23.10.1953
Neðri deild: 9. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 354 í C-deild Alþingistíðinda. (2554)

64. mál, sömu laun kvenna og karla

Flm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Allir þm. Alþfl. í þessari hv. deild flytja þetta frv., sem nú er til umræðu. Efni þess er að lögfesta, að konum skuli greidd sömu laun sem körlum, að hvaða störfum sem þær ganga ásamt karlmönnum.

Í 1. gr. er það tekið sér, að íslenzka ríkið skuli greiða konum sömu laun og körlum í öllum störfum, embættum og sýslunum.

Það mun fyrst hafa verið árið 1911, sem konur fengu rétt að lögum til embætta hér á landi; þangað til áttu þær engan rétt til slíks. Og sú venja hefur skapazt án lagasetningar, að konur, sem gegna embættum hjá íslenzka ríkinu, hafa sömu embættislaun. Sennilega hefur gleymzt, þegar fyrsta konan tók við embætti, að setja sérstök lagaákvæði um það, að hún hefði lægri laun. Að minnsta kosti er þetta svona. En aftur á móti er það um margvísleg störf og sýslanir hjá íslenzka ríkinu á þann veg, að konur eru þar með allt önnur laun en karlmenn og miklu lægri. Sama er um þetta að segja hjá íslenzkum sveitarfélögum og bæjarfélögum, að konur eru þar oftlega í sams konar starfi og karlmaður, en njóta miklu lakari launakjara.

1. gr. er ætlað að taka af öll tvímæli um þetta og réttlæta það æpandi ósamræmi, sem nú ríkir í þessum efnum, og vitanlega algera ranglæti.

2. gr. er um það, að þegar fólk sé fært milli launaflokka, þá skuli sömu reglur gilda um færsluna milli launaflokkanna, hvort sem konur eða karlar eigi í hlut. Það sýndist nú svo sem það væri nálega óþarft að lögfesta slíkt, og andi gildandi launalaga er ótvírætt sá, að konur eigi að njóta sem mest launajafnréttis á við karlmenn. En í framkvæmdinni hefur það orðið svo hjá ríkisembættismönnum og forstjórum stofnana, að konur hafa ekki verið færðar milli launaflokka eftir sömu reglum og karlmenn, og þegar maður hefur haft margra ára reynslu af því, að framkvæmdin er þessi, þá er ekki annað fyrir hendi en að setja lagaákvæði um þetta sjálfsagða atriði.

Ég veit það, að mörgum dettur í hug, að það sé sízt af öllu ástæða til þess, að konum séu borguð lægri laun við verzlunarstörf, skrifstofustörf og afgreiðslustörf og þess konar, og það geti varla verið, að þar sé um mikinn launamismun að ræða milli karla og kvenna, en þarna er kannske einna mestur launamismunur milli karla og kvenna í framkvæmdinni. Því er það efni 3. gr. þessa frv., að skrifstofustörf öll og afgreiðslustörf í verzlunum skuli greidd með sama kaupi, hvort sem þau séu unnin af körlum eða konum.

Að lokum kemur svo að því að taka af öll tvímæli um það, að við hin venjulegu daglaunastörf, erfiðisvinnu, vinnu við iðju og iðnað, þ. á m. störf í hraðfrystihúsum, t. d. fiskiðnaðarins, skuli konum greidd sömu laun og körlum, og til þess að hafa þar engar smugur, — því að ef smugur fyndust, þá yrðu þær notaðar, — er það ákvæði, að öll sérákvæði í samningum stéttarfélaga um lægri laun til handa konum en körlum skuli falla úr gildi, þegar þetta frv. yrði að lögum, eða í seinasta lagi frá 1. jan. 1954.

Ég held, að þeir verði fáir, sem treystast til þess að mæla gegn því, að þetta frv. flytji réttlætismál. Þetta mál er fyrst og fremst flutt af Alþfl. sem réttlætismál. Það er ekki flutt sem neitt sérmál kvenna. Það er jafnréttismál og réttlætismál, sem ætti ekki að þurfa að gera ráð fyrir að yrði barizt á móti af neinum.

