13.10.1953
Neðri deild: 7. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 317 í C-deild Alþingistíðinda. (2507)

42. mál, garðávaxta- og grænmetisgeymslur

Flm. (Jón Sigurðsson):

Herra forseti. Við höfum fimm þm. leyft okkur að flytja frv. um garðávaxta- og grænmetisgeymslur. Þetta frv. er flutt vegna þeirra aðstæðna, sem nú eru fyrir hendi.

Það er orðið langt síðan menn voru þess fullvissir, að í ýmsum héruðum á landinu væru skilyrði til framleiðslu kartaflna og annarra garðávaxta svo ákjósanleg að þar mætti hæglega rækta allar þær kartöflur, sem þjóðin þarfnaðist, og spara þannig mikinn erlendan gjaldeyri. Að þetta hefur ekki komizt á, má án efa kenna óhagstæðu tíðarfari núna hin síðari ár, en þó mun sönnu nær, að skortur á góðum geymslum hafi valdið hér mestu. Framleiðendur margir hverjir hafa orðið fyrir svo miklum skakkaföllum af skemmdum á sölukartöflum sínum, að þeim hefur ekki þótt svara kostnaði að leggja fé og vinnu í stórræktun, meðan ekki rættist fram úr í þessu efni.

Óvenjulega hagstætt tíðarfar s. l. sumar átti mestan þátt í því, að nú er kartöfluuppskeran í fyrsta skipti meiri en líkur eru til, að neyzlan verði, og þá kemur það líka fram, sem ýmsir menn bjuggust við, að til vandræða horfir. Það eru ekki til geymslur í landinu fyrir þessa björg, og það er ekki útlit fyrir annað en að mjög mikill hluti af uppskerunni eyðileggist sökum alls ónógra og ófullkominna geymslna.

Það hagar þó þannig til, að nokkur reynsla er þegar fengin um, að hægt er að ráða bót á þessu. Á undanförnum árum hefur verið komið upp nokkrum kartöflugeymslum hér á landi fullkomnum kartöflugeymslum — og þó að þetta hafi verið á tilraunastigi í fyrstu, þá er nú svo komið, að ef rétt er að farið, þá geymast ósýktar kartöflur þar óskemmdar árlangt eða lengur.

Við flm. teljum því, að nú sé tími til kominn að hefjast handa og koma upp öruggum geymslum, fyrst og fremst fyrir þær kartöflur, sem á að selja, og jafnframt fyrir aðra garðávexti og grænmeti, eftir því sem þörf krefur á hverjum stað, og þó að þessar geymslur komi ekki að gagni í haust eða greiði fram úr þeim vandræðum, sem nú eru, þá er enginn vafi á því, að þær munu síðar verða til þess að bjarga miklum verðmætum frá eyðileggingu og spara þjóðinni mikinn erlendan gjaldeyri.

Að dómi okkar flm. er hér um svo mikið þjóðfélagslegt vandamál og nauðsynjamál að ræða, að við teljum rétt, að ríkið hlaupi undir bagga með því að leggja fram sem svarar ¼ stofnkostnaðar, og er það sami styrkur og mjólkurbú hafa notið til þessa. Jafnframt er í frv. gert að skilyrði fyrir styrk að tryggt sé, að húsin verði vönduð og framleiðendum tryggð umráð og afnot húsanna. Loks er nokkur kvöð lögð á grænmetisverzlun ríkisins um kaup á kartöflum til þess að greiða fyrir framleiðendum og tryggja um leið rekstur þessara nauðsynlegu geymsluhúsa.

Ég tel rétt í þessu sambandi að geta þess, að þetta mál hefur verið mjög til athugunar og umræðu hjá framleiðsluráði landbúnaðarins, og sömuleiðis hafa aðalfundir Stéttarsambands bænda tekið þetta mál til umræðu og gert um það ítrekaðar samþykktir. Að málið hefur þó ekki komið fram fyrr en þetta, stafar af því, að það hefur ekki tekizt að fá samkomulag um gagngerðar breytingar við aðra aðila, a. m. k. ekki á þann veg. sem framleiðsluráð hefur talið æskilegt.

