20.10.1953
Neðri deild: 8. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 320 í C-deild Alþingistíðinda. (2510)

43. mál, bifreiðaskattur o. fl.

Flm. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Árið 1939 báru þrír þm. Framsfl. í Ed. fram frv. um brúasjóð. Samkv. frv. átti sjóðurinn að fá tekjur af hluta af benzínskatti, er samsvaraði einum eyri af verði hvers benzínlítra, en fé sjóðsins skyldi varið til að greiða kostnað við að brúa hinar stærstu ár í landinu. Flm. þessa frv. færðu skýr rök fyrir því, að ekki mundi takast með fjárveitingum hvers árs að fá nægilegt fé til að standast kostnað við stórbrýr, jafnframt því sem brúaðar væru smærri ár í mörgum héruðum. Rangæingar höfðu þá farið þá leið að safna lánsfé í héraði, svo að unnt yrði að brúa fyrr en ella stórvötn í þeirri sýslu, en ríkissjóður endurgreiddi lánin á næstu árum. Á þann hátt skiptust framlög ríkisins til þeirra mannvirkja á nokkur ár. Augljóst var, að sú leið var ekki fær í öllum héruðum, og mundu þá mörg stórvötn verða óbrúuð næstu áratugi, nema gerðar yrðu sérstakar ráðstafanir í þessu efni. Með stofnun brúasjóðs mundi safnast fé á einu til tveimur árum til að standast kostnað við eina stórbrú í senn. Frv. þetta hlaut ekki afgreiðslu á því þingi. Á þingi 1940 var frv. flutt aftur, en þá var það fellt í Ed. með jöfnum atkv. En árið 1941 tókst að fá lögfest ákvæðið um brúasjóð, og voru tekjur sjóðsins þær sömu og lagt hafði verið til 1939. Var þá jafnframt ákveðið, að fyrst skyldi smíða brú á Jökulsá á Fjöllum fyrir fé sjóðsins.

Á þingi 1943 fluttu tveir þm. Framsfl. frv. um að efla brúasjóð með því að hækka tekjur hans um helming, og var það samþ.

Stóð svo fram á þingið 1945, er þáverandi fjmrh. lagði til, að brúasjóður yrði sviptur tekjum sínum og fénu ráðstafað á annan hátt. Það var samþ. af þáverandi þingmeirihluta, og gekk sú skipun í gildi með lögum nr. 53 1946 og hélzt óbreytt um þriggja ára skeið. En 1949 var aftur lögfest, að hluti af benzínskatti rynni í brúasjóð, og nemur sú fjárhæð 5 aura gjaldi af hverjum benzínlítra.

Kostnaður við að brúa hvert stórvatn í landinu skiptir milljónum króna. Reynslan hefur staðfest þau rök, að seint gangi að safna svo miklu fé með hinum venjulegu fjárveitingum til brúagerða i fjárlögum hvers árs, sem þarf til hinna stærstu brúa, jafnframt því sem dreifa þarf brúafé í flest héruð landsins til smærri framkvæmda, sem nauðsynlegar eru. Á árunum 1945–48 var veitt nokkurt fé til brúa á Þjórsá, Blöndu og Jökulsá í Fljótsdal. En engin þessara brúa var byggð á þeim árum, sökum þess að fjárveitingar voru ekki nógu háar.

Fé brúasjóðs var í fyrstu varið til þess að byggja brú á Jökulsá á Fjöllum samkv. ákvæðum h frá 1941. Og eftir að sjóðurinn fékk að nýju vissar tekjur, hafa verið kostaðar að nokkru leyti af fé hans brýrnar á Þjórsá, Blöndu, Jökulsá á Fljótsdal og Skjálfandafljóti í Bárðardal og að öllu leyti brú á Jökulsá í Lóni. Nú er og hafin brúargerð á Hvítá í Árnessýslu fyrir fé brúasjóðs.

Þrátt fyrir það, sem unnizt hefur, er eftir að leysa af hendi mörg og stór verkefni á þessu sviði. Smíða þarf að nýju stórbrýr á nokkrum stöðum í stað annarra, sem eru að falli komnar. Sem dæmi um það má nefna brú á Lagarfljót og á Jökulsá í Axarfirði, og enn eru stórfljót í sumum landshlutum óbrúuð, enn þá eru þau farartálmi milli héraða eða kljúfa blómlegar byggðir.

Með þessu frv., er ég flyt ásamt hv. 2. þm. N-M. og hv. 1. þm. Arn. og hér er til umr., er lagt til að efla brúasjóðinn með því að auka tekjur hans um helming frá því, sem nú er í því skyni að hraða meira en ella nauðsynlegum framkvæmdum í brúagerðum. Hér er þó ekki lagt til að hækka benzínskattinn í heild frá því, sem nú er. Það er augljóst, að þær framkvæmdir eru mjög mikilvægar, sem miða að því að tengja sveit við sveit, bæta aðstöðu manna í lífsbaráttu þeirra og skapa skilyrði til aukinnar framleiðslu í ýmsum héruðum.

Ég legg svo til, að frv. verði, þegar þessari umr. lýkur, vísað til 2. umr. og fjhn.