Það er skammt síðan konur höfðu ekki rétt til náms í skólum ríkisins. Þær höfðu ekki rétt til að taka próf, þó að þær hefðu fengið að njóta námsins. Þær höfðu ekki rétt til íslenzkra embætta í þjónustu ríkisins, hvaða lærdóm sem þær höfðu, fyrr en það var tekið í lög árið 1911. Þær höfðu ekki atkvæðisrétt, hvorki í sveitarstjórnarmálum né til Alþingis og ekki heldur kjörgengi. Og það eru aðeins örfáir áratugir síðan menn opnuðu augun fyrir því, að þetta væri slíkt hróplegt ranglæti, að þetta gæti ekki gengið, og það yrði að tryggja konum með lögum sama rétt og körlum í þessu efni. Sú var líka tíðin, að foreldrar gerðu þannig að íslenzkum lögum upp á milli barna sinna, að sonurinn fékk heilan hlut, þegar skipta skyldi arfi, en dóttirin hálfan, hálfan arf. Einnig það ranglæti var aftekið með lögum. Þannig hefur orðið að saxa ranglætið niður í þessum efnum, og er þó ýmislegt, sem máli skiptir, eftir enn, þ. á m. þetta, sem þetta frv. Alþfl. fjallar um, misrétti kvenna og karla í launamálum.

Vinnuafl konunnar í þjónustu þjóðfélagsins, þjóðfélagsstofnana, er ekki metið á sama mælikvarða og vinna starfsbróðurins. Til þess að kveða það ranglæti niður þarf lagasetningar. Það er alveg greinilegt, að það gerist ekki af sjálfu sér, og það gerist því miður jafnvel ekki við hörðustu baráttu hinna sterkustu samtaka í landinu, þau áorka því ekki, eru búin að fást við þetta verkefni árum og áratugum saman og hafa ekki náð marki, eru í rauninni tiltölulega litlu nær. Yfirleitt má segja, að laun kvenna séu frá 2/3 hlutum, þar sem allra bezt er, upp í 3/4 hluta af kaupi karlmannanna.

Í grg. þessa frv. eru tekin upp úr opinberum skýrslum, mjög nýlega út komnum, ýmis atriði, sem upplýsa það og sýna og sanna, að hér er ekki farið með fleipur. Þessar skýrslur fræða okkur m. a. um það, að af föstum starfsmönnum Rvíkurbæjar á árinu 1950 voru 140 konur í þjónustu bæjarins, þar með taldar kennslukonur og hjúkrunarkonur. Af þessum hópi voru aðeins 2 konur í níu hæstu launaflokkunum, 2 af 140, þ. e. 1 á móti hverjum 70. Hins vegar voru karlmennirnir 118 í níu hæstu launaflokkunum, 118 af 468, þ. e., ¼ hluti þeirra var í níu hæstu launaflokkunum. En aftur í sex lægstu launaflokkunum voru 44,4% konur, en 23.7% karlmenn. Þessar tölur þurfa ekki útskýringa við. Þær er ekki heldur hægt að vefengja, þær tala máli sannleikans, þær auglýsa opinbert og ómótmælanlegt ranglæti.

Hjá fyrirtækjum Reykjavíkurbæjar, rafmagnsveitunni, gasveitunni, vatnsveitunni, hitaveitunni og Reykjavíkurhöfn, voru á árinu 1950 25 konur, sem voru taldar fastir starfsmenn, en af þeim var aðeins ein einasta kona með hærri laun en í 10. launaflokki.

Ég taldi sjálfsagt að afla einnig upplýsinga um, hvernig þessu væri farið hjá íslenzka ríkinu, og sneri mér til ríkisféhirðis og fékk þar nokkrar upplýsingar viðvíkjandi því. Þá kom í ljós, að meðal fastra starfsmanna ríkisins voru, að því er mér var tjáð, 246 konur. Af þeim var engin í fjórum hæstu launaflokkunum, en í fimmta launaflokki fyrirfundust 2 og í sjötta launaflokki aðrar 2 og í sjöunda launaflokki voru 5 konur, þ. e., að í sjö hæstu launaflokkunum hjá ríkinu eru 9 konur. Þetta er á árinu 1953.

Eins og ég áðan sagði, er ekkert samræmi í þessu hjá ríkinu. Þær konur, sem eru embættismenn hjá ríkinu, eins og t. d. veðurstofustjóri, ríkisféhirðir, veðurfræðingur, sem er í þjónustu veðurstofunnar, skólastjórar við tvo æðri skóla, eru á fullum embættislaunum. En hundruð kvenna, sem eru við ýmis störf og sýslanir hjá ríkinu og inna þar vitanlega af hendi störf, sem þær eru jafnfærar um að vinna og gera að öllu leyti eins vel eins og karlmaður sinnti starfinu, eru í hinum lægstu launaflokkum. Þarna er það augljóst, að samræmið er ekkert, það er farið út um þúfur. Hið gamla ranglæti ríkir við hliðina á skilningi hins nýja tíma. Og annaðhvort verða menn að treystast til að bera fram till. um, að kona, sem sé embættismaður, skuli ekki hafa sömu laun og karlmenn, heldur svona í kringum 2/3 til 3/4, og ná þannig samræmi, ellegar þá að viðurkenna, að það sé réttara að færa þetta til samræmis á þann veg, að allar konur í þjónustu ríkisins skuli fá sömu laun fyrir vinnu sína eins og ef störfin væru innt af hendi af karlmanni.