Með þessu frv. er leitazt við að leysa þann þátt málsins. sem nú eins og sakir standa er mest aðkallandi, en það sem við flm. teljum að stefna beri að til þess að tryggja kartöfluframleiðsluna í landinu, er í fyrsta lagi að koma betri skipun á þessi mál með því að tryggja örugga sölu allra sölukartaflna. sem framleiddar eru hér á landi, þannig að þeir, sem framleiða þær geti lagt þær inn alveg eins og við bændurnir leggjum inn dilkana okkar á haustin, þurfi ekki að sitja með þær kannske í missiri eða til vors, ef svo vill verkast, og eiga þar af leiðandi á hættu í misjöfnum geymslum, að ekki óverulegur hluti af framleiðslu þeirra eyðileggist.

Þá er það, sem fyrir vakir, að koma upp, eins og ég hef getið, kartöflugeymslum. sem séu svo tryggir geymslustaðir, að kartöflur geymist þar meir en árlangt óskemmdar. Þetta er alveg sérstaklega nauðsynlegt vegna þess. hve kartöfluuppskeran er ótrygg hér á landi, eitt árið fá menn fimmfalda uppskeru, næsta ár tuttugufalda eða jafnvel enn þá meira. Þess vegna þarf að koma hér upp geymslu, til þess að við verðum okkur sjálfum nógir, sem sé það góð, að hún geti geymt kartöflur árlangt og meira, geymt þær nokkuð fram á næsta ár óskemmdar, svo að það sé hægt þannig að jafna á milli góðra og lélegra uppskeruára. Í þessu sambandi er rétt að geta þess, að framleiðsluráð hefur látið fagmenn athuga sérstaklega um geymslu kartaflna hér í bæ, og var athuguð geymsla í nokkrum kjöllurum, sem voru taldir sérstaklega góðir hér í bæ, og kartöflurnar skoðaðar í maímánuði. Reynslan varð á þá leið, að þessar kartöflur höfðu rýrnað, þegar allt kom til alls, um milli 50 og 60%. En kartöflur. sem voru geymdar í Jarðhúsunum núna s. l. ár og voru skoðaðar á sama tíma, höfðu rýrnað um 3%. Á þessu sést, hver feiknarmunur er á því að koma upp slíkum geymslum.

Þá verður líka í framtíðinni að leggja áherzlu á, að bændur noti úrgangskartöflur sínar til skepnufóðurs og spari sér þannig fóðurbætiskaup. En nú eru það margir fleiri en bændur, sem eru stórkartöfluframleiðendur, og þess vegna ber að líta á fleira, og er þá næst fyrir hendi, að komið verði upp aðstöðu til þess að vinna t. d. sterkju úr því af kartöflunum, sem ekki selst sem matarkartöflur hverju sinni, og þannig sé gengið frá þessum málum í framtíðinni, að ekkert af kartöfluuppskerunni þurfi að ónýtast og aðstaða verði til þess að nýta hana til fullnustu. Það hlýtur að vera markið, sem fram undan er og verður að stefna að. En eins og nú standa sakir eru kartöflugeymslurnar fyrsta sporið í þessa átt, fyrsti áfanginn, og væntum við, að sú reynsla, sem fengizt hefur nú í haust, verði til þess, að hv. Alþ. taki liðlega á þessum málum.

Ég skal geta þess, að mjög kunnugur maður þessum málum sagði við mig núna fyrir nokkrum dögum. að sér virtust horfurnar þannig í þessum geymslumálum, jafnvel þó að nú væri til meira af kartöflum en líkur væru til. að hægt væri að nota hér í landinu, — þó að allt nýttist, þá væru mestar líkur til þess, að hér væri orðið kartöflulaust af matarkartöflum í júnímánuði, m. ö. o. að það skorti mikið á, að við hefðum nægar kartöflur til ársins, þrátt fyrir þessa geysilegu kartöfluuppskeru, og það eingöngu af því. að tilfinnanlega vantar nauðsynlegar geymslur.

Ég leyfi mér svo að óska eftir. að málinu verði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr. og landbn.