23.10.1953
Neðri deild: 9. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 329 í C-deild Alþingistíðinda. (2532)

52. mál, stofnlánadeild sjávarútvegsins

Flm. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér hér ásamt hv. 9. landsk. og hv. 4. landsk. að flytja frv., sem líka lá fyrir þessari hv. d. í fyrra.

Öllum hv. þm. er kunnugt um, að stofnlánadeild sjávarútvegsins við Landsbanka Íslands hefur verið ein af þörfustu lánsstofnunum, sem myndaðar hafa verið fyrir sjávarútveginn, og hefur alveg sérstaklega átt meginþátt í því að gera m. a. fjöldanum af bæjarfélögum á Íslandi mögulegt að afla sér þeirra togara, sem nú eru reknir frá fjöldanum öllum af kaupstöðunum á Íslandi og eru ein aðalframleiðsluundirstaða atvinnulífsins í þeim kaupstöðum. Hins vegar er það svo, að lögin um stofnlánadeildina hafa verið framkvæmd þannig, að jafnóðum sem borgast af togurunum og öðru, sem lánað hefur verið til, er stofnlánadeildin látin endurgreiða seðlabankanum þetta fé. Brtt. okkar við lögin um stofnlánadeild sjávarútvegsins fer fram á, að þessu sé hætt og stofnlánadeildinni sé kippt í sama horf og hún var upprunalega.

Hv. þm. vita, að þegar lögin um stofnlánadeildina voru samþykkt, þá var ákveðið, að hún skyldi vera í tveim deildum, A-deild og B-deild. Til A-deildarinnar var þannig stofnað, að seðlabankinn var skyldaður til þess að lána 100 millj. kr. til þessarar stofnlánadeildar, og skyldi nota það fjármagn til þess að lána út á þau skip, sem keypt væru utanlands frá. Hins vegar átti B-deildin að byggja fyrst og fremst á þeim lánum, sem fengjust hér innanlands, en það varð, eins og kunnugt er, tiltölulega lítið.

Stofnlánadeildin varð í upphafi, hvað A-deildina snertir, um 100 millj., eins og ég hef sagt. Nú mun hún á síðustu reikningum Landsbankans vera komin niður í 71 millj. kr. M. ö. o.: Það er búið að borga milli 25 og 30 millj. kr. af togurunum og öðrum þeim framleiðslutækjum, sem lánað hefur verið til, inn til stofnlánadeildarinnar, en stofnlánadeildin hefur þá jafnóðum verið látin greiða þetta fé til baka til seðlabankans.

Við flm. þessa frv. álítum, að þetta eigi að hætta og seðlabankinn eigi að endurgreiða stofnlánadeildinni það fé, sem hann þegar hefur fengið frá henni, þannig að A-deildin verði 100 millj. kr. eins og hún var í upphafi. Það mundi þýða, að þarna bættust við til stofnlánadeildarinnar milli 25 og 30 millj. króna. Síðan leggjum við til, að þessi skipting í A og B-deild sé afnumin og þeim lánum, sem nú eru hjá B-deildinni, sé skellt þarna saman við, þannig að þetta verði ein deild héðan af. Við leggjum enn fremur til, að þau ákvæði séu þarna sett, að lán út á fiskiskip, sem byggð séu hér innanlands, skuli ganga fyrir. Þar er í fyrsta lagi náttúrlega um mótorbátana að ræða, en mundi líka koma til mála með togara, sem byggðir væru hér innanlands, sem ég vona að eigi ekki langt í land að farið verði að gera.

Það hafa staðið nokkrar deilur um stofnlánadeildina og lánin til hennar, og ég veit, að hæstv. fyrrv. ríkisstj. var engan veginn ánægð með þá framkvæmd, sem höfð var á þessu af hálfu Landsbankans, og vildi þess vegna gjarnan fá þarna nokkra breytingu á. En eftir því, sem ég bezt veit, þá varð það úr, að ríkisstj. raunverulega samdi við Landsbankann um að taka fé að láni og leggja sjálf fram og borga af því allmikla vexti og lána þeim togurum, sem hefðu raunverulega átt að fá lán úr stofnlánadeildinni. Þetta gerir það að verkum, að slík lán eru dýrari bæði fyrir ríkið og einstaklingana, því að sannleikurinn er sá, að stofnlánadeild sjávarútvegsins var raunverulega eina góða lánadeildin með virkilega góðum lánskjörum á Íslandi, a. m. k. hvað sjávarútveginn snertir. Að vísu hefur fiskveiðasjóður verið nokkuð í sömu áttina og viss lán úr honum meira að segja mjög góð, en þessi 2½%, sem lánað er fyrir úr stofnlánadeildinni, eru hins vegar ásamt beztu landbúnaðarlánunum lægstu vextirnir, sem hér tíðkast.

