aðeins fiskveiðasjóðurinn starfi áfram, heldur einnig að stofnlánadeildin geri það.

Við flm. þessa frv. höfum ekki í því tekið upp neinar till. varðandi fjáröflun til fiskveiðasjóðs, og stafar það af því, eins og bent er á í grg. og ég vék hér að áðan, að þessu máli var í fyrra vísað til hæstv. ríkisstj. og mér er kunnugt um það, að hæstv. ríkisstj. og hæstv. sjútvmrh. munu nú hafa þessi mál í athugun. Er þess mjög að vænta að af þeirri athugun verði sá árangur að þessar stofnlánadeildir sjávarútvegsins fái með einhverju móti nauðsynlegt fé til þess að geta staðið undir eðlilegri þróun og eflingu sjávarútvegsins, því að auðvitað erum við allir sammála um, að það má ekki fyrir koma, að komið verði í veg fyrir eðlilega þróun og eflingu sjávarútvegsins af þeim sökum, að ekki sé fyrir hendi nauðsynlegt fjármagn til þess að sú efling hans geti farið fram, þegar svo háttar málum, að meginhluti af öllum okkar gjaldeyristekjum kemur frá sjávarútvegi. — Ég tel ekki ástæðu til að orðlengja þetta meir, taldi hins vegar rétt að ræða nokkuð um fjármál stofnlánadeilda sjávarútvegsins almennt í sambandi við þetta frv., því að vitanlega, þótt menn séu sammála um, að nauðsynlegt sé að lána til þessara framkvæmda, sem hér um ræðir, þá má ekki loka augunum fyrir því, að það eitt út af fyrir sig nægir auðvitað ekki, nema ráðstafanir séu gerðar um leið til þess, að sjóðurinn hafi yfir nauðsynlegu fé að ráða til þess að geta lánað til allra þeirra framkvæmda. sem honum er ætlað að lána til. Ég vil svo leyfa mér að leggja til, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til hv. sjútvn.