Það er ekkert vit í þessu, a. m. k. á þennan veg, sem það er nú í framkvæmdinni. Það er ef til vill helzt hægt að skjóta einhverjum stoðum raka undir það, að í erfiðisvinnu skyldu konur hafa lægra kaup en karlmenn, því að þar mætti ætla í ýmsum tilfellum, að afköst konunnar yrðu minni. Það er líka svo, að í daglaunavinnunni hafa konur lægra kaup en karlmenn, og það er frá 2/3 og upp í 3/4, sem þær hafa af launum karla. Eðlilegast væri kannske, að þarna væri mestur mismunurinn á kaupi karla og kvenna, en hann er minnstur þarna — og hverju er það að þakka? Það er að þakka áratuga baráttu verkalýðsfélaganna. Það er allvíða, að kaup kvenna við erfiðisstörf er komið upp í 3/4 af kaupi karlmanna.

Nú er það að vísu svo, að meginhluti allra starfa í atvinnulífi þjóðarinnar er með vaxandi tækni orðinn svo auðveldur og léttur, að afl og úthald kvenmannsins dugir til þess að inna störfin af hendi og að meiri líkamsorka karlmannsins sýnir þannig ekki yfirburði í afköstunum. En með þessari breytingu í atvinnulífinu hverfur í burtu meginástæðan fyrir því að hafa þarna tvenns konar kaup, annað og lægra handa konum og hærra handa karlmönnum. Það er líka kunnugt, að við störf, jafnvel mjög erfið störf eins og fiskvask, er það gömul og ný reynsla, að jafnvel í slíkum þrældómi sem slík vinna er ná konur meiri afköstum en karlmenn. Karlmennirnir verða þar bókstaflega að sætta sig við það að ná minni starfsárangri, þegar hvort tveggja vinnur hlið við hlið í akkorði. Og það er eingöngu því að þakka, að við þetta starf hefur ekki verið borgað með tímavinnukaupi, heldur eftir ákvæðisvinnutöxtum, að konurnar hafa þar fengið sinn rétt — og stundum borið meira úr býtum, af því að þær afköstuðu meira en karlmenn, sem unnu að fiskþvotti. — Í hraðfrystihúsunum er það alveg óumdeilanlegt, að konur eru þar eins góður vinnukraftur og karlmenn. Það er ef til vill hægt að halda því fram, að þegar á að flaka stóran fisk og gera það langan vinnutíma, þá geti karlmennirnir náð meiri afköstum við það verk út af fyrir sig í heild, en jafnvíst er hitt, að við öll þau störf, sem tilheyra innpökkun og vigtun fiskflakanna, sem er mikill þáttur í störfum hraðfrystihúsanna, eru konurnar langtum betri og afkastameiri vinnukraftur heldur en karlmenn. Í heild er því áreiðanlega hægt að fullyrða, að kvenfólk er eins verðmætur vinnukraftur í þjónustu fiskiðnaðarins og karlmenn og allur kaupmismunur milli kynjanna ætti á því sviði að falla niður. Nákvæmlega sama má segja um flest störf við iðju og iðnað í landinu, en þar er geysimikill munur á kaupinu. Sem dæmi er hér sagt frá því í grg. frv., að samkvæmt samningum Iðju, félags verksmiðjufólks í Reykjavík, er hæsta mánaðarkaup kvenna 1200 kr., en hæsta mánaðarkaup karla 1830 kr., og er þá í báðum tilfeilum miðað við grunnlaun. Niðurstaðan er sú í þessu tilfelli, að konur hafa ekki einu sinni 2/3 af kaupi karlmannanna.

En það, sem sætir mestri furðu, þegar þessi mál eru athuguð og skoðuð ofan í kjölinn, er það, að á verzlunarsviðinu, við verzlunarstörf og skrifstofustörf, er kaupmismunur karla og kvenna hvað mestur. Og af hverju? Ja, það er af því, að hið starfandi fólk í verzlunarlífinu hér á landi hefur ekki haft skilning á því að bæta kjör sín með atbeina stéttarfélaga og stéttarfélögin hafa þar ekki fjallað um að rétta hlut kvenna á líkan hátt og þau hafa gert við hina erfiðari daglaunavinnu.