Svo framarlega sem þetta frv. okkar yrði að lögum, þá mundi þess vegna í fyrsta lagi verða hætt að borga út úr stofnlánadeildinni meira til seðlabankans og enn fremur mundu verða greidd þarna til baka þau lán, sem seðlabankinn áður hefur veitt stofnlánadeildinni, og hún mundi taka til fullra starfa að nýju, í staðinn fyrir að nú er hún raunverulega ekkert nema innheimtudeild. Það hefur oft á þessu þingi verið rætt um lánsþörf sjávarútvegsins, og þetta er ein af þeim aðferðum, sem mundu verulega hjálpa til þess að bæta þar um.

Ég held, að það sé nauðsynlegt í þessu sambandi, ef menn vilja ræða það vandamál, sem liggur þessu til grundvallar, að menn athugi fleira í sambandi við það. Þetta er ekki eina frv., sem fram kemur nú á Alþ. um lán, og var heldur ekki á því síðasta. Það rignir niður frv., bæði frá þm. stjórnarandstöðunnar og frá fylgjendum stjórnarinnar hér á þinginu, og ég man nú ekki, hvað það var hátt, sem komið var frá fylgismönnum hæstv. síðustu ríkisstj. fyrir síðasta Alþ., en varla misminnir mig, að það hafi verið komið í kringum 100 millj. kr., sem þeir voru búnir að leggja af lánsfrv. hérna fyrir þingið, og þetta hefur ekki verið að ástæðulausu. Það er svo, að lánsþörfin á Íslandi núna er svo geigvænleg, að þjóðfélagið er bókstaflega þjakað af henni. Hins vegar er stjórn lánsfjármálanna á Íslandi hér á Alþ. Það er Alþ., sem með sínum lögum ákveður, hvaða lánsfjárpólitík skuli rekin, og það er raunverulega bara sýndarleikur, a. m. k. af hálfu þeirra þm., sem taka þátt í því að bera ábyrgð á stjórnarfarinu í landinu nú sem stendur, að koma fram með hvert frv. á fætur öðru um lán hér á Alþ. og fást aldrei til þess að ræða raunverulega, hvernig í vandamáli lánsfjármagnsins raunverulega, liggur láta sér alltaf nægja algerðar yfirborðsafsakanir í þeim efnum. Hæstv. ríkisstj. hefur ákaflega mikið hælt sér af því í sambandi við verzlunarmálin, að hún hafi útrýmt hinum svokallaða svarta markaði, hún hafi skapað jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar. En ég vil leyfa mér að halda því fram, að það hafi aldrei í sambandi við fjármál á Íslandi verið annar eins svartur markaður og nú er, það hafi aldrei verið annað eins jafnvægisleysi í sambandi við framboð og eftirspurn eins og nú er á lánsfjármagni á Íslandi. Og það er orsökin til þess, að þm. bæði stjórnarandstöðunnar og hæstv. ríkisstj. koma fram með hvert frv. á fætur öðru og hafa gert það á undanförnum þingum til þess að reyna að bæta úr neyðarástandi, sem þarna er, og laga svartan markað, sem á ekki neinn rétt á sér.

Þessar kröfur um lán eru orðnar svo miklar, að það er farið að fara út í það, að hér á fjárlögunum eru afgreiddar heimildir til ríkisstj. um að veita svo og svo mikið lán, og síðast í gær var í Sþ. verið að ræða og hæstv. ríkisstj. að gefa skýrslu um, hvernig hún ráðstafar fleiri milljónatugum, sem hún lánar út, rétt eins og hún væri einhver bankastofnun, og áður er búið að taka stórfé, sem innheimt hefur verið með sköttum, af þjóðinni til þess að láta í lánsfjárstarfsemi.

