23.10.1953
Neðri deild: 9. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 351 í C-deild Alþingistíðinda. (2547)

58. mál, áburðarverksmiðja

Einar Olgeirsson:

Það var aðeins, herra forseti, örstutt athugasemd. Viðvíkjandi bændum sem neytendum talaði ég um það, að það væru notendur rafmagnsins, sem þetta kæmi fyrst og fremst til með að hvíla á hér í Rvík og á Suðurlandsundirlendinu, og bændur eru þar hverfandi litlir notendur rafmagns, — það eru þeir rafmagnsnotendur raunverulega, sem koma til með að standa undir einu af því þyngsta þarna, nema því aðeins að eigi að fara að reikna jafnvel sérstaklega hátt verð fyrir áburðinn til bænda, þá náttúrlega kemur það til með að hvíla einnig með þunga á þeim.

Viðvíkjandi kaupfélögunum skilgreindi ég, þegar ég var að spyrja, orðið félagssamtök, —ekki stéttarsamtök, heldur félagssamtök. Og „félagssamtök bænda“ er miklu víðtækara en stéttarsamtök. Það er alveg rétt hjá hv. flm., að kaupfélög mundu aldrei vera skoðuð sem stéttarsamtök bænda, en sem félagssamtök bænda held ég að þau mundu verða skoðuð, þegar það væri um að gera kaupfélög, sem svo að segja einvörðungu bændur væru í.

Hvað snertir þá pólitísku hlið á þessu, þá er bezt fyrir okkur að ræða hana alltaf með hliðsjón af veruleikanum fyrir augum. Við, sem þekkjum alræði Framsóknar á þessum sviðum, vitum alveg hreint, hvernig hún mundi hagnýta svona hluti, ef það kæmist í gegn.