Við athugun á samningum Verzlunarmannafélags Reykjavíkur hefur komið í ljós, að í hæsta launaflokki, sem í eru skrifstofustjórar og 1. flokks fulltrúar, er eingöngu miðað við karla. Það er ekki gert ráð fyrir því, að í þessum fyrsta og hæsta launaflokki sé nein kona, enda er það ekki. Í 2. flokki, en í honum eru aðalbókarar og fulltrúar 2. flokks og 1. flokks bréfritarar, sölustjórar og aðalgjaldkerar, er líka eingöngu miðað við karlmenn. Það er ekki fyrr en komið er niður í b-lið í 4. flokki, sem er um aðstoðarfólk á skrifstofum, að í fyrsta sinn í samningunum er gert ráð fyrir konum og körlum í sama launaflokki. Þar má jafnréttið byrja.

Um afgreiðslufólk í búðunum er alveg sömu söguna að segja. 1. flokks deildarstjórar eru eingöngu karlmenn, og 1. flokks afgreiðslumenn skulu líka eingöngu vera karlmenn samkvæmt þessum samningum — alls ekki gert ráð fyrir því, að neinar konur geti verið 1. flokks deildarstjórar eða afgreiðslumenn. En konur geta aftur á móti orðið 2. flokks deildarstjórar. Nú þekkjum við flest til þessara starfa eitthvað meira eða minna og sjáum, að nálega í hverri verzlun eru bæði piltar og stúlkur, karlar og konur, og þau vinna þar hið sama verk, að rétta — oftast nær tiltölulega létta hluti fram yfir búðarborðið, afgreiða eitt kg af kaffi, einn smjörlíkispakka o. s. frv., o. s. frv. Þau afgreiða álnavörur, meðan búðin er opin. og það má vera með ólíkindum, ef það er yfirleitt þannig, að karlmaðurinn afgreiði þar meira, skili meira verki og verðmætara en afgreiðslustúlkan við hliðina á honum. En samt er það svona, launamismunurinn er verulegur og bezt launuðu störfin eru ekki ætluð konum.

Að því er snertir mánaðarkaup karla og kvenna við verzlunarstörf, er það að segja, að afgreiðslumenn skulu hafa kr. 1351.35 í mánaðarlaun, þegar þeir byrja, en afgreiðslustúlkur með sömu menntun skulu hafa 1053 kr. Þetta er launamismunurinn þarna.

Launamismunurinn við erfiðu störfin hérna í Reykjavík er sá, að samkvæmt taxta verkakvennafélagsins Framsóknar hafa konur frá kr. 6.60 og upp í kr. 6.90 á klst. eftir tegund vinnunnar, en karlmenn eftir taxta verkamannafélagsins Dagsbrúnar hafa þá frá kr. 9.24 og upp í kr. 12.00 á klst. eftir tegund vinnunnar. Munurinn er þarna mikill, en hann er samt minni en á verzlunar- og skrifstofusviðinu og á sviði iðnaðarins.

Það er mjög stutt síðan það þótti alveg sjálfsagt að haga launamálum verkafólks á þann hátt, að langhæsta kaupið væri greitt í Reykjavík og næsta nágrenni hennar, en kaup væri nokkru lægra í stærri kaupstöðunum úti um land, en miklu lægra kaup í kauptúnum úti um land, og sennilega hefur svo verið gengið út frá því, að það félli vel inn í kerfið, að svo væri lægst kaup í sveitum landsins. Á þessu er nú orðin mikil breyting. Í meginhluta landsins er nú gildandi hið sama kaup og launamismunurinn í stærri kauptúnum orðinn hverfandi og sums staðar enginn miðað við Rvík. Vitanlega horfir þetta alveg rétt. Þetta var sjálfsögð leiðrétting. En það var sagt, þegar verið var að tala um, að það yrði greitt sama kaup í kauptúnunum kringum Ísafjarðardjúp og í Ísafjarðarkaupstað, að það mundi ríða öllu atvinnulífi á slig í sjávarþorpunum, og sagt, að ef kaupið í Hnífsdal, Bolungavík og Súðavík væri knúið upp í það sama og á Ísafirði, þá legðist öll útgerð þar niður, í bezta tilfelli yrði að lækka verðið á fiskinum, og það yrði þá að bitna á sjómönnunum, sem fengist fram til hagsbóta fyrir verkafólkið í þessu efni. En þetta voru eintóm falsrök, og það var vitanlega ekki hægt að taka tillit til þeirra, og svo er kaupið í þessum kauptúnum hið sama og í Ísafjarðarkaupstað.