Nú vil ég, og það hef ég raunar gert oftar, taka fram, að ég álít, að þetta lánsfjárástand, sem nú er hér á Íslandi, sé algerlega óeðlilegt í fyrsta lagi og í öðru lagi sé þessi lánsfjárkreppa tilbúin, hún eigi engan rétt á sér eins og efnahag Íslendinga er háttað. Það er t. d. nú svo komið, að seðlaveltan sjálf á Íslandi — 250 millj. kr. — er minni en það innstæðufé, sem bundið er í svokölluðum mótvirðissjóði, sem nú er um 289 millj. alls, og það er þá nokkurn veginn gefið, að það seðlamagn, sem núna er í umferð á Íslandi, er langt frá því að fullnægja á nokkurn hátt þeirri lánsfjárþörf, sem hér er. Því hefur verið haldið fram, að það væri ekki hægt að auka lánsféð á Íslandi og það sé ekki hægt af fjárhagslegum ástæðum að auka seðlaútgáfuna, nema því aðeins að fólkið sparaði meira. Þegar talað er um þennan sparnað, þá er alltaf átt við það, að fólk leggi meiri peninga inn í sparisjóðsdeildir bankanna eða sparisjóðina. En ég vil leggja áherzlu á, að það hefur aldrei átt sér stað annar eins sparnaður á Íslandi og á þessum 10 síðustu eyðsluárum, sem oft er verið að tala um með mikilli vandlætingu. Það hefur aldrei nokkurn tíma verið hrúgað saman eins miklum auðæfum hérna á Íslandi, sem þjóðin er búin að borga upp, eins og á þessum undanförnum 10 árum. Ég er búinn að margrekja hér í þessari hv. deild, hvernig er um húsabyggingarnar, verðmæti þeirra og hvað lánin eru hverfandi lítill hluti þar af. Það eru yfir 2000 millj. kr. í verðmætum í húseignum á Íslandi núna, sem engin lán eru út á, og meginið af þessu hefur verið skapað á síðasta áratug, án þess að menn hafi fengið nokkurt lán út á það. Ég skal taka það fram sem dæmi, að ef við hugsuðum okkur t. d., að öll Norðurlönd væru ein fjármálaleg heild, og ef venjulegur eigandi að íbúð eða húsi hér í Rvík ætti undir slíkum kringumstæðum að njóta sama venjulegs réttar og borgari í Danmörk eða Svíþjóð nýtur, þá mundi vera hægðarleikur fyrir íslenzka ríkisborgara, ef þeir notuðu margir slíka heimild, að fá lán svo að skiptir hundruðum millj. kr. út á sínar húseignir. Það þykir eðlilegt ástand í löndum eins og Danmörku, að menn geti fengið veðlán út á sín hús, ekki bara til 40 ára, eins og hérna þykir alveg sérstök fríðindi, heldur jafnvel til 70–80 ára, — ég tala ekki um þegar það eru ný hús, sem koma til með standa um aldir, — fá slík lán með vöxtum, sem eru aðeins partur af þeim vöxtum, sem hérna eru, og fá slíkt út á meira en 50% af andvirði húsanna. M. ö. o.: Það er skapað alveg óeðlilegt lánsfjárástand hérna á Íslandi, og þetta lánsfjárástand liggur eins og mara á þjóðinni, skapar svartan markað hvað peningana snertir og er smám saman að féfletta fjöldann allan af þeim mönnum, sem mest hafa sparað á undanförnum áratugum, þeim mönnum, sem hafa skapað verðmæti fyrir þjóðina. sem koma til með að standa í aldaraðir, en fá ekki lánað út á þessi verðmæti, heldur ætlazt til, að þeir borgi þau jafnvel upp á 15–20 árum.

Það er alveg óhjákvæmilegt, að lánsfjármálin í heild séu tekin til umræðu hér á Alþingi. En ég hef tekið eftir því, að hæstv. ríkisstj. kinokar sér við að ræða þessi mál, og hef ég líka sagt það hér oftar en einu sinni, af hvaða ástæðum hún gerir það. Ég veit, að svo framarlega sem þetta frv. okkar væri sent til umsagnar Landsbankans, eins og ég máske býst við að sú hv. n., sem það fær til meðferðar, geri, þá mundi hann vafalaust hafa á móti þessu. Hann mun áreiðanlega færa fram þau rök, að hann hafi ekki peninga til þess að geta snarað út svona miklu. Og hann kemur til með að færa fram þau rök, að nú sé verið að taka af honum allan mótvirðissjóðinn og hann verði að snara honum út til Framkvæmdabankans, mótvirðissjóðinn, sem hann hefur haft sem sérstakan reikning hjá sér hingað til.

Nú vitum við hins vegar, að auðvitað er seðlabankinn ekki í neinum vandræðum með að láta af hendi fé, hann hefur meiri möguleika á því heldur en nokkur annar aðili í landinu. Og svo framarlega sem stjórn seðlabankans álíti, að henni væri skorinn of þröngur stakkur með núverandi landsbankalögum, þá býst ég við, að það væri hægur vandi að fá hér á Alþingi breytt þeim reglum, sem núna gilda um seðlaútgáfuna, ef stjórn Landsbankans óskaði eftir því, vegna þess að þær reglur eru alveg úreltar. Þær eru ekki í neinu samræmi við þann rekstrarmáta, sem á sér stað í okkar atvinnulífi eins og nú stendur, eins og varla er von, samdar raunverulega á tíma liberalismans fyrir mörgum áratugum. En það er annað, sem ég veit að stendur þarna í veginum, þ. e., að hæstv. ríkisstj. mun vera bundin skuldbindingu, sem hún hefur aldrei fengizt til að gefa upp gagnvart Alþingi, um lánsfjármálin á Íslandi. Ég hef margskorað á hæstv. ríkisstj. að segja til um það, en hún hefur aldrei fengizt til þess.

Það, sem ég hef haldið fram, er það, að um leið og samningarnir voru gerðir um mótvirðissjóðinn og Ameríkönunum gefin heimild til þess að hafa vald til að leggja sitt endanlega samþykki á, hvort veitt skuli úr mótvirðissjóðnum, þá hafi þeir tvímælalaust farið fram á, að þeir fengju að hafa eftirlit með, hve mikil lánsfjárveltan og seðlaútgáfan á Íslandi væri, því að það lá í augum uppi, eins og margoft hefur verið haldið hér fram af mér og ekki mótmælt af öðrum, að það að leggja, þótt það væri 200–300 millj. kr., inn á sérstakan reikning í Landsbankanum, sem kallaður væri mótvirðissjóðurinn, gaf Ameríkönunum engan möguleika til þess að ráða neinu um efnahagsmál á Íslandi, svo framarlega sem viðkomandi ríkisstj. og stjórn Landsbankans notuðu sér sitt vald yfir bankanum til þess að skapa sér aðra reikninga, önnur lán þar og veita úr þeim til þeirra framkvæmda, sem með þyrfti. Við skulum taka sem dæmi: Ríkisstj. vill láta reisa verksmiðju og vill fá féð úr mótvirðissjóði. Hún þarf 100 millj. kr. lán til þess. Ameríkanar segja nei. Í staðinn fyrir að taka þetta úr mótvirðissjóði semur ríkisstj. við Landsbanka Íslands um að veita þetta 100 millj. kr. lán, og mótvirðissjóðurinn er að þessu leyti síðan aldrei notaður. Það var hægt að gera mótvirðissjóðinn og allt kontrol Ameríkananna, sem hann heimilaði, að engu, með því að skaffa bara önnur reikningslán hjá Landsbankanum í staðinn. Við þessum leka hefur áreiðanlega upphaflega verið séð með því móti, að ríkisstj. hefur skuldbundið sig til þess að auka ekki seðlaútgáfuna og sérstaklega ekki almenna lánaveltu í landinu nema með samþykki þeirra fulltrúa, sem Alþjóðabankinn eða ameríska auðvaldið hefði hér, enda var það engin tilviljun, hvernig stöðvað var hér á Alþingi frv. um að gefa frjálsar byggingar húsa og hvernig sá maður, sem ríkisstj. mun nú ætla sér að láta fá enn þá meira fjármálaeftirlit hér á Íslandi, heldur en hingað til, Benjamín Eiríksson, hefur verið, áður en hann varð framkvæmdastjóri Framkvæmdabankans, eins konar eftirlitsmaður í öllum bönkunum hérna til þess að rannsaka, hvort ekki kynnu einhversstaðar að leynast víxlar, sem væru raunverulega ætlaðir til húsabygginga, án þess að það væri gefið upp. Það er þess vegna alveg gefið, að sem stendur er Ísland bundið af leynilegum skuldbindingum um lánsfjárveltuna í landinu og seðlaútgáfuna í landinu, sem ríkisstj. hefur gengið inn á, þegar mótvirðissjóðurinn upphaflega var settur. Og það eru þessir fjötrar, sem herða nú að okkur í sambandi við lánsfjárveltuna á Íslandi og skapa þetta óþolandi ástand, sem nú er orðið fyrir þjóðina, ástand, sem leiðir til þess, að framleiðslan á Íslandi er minni en hún gæti orðið annars, að auðsköpun á Íslandi er margfalt minni en hún gæti orðið annars, að það er byggt miklu minna af húsum en Íslendingar mundu geta byggt, að það er veiddur miklu minni fiskur en annars væri veiddur og unnið miklu minna úr honum en ella væri hægt.