Nú skyldi maður ætla, að meðan atvinnurekendurnir í kauptúnunum höfðu lága kaupið, þá hefðu þeir grætt meira en atvinnurekendurnir á Ísafirði. Það var þveröfugt. Þeir atvinnurekendur stóðu sig verst, sem höfðu lægst kaupið. Það er fyrst eftir að kaupið var hækkað í þessum kauptúnum, sem atvinnulífið tók að taka verulegum framförum og er nú með einstökum glæsibrag þar, sem það hefur um áratugi verið hæst. Og þetta er ekkert torráðin gáta. Meðan þeir höfðu ódýra vinnukraftinn, þá létu þeir sér nægja alls konar vinnufrek vinnubrögð, gættu engrar hagsýni í atvinnurekstri sínum, héldu sig græða á lága kaupinu og skeyttu því ekki þeim ágóða, sem hægt var að hafa gegnum aukna tækni. En til þess urðu þeir neyddir, þegar lága kaupið hvarf, og við það réttu þeir sig úr eymdinni og kútnum, atvinnurekendurnir, auk þess sem velferð fólks auðvitað jókst við þetta. Þetta ranglæti, sem var rótgróið, allir töldu til skamms tíma sjálfsagt, töldu nauðsyn atvinnulífsins, er nú horfið, og það hefur orðið til blessunar.

Alveg eins er með launamismun karla og kvenna. Þetta eru leifar gamals tíma. Þetta er ranglæti, sem menn einungis geta þolað vegna vanans, sem menn halda, að sé búinn að helga það, en það á engan rétt á sér, og það á að hverfa, hverfa sem fyrst, alveg eins og launamismunurinn hefur horfið fyrir baráttu stéttasamtakanna á hinum ýmsu stöðum á landinu.

Ríkið er búið að stíga langt skref til þess að eyða launamismun kvenna og karla. Það launar embættismenn eins, hvort sem það eru konur eða karlar. Það á að launa alla starfandi menn og konur eins, hvoru kyninu sem starfsmaðurinn tilheyrir. Það dettur engum í hug, að ríkið eigi nú að græða á því að ætla þeim konum, sem eru embættismenn í þjónustu ríkisins, lægri embættislaun heldur en körlum, og að nokkrum árum liðnum munu allir sjá, hvílík fjarstæða það væri að hafa nokkurn launamismun karla og kvenna.

Verkalýðshreyfingin og kvenréttindahreyfingin um heim allan hafa lengi beitt sér fyrir því, að konur nytu sömu launa og karlmenn. Alþjóðaverkalýðssamtökin hafa ár eftir ár, einkum nú hin síðustu ár, gert samþykktir um það, að launamismunur karla og kvenna verði að hverfa úr sögunni. Alþjóðasamband frjálsra verkalýðsfélaga, sem hélt þing í Stokkhólmi s. l. sumar, gerði samþykktir um þetta efni og hét á fulltingi alþýðusamtakanna í öllum löndum meðlimafélaganna að beita sér fyrir því, að sömu laun yrðu lögfest fyrir konur sem karla í viðkomandi löndum. Alþjóðavinnumálastofnunin í Genf hefur og á öllum þingum sínum hin síðustu ár beitt sér fyrir þessu máli, og fyrir hv. Alþ. hafa einum þrisvar sinnum legið prentaðar skýrslur og gögn frá þeirri virðulegu stofnun með áskorun til íslenzka ríkisins um að afmá launamismun kvenna og karla. Og íslenzku alþýðusamtökin — við getum nefnt hér Alþýðusamband Íslands — hafa á mörgum þingum undanfarið gert samþykktir um sömu laun kvenna og karla. Kvenfélagasamtökin hér á landi og kvenréttindasamtökin hafa sífellt klifað á þessu máli líka, en með litlum, já, með engum árangri. Vegna þessa, að hér er um óumdeilanlegt réttlætismál að ræða, sem virðist ekki ætla að leysast á annan hátt en með lagasetningu, bera þm. Alþfl. í þessari hv. d. málið fram í frv.-formi og vilja vænta þess, að löggjafarsamkoman styðji réttan málstað og geri frv. að lögum.

Ég held að það sé réttast, að þessu máli verði vísað til allshn. (Forseti: Eða heilbr.- og félmn.)