Þessi tilbúni lánsfjárskortur, þessi fjötur, sem lagður er á þjóðina í samstarfi við það ameríska auðvald, sem hefur yfirstjórnina í okkar fjármálum, þrengir þannig að þjóðinni núna, að hún kvartar og kveinar undan því, meira að segja þm. stjórnarflokkanna koma fram með frv. um tugi millj. kr., jafnvel upp undir 100 millj. kr. lán, sérstaklega fyrir kosningar, en síðan gerist ekki neitt. Það er þægilegra að dylja svona fjötra fyrir fólkinu heldur en nokkra aðra Alþýða manna er svo vön að trúa því, að það séu einhver ákveðin lögmál, sem stjórni viðvíkjandi peningamálum, einhver óhagganleg lögmál, menn halda jafnvel, að peningar séu eitthvert vald út af fyrir sig, jafnvel að þeir séu eitthvað meira en ávísanir, sem mennirnir gefa út sjálfir. Mönnum skilst jafnvel ekki til fulls, að peningarnir skapa ekkert og gera ekki neitt, nema þeir eru ávísun, sem gengur manna á milli og gerir þeim þægilegri þeirra viðskipti, en að það er vinna mannanna og þeirra tæki og þau hráefni í láði og legi og í lofti, sem skapa auð, en útgáfa þessara ávísana er til þess að gera þægilegri viðskiptin okkar í milli. Það er hún, sem stendur raunverulega á til þess að hagnýta okkar vinnuafl, okkar tæki og okkar auð til fulls, fyrir utan það þjóðfélagslega ranglæti og þær slæmu þjóðfélagslegu afleiðingar, sem það veldur, að þessi lánsfjármál skuli ekki vera í eðlilegu lagi.

Ég álít þess vegna, að það væri alveg brýn nauðsyn, að þessi mál væru tekin fyrir í heild og fengjust rædd hér í heild. Og það er ef til vill ekki að ófyrirsynju, að ég segi það einmitt í sambandi við meðferð málsins um stofnlánadeildina. Ég stóð í því hér fyrir 8 árum, þegar þessi lög, á næstum heilu ári, voru pískuð hér í gegn á endanum, að verða að sýna fram á, að það væri fjármálalega eðlileg og sjálfsögð ráðstöfun að skylda seðlabankann til að gefa út 100 millj. kr. í ísl. peningum í einu lagi til þess að gera Íslendingum mögulegt að kaupa togarana. Þá þurfti ég að berjast fyrir þessu í upp undir heilt ár. Þótt búið væri að kaupa togara erlendis fyrir útlent fé, þá var samt staðið á móti því hérna heima og haldið, að það væri eitthvað, sem mundi skapa verðbólgu eða eitthvað annað slíkt, að gefa út 100 millj. kr., sem strax aftur yrðu lagðar inn til þess að setja yfir í útlent fé. Skilningsleysið á nauðsyn þjóðarinnar fyrir framleiðslutæki og á að halda atvinnulífi í gangi hefur verið svo mikið hvað eftir annað, að menn hafa látið þessa leynilegu og ósýnilegu fjötra, sem tilbúinn lánsfjárskortur er, hindra sig í því að skapa eins mikinn auð handa þjóðinni og hægt væri að gera. Þetta litla frumvarp leysir þess vegna aðeins úr hverfandi litlu broti af þeim vandamálum, sem fyrir þjóðinni liggja, en nokkur bót væri þó að þessum 20–30 millj., sem með því fengjust.

Ég býst ekki við frekar en vant er, að hæstv. ríkisstj. fáist til að ræða þessi mál. Það virðist nú svo komið, að henni finnist auðsjáanlega betra að borga 6% vexti af fé, sem hún jafnvel leggur inn til Landsbankans, en að skylda seðlabanka þjóðarinnar til þess að leggja fram fé með 2% vöxtum, og það er nú satt að segja undarlegur búskapur. Ef til vill finnst henni líka orðið þægilegra, að þau lán, sem veitt séu, séu veitt sem heimild handa henni á fjárlögum, það séu veittir jafnvel nokkrir tugir millj. kr. og ríkisstj. geti ráðstafað þessu eftir því, sem henni þóknast, og ég skal engan veginn neita því, að slíkt geti verið mjög þægilegt, ekki sízt rétt fyrir kosningar, enda mikið að því gert í allt sumar. Ég skil líka ósköp vel þá aðferð ríkisstj., sem hún hefur haft undanfarið í sambandi við lánin til smáíbúðanna, að taka formann Framsóknarfélagsins í Reykjavík og formann íhaldsfélagsins í Reykjavík og fela þeim að úthluta nokkrum millj. kr. nokkru fyrir kosningar handa þeim, sem séu að byggja smáíbúðir. Þetta er náttúrlega ósköp þægilegt fyrir eina ríkisstjórn, miklu betra en að skapa eðlilega lánsfjárseðlaveltu í landinu. En mér finnst bara heiðarlegra, að þeir bankar, sem í landinu eru, séu látnir hafa með þessa hluti að gera og að þeim málum sé komið í almennilegt horf, því að með því, sem hér er að gerast í þjóðfélaginu núna, núverandi pólitík ríkisstj., er ekki aðeins verið að skapa svartan markað fyrir þá, sem okra á peningum, það er líka verið að gera ríkisstj. mögulegt að skapa svartan markað í sambandi við kosningar, að nota peninga, sem hún knýr fram á fjárlögunum, til þess að reyna að ná ítökum og að ná kverkataki á svo og svo mörgum bæjarfélögum í landinu. Það er verið að skipuleggja spillingu í stórum stíl með þeim lánsfjárskorti, sem hér er, og það fara að verða nokkuð greinileg tengslin á milli, þegar Ameríkaninn segir fyrst við ríkisstjórnina: Nú megið þið ekki gefa út meira af seðlum eða lána meira fé en ég leyfi ykkur, og ríkisstj. fellst á það og þorir aldrei að ræða þau mál frammi fyrir Alþ., og þegar ríkisstj. svo því næst tekur þá peninga, sem ættu að ganga í gegnum lánsstofnanirnar og segir: Þessum peningum vil ég fá að úthluta með þeim skilyrðum sem ég set, taka togara undan yfirráðum bæjarfélaga, setja togara undir yfirráð gæðinga ríkisstj., ná tökum á atvinnutækjum, jafnvel heilum bæjarfélögum, með svona móti. Við sjáum alveg, hvert þessi lánsfjárspilling, sem hér er verið að skapa á Íslandi, er að leiða.

Og það er kannske ekki undarlegt, að hæstv. ríkisstj. fáist aldrei til þess að ræða neitt af þessum málum. Lánsfjárokrið á Íslandi nú sem stendur er að verða sterkasta vopn ríkisstj., ekki aðeins í þeim almennu fjármálum landsins, heldur líka í stjórnmálunum. Utan af öllu landi streyma menn hingað til Reykjavíkur til ríkisstj. til þess að biðja um peninga. Lánsstofnununum er haldið niðri. Það er hindrað, að það sé eðlileg lánsfjárvelta á Íslandi. Það er hindrað, að það sé eðlileg seðlavelta á Íslandi. Það er hindrað, að það sé jafnvel hægt að taka lán erlendis, sem það ríka Ísland vel gæti tekið. Það er verið að féfletta almenning með þeirri lánsfjárpólitík, sem núna er rekin. Það er verið að koma bæjarfélögunum í greiparnar á lítilli auðmannaklíku ríkisstjórnarinnar hér í Reykjavík. Ég skil vel, að hæstv. ríkisstj. kærir sig yfirleitt ekki um að standa fyrir máli sínu í þessum sökum. Fólkið er ákaflega vant við að líta á allt, sem heitir peningamál, sem eitthvað, sem sé næstum því eins og guð almáttugur stjórni því, peningavelta í þjóðfélagi og allt annað slíkt, það sé einhver alveg órjúfanleg lögmál, það sé óhugsandi, að það sé skapaður af ráðnum hug skortur til þess að gera þá, sem þurfa á lánsfé að halda, háða þeim, sem hafa stjórnarvöldin. Ég hefði þess vegna gjarnan kosið, að hæstv. ríkisstj. hefði komið fram með sína afstöðu í þessum málum, en ég býst ekki við, að hún fáist til þess frekar en vant er, henni þykir venjulega bezt að láta þögnina geyma rökin fyrir sinni pólitík.

Ég vil svo leyfa mér að leggja til, að að lokinni þessari umr. sé þessu frv. vísað til hv. fjhn.